28.6.2021 | 06:12
Hrúturinn Hreinn
Nú er fokið í flest skjól hjá þeim sem lét flatskjáinn fjúka fram af svölunum eins og hvern annan frisbee disk um árið. Það er kominn annar mun stærri, sem bleikur fíll í miðja stofuna. Þessi ósköp verður afi gamli að þola þó svo að engin viti betur en hann að sjónvarpið er verkfæri djöfulsins. Hún Ævi hefur verið heimagangur undanfarið og pabbi hennar kom með sjáinn til að stytta henni stundirnar í útlegðinni að heiman.
Ævi segist vera prinsessa og ég gæti vel trúað að það sé rétt hjá henni, svona miðað við stjórnsemina og útganginn. Undir þessa vissu hennar ýta svo þættir sem hún horfir á í sjónvarpinu. Þriggja ára blessunin veit ekki að svona er boðskap sónvarpsins lætt inn í saklausa barnssálina. Síðar þegar árin hafa líka læðst yfir verður boðskapurinn að hreinni drepasótt, og ekki aftur snúið nema með því einu að slökkva bæði á sjónvarpinu og símanum.
Því segi ég að fokið sé í flest skjól að ég freistaðist til að horfa á verkfærið með Ævi um daginn. En hún á það til að læðast fram og læsa mömmu sína frammi, og jafnvel ömmu líka um leið og hún segir; -afi mig langar að horfa á youtube. En þá byrja ég alltaf á því að sega hátt og snjallt; -mamma þín vill ekki að þú horfir á youtube því það geta komið svo ljótar myndir í auglýsingunum á youtube í prinsessu þáttunum.
Svo var það um daginn að ég lét mig hafa það að horfa á hrútinn Hrein með henni. Þar hafði hundurinn á bænum orðið sér út um dróna, sem hann batt við sólstólinn sinn, til að létta sér eftirlitið með rollunum rétt áður en hann sofnaði. Hrúturinn Hreinn komst í fjarstýringuna hjá hundinum og kunni ekki betur á hana en svo að hann sendi hundinn á loft sofandi í sólstólnum.
Þegar hundurinn rumskaði og áttaði sig á að það var hann sjálfur sem sveif um í sólstólnum yfir rolluhópnum fjarstýringarlaus rak hann upp skaðræðis boffs og bóndinn kom út til að aðgæta hvað væri eiginlega um að vera og náði um fjarstýringuna fyrir drónann en tók svo hart á í öfuga átt að hann braut stýripinnann af fjarstýringunni og hundurinn sveif stjórnlaust í sólstólnum út í geim.
Þar sem hundurinn var kominn út á meðal stjarnanna í sólstólnum, svo að segja til himnaríkis, kom svífandi að honum geimfarabúningur, en ekki engill, og stillti sér upp við hliðina á hundinum og tók selfí á símann sinn. Eftir myndatökuna tók sólstóllinn óvænt að hrapa með hundinum á hvolfi og nálgaðist jörðina aftur á ógnar hraða.
Hrúturinn Hreinn og rollurnar fylgdust með í angist og urðu sér í snatri út um brigði úr rúllubaggaplasti og strengdu það á milli sín, ekki til að bjarga hundinum heldur drónanum. Hundurinn náði í tíma að gera sér röndótta fallhlíf úr áklæðinu á sólstólnum og sveif mjúklega til jarðar. Bæði dróninn og hundurinn björguðust blessunarlega svo lífið á bóndabænum gat haft sinn vanagang þrátt fyrir þessa óvæntu himnaför hundsins.
Á sama tíma í himnaríki var geimfara búningurinn að skoða selfíið sitt í símanum sínum af sér og hundinum. Hann stillti svo símanum með selfíinu upp á hvíta hillu úr skýi og tók niður geimfara hjálminn. Þá blasti við grár hundur alveg eins og sá brúni á jörðu niðri með hrútinum Hreini og rollunum, nema hrukkóttur og eldgamall. Þá sagði Ævi; -þessi er alveg eins og afi, en mig langar að horfa á youtube.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)