Þarf að endurskrifa Íslandssöguna?

Ég hef farið víða, ég hef verið hér og þar, og ég veit að við öllum þessum spurningum er til eitt og annað loðið svar, -söng nafni minn þjóðskáldið um árið. Svo er það æskufélagi minn sem sjaldnast fer neitt en lendir hingað og þangað. Segja má að svipað eigi við um mig upp úr því að sumardagurinn fyrsti hefur litið sólarupprásina og ég geri hlé á því að lesa á milli línanna eftir há-skaðræðis tímann.

Milli-línu-lestur er sömu lögmálum gæddur og lesblinda. Maður tekur ekkert eftir því sem stendur í leiðbeiningunum, heldur því sem sleppt var að segja þegar þær voru skrifaðar. Rekur svo tærnar oftar en ekki á það sem liggur beint fyrir framan nefið á manni. Þessu heilkenni má einna helst líka við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríinu sínu en var ekki kominn lengra en í næsta fylki þegar sumarfríið varð búið.

Þegar Íslendingasögurnar eru lesnar þá liggja gríðarlegar upplýsingar á milli línanna. Sem dæmi þá er ég með blátt skol í æðum, kominn af Haraldi hárfagra. Er þá styst að rekja til nafna míns berfætts sem stundum hefur verið kallaður síðasti víkingakonungurinn og var drepinn á Bretlandseyjum. Þetta get ég fengið staðfest í Íslendingabók. Svo má líka finna það út að ég sé kominn af Mýrkjartani konungi á Írlandi. Þó svo megi lesa á milli línanna þá gæti þurft að umsnúa einhverjum þúfum til að fá þær staðfestingar að Norðmenn hafi verið gamlir Írar sem áttu eitt sinn heima suður við Svartahaf.

Það á að hafa verið sagt af þjóðminjaverði seint á síðustu öld að það borgaði sig ekki að fara út í þann þúfnaviðsnúning svo það þyrfti að endurskrifa Íslandssöguna vegna einhverra moldarkofa sem finnast í móum landsins. En eftir því sem tækni til aldursgreininga fornminja verður fullkomnari fer æ fleirum að gruna landnámið fyrir landnám, sem Árni Óla skrifaði um, eigi við áþreifanleg rök að styðjast. En ekki einungis að einstaka lesblindingi hafi mislesið Landnámu og Íslendingasögurnar.

Bjarni F Einarsson fornleifafræðingur og hans fólk hafa verið við uppgröft á Stöðvarfirði í nokkur sumur og rannsakað þar hús og gripi, sem Bjarni hnaut um í þýftu túninu á Stöð, fyrst árið 2007. Bjarni segir æ fleira koma í ljós, en fjöldi gripa hefur fundist við rannsóknina auk húsa og telur hann eldri skálann, sem talinn er frá því um 800, vera útstöð frá Norður Noregi þaðan sem fólk hafi ferðast og haft sumardvöl á Íslandi og nýtt sér auðlindir sjávarins, fisk, hval og sel.

Þarna reynir Bjarni að rugga ekki Landnámu um of, en hún greinir svo frá "Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri. Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét engu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi og eru frá honum Stöðfirðingar komnir." -hvernig sem bann við drápi villtra dýra svo samrýmist út-Stöðvar kenningunni og það að hvalir hafi verið dregnir langt inn í dal.

Fornleifarannsóknin á skálanum að Stöð í Stöðvarfirði hefur leitt í ljós að þar hafi verið gríðarlega öflugt býli. Svo virðist sem þar hafi búið höfðingi sem síðar hafi horfið úr sögunni. „Ef við horfum á þá kvarða sem notaðir eru til að mæla auð, völd og stöðu þá er þetta orðið öflugasta býli sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Það er samt alls ekki það sama og að um sé að ræða öflugasta býli landsins. Það er sama á hvaða gripaflokk litið er. Við erum alls staðar með fleiri en fundist hafa í fyrri rannsóknum hérlendis. Þetta er líka stærsti landnámsskáli sem rannsakaður hefur verið. Stærðin er yfirleitt ein öruggasta vísbendingin um velsæld. Þarna virðist hafa búið höfðingi sem síðan hefur horfið úr sögunni.“ Þetta segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrt hefur uppgreftrinum að Stöð frá því hann hófst formlega sumarið 2016.

Rannsóknir á landnámsskála (hugsanlegum) og mögulegri útstöð höfðingja á Stöð í Stöðvarfirði fengu hæsta styrkinn úr Fornminjasjóði í ár (2021), fjórar milljónir króna. Lítið fé til fornleifarannsókna veldur því að aðeins er hægt að vinna í mánuð á sumri. Með þessu áframhaldi tekur tíu ár til viðbótar að ljúka uppgreftrinum.

Nú er semsagt öldin önnur og menn komnir fram fyrir Landnámu þó styrkir séu smáir og hægt gangi þúfnagangurinn. Á sumardaginn fyrsta fórum við Matthildur mín að Stöð í Stöðvarfirði, sem er farið að kalla út-Stöð svo ekki þynnist um of bláablóðið sem Landnáma var skrifuð upp úr á kálfskinnið.

Þegar við komum að út-Stöðvar-uppgreftrinum voru þar tveir Stöðfirðingar fyrir og sögðu okkur að lítillega ætti að gramsa í moldarflagi Bjarna þúfnabana í sumar og freista þess að finna nokkrar perlur í viðbót með teskeiðinni, en þessi uppgröftur er einhver sá ríkulegasti að fornmunum á Íslandi hingað til, auk þess að innihalda stærsta landnámsútskála sem fundist hefur hér á landi.

Gallinn er aftur á móti sá að þessi risa skáli er frá því fyrir skráð landnám og því eru styrkveitingar til rannsókna vandfundnar. Það ku víst vera allt eins auðvelt að fá styrki hér á landi til að grafa upp coke dósir og skrá, sem Bandaríski herinn skildi eftir á öskuhaugunum.


Bloggfærslur 3. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband