11.7.2021 | 07:30
Lömbin þagna
Í gær grilluðu stjórnmálamenn í atkvæðasmölun kótelettur í nýja miðbænum í grennd við höfuðborgina, að sögn til að halda uppi gamalli hefð. Í gær fórum við Jökuldalinn upp til heiða. Á Dalnum var það sláandi að í brakandi þurrki var engin byrjaður að slá. Þó svo punturinn bylgjaðist blíðum í blænum, -öðruvísi mér áður brá.
Upp á heiðunum voru víðast hvergi lömb að sjá, svo langt sem augað eygði. Við Matthildur mín plokkuðum upp fjallagrösin yfir sólbjartan daginn í flugnasuði á meðan spóinn vall í kappi við svanasönginn, og gæsirnar gáruðu heiðarvötnin með ungahópunum sínum, sem eru blárri en blá. Hvergi var sauðkind með lömb að sjá, -öðruvísi mér áður brá.
Niður Vopnafjörðinn hans Ratcliffs vöfruðum við, en rétt eins og á Jökuldalnum var ekki heyskap að sjá, fyrr en komið var út undir sjó í grennd við golfvöllinn skammt innan við nú dauflegan miðbæinn á Tanganum þar sem sumarið er hvað blíðast á Íslandi. Í sjoppunni var ekki hræðu að sjá, -öðruvísi mér áður brá.
Skyldi íslenska sauðkindin verða safngripur á lendum auðróna, eftir haustið í haust og raðlygarar og skúffukjaftar grilla nýsjálenskar lambakótelettur næsta sumar, í síðasta bænum í dalnum? Mun þá áfram verða boðið upp á kolefnisjafnað grill í nýja miðbænum í minningu gamalla hefða, eða mun fólk greikka kolefnissporið á leið sinni úr síðasta bænum í dalnum? Guð blessi allt Ísland, -öðruvísi mér áður brá.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)