Lofoten

IMG_0523

Á góðu ferðalagi ætti upphafið eða áfangastaðurinn ekki að vera málið, því gott ferðalag á sér hvorki annað upphaf né endi en heima. Það eru aftur á móti slæm fyllerí sem eiga sér upphaf og endi. Fyrir 10 árum lenti síðuhöfundur á vergang, fór til Noregs til að steypa, enda lítið að gera, -og launin lág, fyrir iðnaðarmann á landinu bláa.

Til stóð að Matthildur mín fylgdi í kjölfarið, en svo fór að hún átti lengst af við heilsubrest að stríða árin þrjú sem ég var í Noregi og kom því þangað einungis í heimsóknir og dvaldi þá mislengi. Ég aftur á móti fór þrisvar á ári heim til Íslands og skipti þá sumarfríinu mínu á milli vors og hausts, auk þess að vera heima hjá fjölskyldunni um jól.

Hver einasta króna þessarar Noregsdvalar fór í að friða gjaldþrota banka vegna persónulegrar ábyrgðar sem við hjónin höfðum skrifað okkur fyrir vegna atvinnurekstrar í íslenskri steypu. Þar að auki fóru sumarfríin í að halda utan um stökkbreytt skuldahalahúsnæði fyrir bankann, sem leigt var til vetrargeymslu hjólhýsa og húsbíla.

Það lenti svo á Matthildi minni að taka á móti þungbrýndum stefnuvottunum á meðan ég naut mín í norsku steypunni. Svo tókum við saman á móti brosandi fólki í sumarskapi á leiðinni í og úr fríi.

Þegar ég var búin að vera handan við hafið í heilt ár og þrauka niðdimman norður-norskan vetur, langt fyrir norðan heimsskautsbaug með örbylgjuofn og skaftpott að vopni upp á hanabjálka, búandi í starfsstöð fyrirtækisins, fór ég að velta því fyrir mér hvar ég væri staddur og komst fljótlega að því að ég væri í rauninni á nyrstu og stærstu eyju Lofoten eyjaklasans.

IMGP5733

 Robuer (gamlar verbúðir) hafa gengið í endurnýjun lífdaga á Lofoten og eru leigðar út sem lúxus gististaðir fyrir ferðamenn

Mette framkvæmdastýra Murbygg hafði margboðið mér sumarið áður að nota bíla fyrirtækisins til að skoða mig um, en því hafði ég alveg sleppt. Hún spurði mig þá hvers vegna ég hefði ekki áhuga á að nota tækifærið og ferðast um fallegasta hluta Noregs þessi ár sem útlegðin stæði, en við höfðum samið um að ég yrði í 3 – 5 ár. Ég sagði henni að göngutúrar í heimabænum Harstad dygðu mér alveg fyrsta árið.

Þegar Matthildur kom sumarið 2012 höfðum við fjölþjóðlegi múrarflokkurinn verið sendir norður í nes Finnanna til að hlaða og pússa veggi næstu 4 mánuðina og bjuggum þar á tjaldstæði, en fórum heim um helgar. Matthildur var þar með okkur og svo fórum við sunnudagsrúnta á vinnubílunum í boði Mette þegar við vorum heima í Harstad, auk þess sem hún lánaði okkur bílinn sinn í sumarfríinu sínu.

Það var þá sem við fórum heila helgi niður allan Lofoten og gistum í robuer, -aflögðum verbúðum sem hafa verið snilldarlega endurnýttar sem lúxus gististaðir fyrir túrista. Þegar við vöknuðum að morgni vorum við komin út á bryggju um leið og útidyrnar voru opnaðar, eitthvað fyrir hana Matthildi mína sjómannsdótturina úr sjávarplássinu þar sem lífið snerist í kringum bryggjuna.

Ég ætla ekki að lýsa Lofoten öðruvísi en með þessum myndum sem fylgja færslunni og svo myndbandinu hér að neðan, -þegar Matthildur dældi myndaum á það sem fyrir augu bar út um framrúðuna á meðan bíllin brunaði suður Lofoten með mig við stýrið og sígild Íslensk dægurlög í spilaranum. Þeir sem frekar vilja ferðast í lofti um Lofoten í fyrirsjáanlegu dróna myndbandi með örlagasinfóníu um eina mestu náttúruperlu Noregs ættu að klikka hér.

 

IMG_0562

Skreiðarhjallar úr trönum og spírum, fast við verbúðir eru víða að finna syðst á Lofoten og er litið með stolti á þessar byggingar sem menningarverðmæti, auk þess sem fiskur og hausar eru ennþá þurrkaðir í þeim á veturna, -eitthvað sem mátti sjá víða á Íslandi fyrir ekki svo löngu síðan

 

 IMG_0579

Eitt af því sem einkennir strendur Lofoten er að þar er víða skjannahvítur sandur

 

IMG_0252

"Ó hve gott á lítil lind leika frjáls um hlíð og dal". -Já það mætti ætla að dægurtextinn "Sem Lindin tær" hafi orðið til á Lofoten. -"Að öllu skyldi kveða óð um unað, ást og trú sem aldrei bregst en hugga lætur"


Bloggfærslur 1. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband