Sumar og sólstöður

Það vildi svo einkennilega til að það tók að birta eftir bölmóðinn sem ég setti hérna á síðuna í gær, og birti þeim mun meira eftir því sem fleiri lásu óskapnaðinn. Það verður að teljast meira en lítið skrítið ef bölbænir verða til þess að veður batnar, en hér á Héraði hafði verið ísköld norðan nepja dögum saman. 

Nú er sumar, gleðjist gumar, gaman er í dag; brosir veröld víða, veðurlagsins blíða eykur yndishag, eða svo skildi maður ætla. Þessar ljóðlínur Steingríms Thorsteinssonar verða seint metnar til fjár en þykja varla merkilegar á þeim markaði sem lýtur hagvexti nútímans.

Allavega tala stjórnmálamenn ekki um svoleiðis hagvöxt, hvað þá auðrónar. En aukin yndishagur tekur þó öllum hagvexti fram fyrir Jón og Gunnu. Samkvæmt orðsifjunum þá eru "gumar" hinir jarðnesku jarðarbúar, andstætt við himnesk máttarvöldin. Þessar orðsifja sannindi mættu allir hafa í huga þegar þeir heyra tönglast á hagvexti peninga í stað yndishags manfólksins.

Í dag er sumarsólstöðu sólahringurinn og voru sólstöður kl. 03:32 í nótt samkvæmt Almanaki hins íslenska þjóðvinafélags 2021. Af því að það varð andvökubjart í gærkvöldi þá fór ég út um þúfur á meðan sólin rétt svo sleikti þúfnakollana. En þann sið hef ég haft s.s. segja frá barnæsku, og sef þá ekkert endilega á nóttinni þegar sólin varla sest.

Þar sem ég bjó á 69°N í Noregi hnitaði sólin himininn hærra á sumarsólstöðum og þar hafði ég sama sið þ.e. að fara út um þúfur andvaka. Þar var staður í fjöru, sem mátti njóta miðnætursólarinnar við vaggandi öldunið. Stundum var brekkan upp af fjörunni svo þéttsetin aðdáendum miðnætursólarinnar það líktist áhorfendaskara á fótboltaleik.

Eins hef ég nokkrum sinnum verið um sumarsólstöðurnar á Spáni en þar halda innfæddir upp á þessi tímamót með "Noche de San Juan", sem er náttúrulega bara Jónsmessunótt sem er núna á fimmtudaginn. Þar var San Juan brenndur í bálkesti með viðhöfn á ströndinni, í svarta myrkri á Jónsmessunótt.

Það ætti engin sem er andvaka á þessum bjartasta tíma ársins að sleppa því að fara út um þúfur í Íslenskri náttúru, því upplifunin er einstök þegar orka norðurhjarans flæðir öllu lífi til yndishags. Þetta vita bæði furðu- og farfuglar, og má víða sjá álfa og menn verða sér út um þann yndisauka.

Ps. hér fyrir neðan eru myndir frá nýliðnum sumarsólstöðum og auðvitað eru þær úr Útmannasveit.

 IMG_0847

Selfljót við Unaós

 

Sumarsólstöður

Héraðsflói séður ofan úr Vatnsskarði

 

IMG_0826

Jaðrakan á sólstöðufundi

 

IMG_0889

Dyrfjöll í næturandaktinni

 

IMG_0891

Lagarfljót og vesturfjöllin við Héraðsflóa


Bloggfærslur 21. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband