Þegar ég fékk drepsóttina

Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá lesendum þessarar síðu að síðuhafi hefur ekki trú á kóvítinu. Seint s.l. sunnudag heimsótti mig slæm lumbra, sem brast á eins og hendi væri veifað, þannig að ég varð allur lurkum laminn. Svona lumbrur taldi ég mig hafa fengið áður, einu sinni orðið ógangfær og oftast bólgin af bjúg.

Sem betur fer hef ég yfirleitt verið orðin rólfær til vinnu daginn eftir, en svo var ekki á mánudaginn, -rétt náði að staulast á milli stóla. Ég er fyrir löngu búin að greina hvað veldur, tengi þetta ákveðnu ruslfæði sem ég forðast yfirleitt að éta rétt eins og rottueitur. En á sunnudaginn hafði ég ekki staðist freistinguna.

Vegna ástands míns mánudagsmorgni leist Matthildi minni ekki á blikuna og kom snemma heim frá vinnu, leitaði eftir lækni, að fengnu mínu samþykki auðvitað þar sem svona lasleiki hafði venjulega tekið viðsnúning eftir nóttina. Vegna greiningar minnar og hjartaáfallsins um árið virtist þetta því rökrétt ákvörðun.

Nú rýkur engin til læknis sí svona orkulaus, óbólusettur á náttfötunum og ó pcr prófaður, eða svo var allavega á mánudaginn. Þannig að niðurstaðan varð sú að sendur var sjúkrabíll. Í þann mund þegar Matthildur sagði að sjúkrabílnum hefði verið parkerað framan við blokkina birtust tvær lafmóðar geimverur inn á rúmgafli og mér varð ekki um sel.

Fljótlega kom í ljós að þetta voru grímuklæddir sjúkraflutningamenn í geimfarabúningum. En hvorugur þeirra var læknir. Annar kynnti sig með nafni en hinn heilsaði mér með nafni og þekkti ég þá röddina þó svo að ég greindi ekki hver væri í gegnum múnderinguna.

Þarna var komin ungur vinnufélagi úr steypunni, sem ég hafði ekki hitt um tíma, og hafði sagt mér þá að hann hefði áhuga á að gerast sjúkraflutningamaður, -þegar ég akiteraði fyrir steypunni. Eftir stuttan formála um að ég yrði fluttur til læknis, sem myndi ræða við mig í sjúkrabílnum fyrir utan heilsugæslustöðina, höfðu þeir fumlaus handtök við að flytja mig niður stigaganginn út í bíl.

Þegar komið var í bílskýlið á heilsugæslunni var mér sagt að nú þyrfti að taka hraðpróf. Ég reyndi að malda í móinn með upphaflegum tilgangi ferðarinnar en allt kom fyrir ekki. Þegar fyrr um félagi minn var búin að taka prófið, sem honum fórst vel úr hendi, og bíða um stund kom, -a ha kóvít.

Áfram reyndi ég að umla um hvers vegna óskað hefði verið eftir viðtali við lækni, að ég væri að auki svokallaður undirliggjandi hjartasjúklingur og hefði áhyggjur af því ástandi mínu þrátt fyrri að vita að ég hefði étið það sem fyrir mér væri rottueitur, af álíka óvitaskap og sá sem dælir dísel á bensín bíl í þriðja sinn.

Eftir japl, jaml og fuður var ákveðið að sjúkraflutningamennirnir tækju lífsmörk. Ég gat sem betur fer aðstoðað félaga minn úr steypunni hvernig blóðþrýstings mælirinn ætti að snúa. Það var ekki eins gott með hjartalínuritið, enda sagði hann að þetta væri alibaba drasl sem væri keypt á netinu. En í þriðju tilraun virkaði dótið og allskonar krass á strimlum flæddi um bílinn.

Seint og um síðir bættist þriðja geimveran við inn í sjúkrabílinn og sagðist vera læknirinn og að ég væri sennilegast með kóvít. Ég hélt áfram að jamla um rottueitrið, sem mér hefði orðið á að éta í óvita skap, bjúginn, sem ég væri útblásinn af, -orðinn tútinn og blóðsprengdur í framan eins og gamall róni. En það sást nú náttúrulega ekki í gegnu grímuna sem búið var að reima fyrir smettið.

Læknirinn í geimverubúningnum sagði að kóvítið væri ekki til að bæta neitt af þessu sem ég taldi upp og mælti með pcr próf til að fá endanlega úr kóvítinu skorið. Þar að auki væri ég óbólusettur, þannig að líklega ætti ég eftir að verða enn veikari fyrir vikið.

Síðan spurði hún mig hvort ég treysti mér til að vera heima og þau myndu hringja í mig af heilsugæslunni til að fylgjast með hvernig ég hefði það þangað til pcr prófið lægi fyrir, eða hvort ég vildi verða sendur strax á sjúkrahús. Ég sagðist vel treysta mér til að vera heima. Það væri nú ekki málið, þau yrðu bara að skutla mér heim því ég væri á náttfötunum.

Eftir að heim kom og sjúkrabíllinn var opnaður og ég steig út þá flæktust alibaba hjartalínuritin um fæturna á mér, sem alveg hafði gleymst að líta á, -enda varla nokkuð á þeim að græða, -fuku svo út um víðan völl. Geimverurnar silgdu á eftir þeim um bílaplanið eins og segskútur í sunnan sjö til að tína saman enda fyrstu vindhviður óveðurslægðarinnar, sem gekk yfir landið á mánudaginn var, komnar á kreik.

Ég staulaðist upp stigana í blokkinni til hennar Matthildar minnar og sjúkraflutningamennirnir skottuðust með töskuna á eftir, sem Matthildur mín hafði sett ofaní ef ég þyrfti á sjúkrahús. Þeir minntu mig á, um leið og þeir kvöddu, að fara í pcr prófið daginn eftir, -um leið þakkaði ég þeim vel unnin störf.

Sem betur fer tók hitinn, bjúgurinn og verkirnir að hjaðna fljótlega eftir læknis heimsóknina, og að heim var komið, með skammti af panodil samkvæmt læknisráði. Þetta ástand varði því bara nokkrum klukkustundum lengur í þetta sinn en vanalega.

Á þriðjudags morgni gat ég meir að segja dregið hring af fingri, sem er ágætis mælikvarði á bjúginn, þar að auki gengið rösklega um gólf með súrefnismettunarmælinn, sem ég fékk heim með mér á öðrum fingri, og hitinn var komin niður í það eðlilega.

Þá hringdi í mig læknir af heilsugæslunni til að spyrja hvernig ég hefði það í kóvítinu og til að minna mig á pcr prófið. Fræddi mig á því að kóvítið ætti það til að fara versnandi og vera verst á sjöunda degi hjá óbólusettum og því nauðsynlegt að stimpla sig með staðfestu pcr prófi inn í kerfið. Ég sagði honum að ég hefði það bar ágætt, en hérna væri einhver misskilningur á ferðinni ég hefði komið út af allt öðru er en áhyggjum af kvefi.

Það hefði bara ekkert verið hlustað eftir pinnaprófið. Ég ætlaði samt ekki að standa úti í nepjunni í biðröð í snjóskafli niðri á nesi daginn eftir að hafa verið keyrður ósjálfbjarga í sjúkrabíl vegna bráðsmitandi drepsóttar. Ég myndi hafa það fornkveðna í heiðri, halda mig heima á meðan kvefið rjátlaði af mér og fara vel með mig þessa vikuna.

Og nú bíð ég á milli vonar og ótta hvað gerist hinn sjöunda dag.


Bloggfærslur 26. febrúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband