22.3.2022 | 14:14
Kristfjárjarðir - Jesú Kristur gerður arflaus
Þeir eru sennilega ekki margir bæirnir á Íslandi sem byggðir eru í landi Jesú Krists. Kristfjárjarðir á Íslandi eru um margt merkileg fyrirbæri og athyglivert hvernig með þær hefur verið farið í gegnum tíðina. Varast skildi að flokka Kristfjárjörð með kirkjujörðum eða ríkisjörðum. Kristfjárjörð var landareign, sem arfleidd var Jesú Kristi fátækum til framfærslu, en hvorki kirkju, ríki né sveit, nokkurskonar sjálfseignastofnun. Þetta er talið að eigandi jarðarinnar hafi gert sér til sáluheilla.
Allt eins má telja að kristfjárjarðir séu ævaforn aðferð við að koma auðæfum undan valdhöfum til fátæklinga. Þessa aðferð var farið að brúka snemma eftir að land byggðist. Þó svo að Kristfjárjarðir hafi verið ánafnaðar fátækum með þessum hætti voru þær samt sem áður í umsjón kirkjunnar fram eftir öldum. Síðar komust þær í umsjón konungs og síðast sveitarfélaga, enda má segja að kirkja, ríki og sveit hafi farið með félagslega framfærslu fátæklinga í gegnum aldirnar.
Samkvæmt Kristnirétti 1275 átti biskup að ráða Kristfé. Fyrir siðaskipti var margt Kristfé orðið eign klaustra og biskupsstóla og var þá stundum reynt að losa um kvöðina. Fyrir siðaskipti muna a.m.k. 108 jarðir hafa talist Kristsfé: Á Norður- og Austurlandi 66, frá Vestur- Skaftafellssýslu til Húnavatnssýslu 42; fjórðungur þeirra var í Múla- og Skaftafalssýslum, 27.
Eftir siðaskiptin munu flestar Kristfjárjarðir hafa runnið til konungs með klaustra- og kirkjueignum. Á Alþingi 1859 var samþykkt bænarskrá til konungs, samkvæmt ósk Þinghöfðafundar í Norður-Múlasýslu, þar sem þess var óskað að umsjón Kristfjárjarða væri falin sveitarfélögum, ómagagjald aftekið, en afgjald rynni í sveitarsjóð; var það rökstutt með breyttu ásigkomulagi tímanna en án árangurs. (Einar Laxnes - Íslandssaga)
Tugir jarða voru taldar Jesú Krists fram á 20. Öldina, og eru sumar það en þann dag í dag. Í sveitarfélaginu Múlaþingi eru sennilega um tugur Kristfjárjarða. Þær eru samt fáar kristfjárjarðirnar á Íslandi með þéttbýli fjölda fólks til hagsbóta. Einn stað veit ég þó um en það er þorpið á Djúpavogi, sem nú er í Múlaþingi, Djúpivogur byggðist í landi Jesú Krists.
Búlandsnes, sem getið er um í landnámu, þar sem Djúpivogur sker sig inn í landið, hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi en hvorki sveit, ríki né kirkju. Í bók sinni Að Breyta fjalli fer Stefán Jónsson fyrr um fréttamaður og alþingismaður yfir hluta þeirra vandkvæða, sem felast í því þegar kristfjárjarðir eru annarsvegar, og engir pappírar finnast um gjörninginn.
Búlandsnesið er Kristfjárjörð. Flestöll skjöl varðandi þessa jörð, sem lengst af var talin hin tíunda verðmætasta á Íslandi, eru löngu tínd, þau sem varða eignarhald Krists á jörðinni. Í Fornbréfasafninu getur þó að finna skrif Gissurar biskups Einarssonar frá árinu 1541 um þessa eign, sem sennilega hefur lent í umsjá kirkjunnar löngu fyrir siðaskipti. Hitt er ljóst að einhver eigandi jarðarinnar til forna gaf hana fátækum í Geithellnahreppi fyrir sálu sinni.
Fátækir hétu þeir samkvæmt fornri skilgreiningu, sem ekki gátu framfleytt sér af eigin rammleik. Hreppsómagar í sveitinni hafa þá tæpast verið fleiri en sex að tölu og voru þar með alls ekki fátækir lengur, heldur orðnir ríkustu menn á Austurlandi. Nú var forsjármönnum Geithellnahrepps vandi á höndum, að sjá farborða sálu gefandans, því tæplega kæmist hún í heimavist með englum, ef auður hans hafnaði af bókhaldslegum og lagalegum ástæðum hjá ríkismönnum. Neyttu hreppsnefndarmenn vitsmuna og svo þess að hreppsómagar voru hvorki sjálfráða né féráða að lögum. Komu þeir málum fyrir á þá lund, að þiggjendur þessara auðæfa héldu áfram að vera fátækir og urðu þó eigendur að tíundu dýrustu eign á Íslandi. Í fundargerðarbók hreppsnefndar mun hafa verið færð samþykkt á þá lund, að sökum ósjálfræðis og ófjárræðis hinna fátæku og vegna sálarheillar gefandans skyldi hreppsnefndin annast yfirráð eignarinnar og ráðstafa arðinum á þá lund, að hreppsómagar héldu áfram að vera fátækir. Búlandsnesinu var því skipt með gögnum og gæðum milli hreppstjóra og oddvita, og skyldu þeir í staðinn deila með sér framfærslu ómaganna.
Ekki hef ég af því að segja, að þessir forríku sveitarlimir í Geithellnahreppi hafi átt við þrengri kost að búa en gerðist um snauða ómaga annarra sveitarfélaga. Það er á hinn bóginn ljóst að af heimildum, að arðurinn af þessari stóreign hefði mátt endast til þess að halda mjög marga sveitarlimi allríkmannlega á þess tíma mælikvarða, en einnig það hefði kannski getað skemmt skrattanum og komið umræddri sál í vanda, enda áttu menn ekki neitt á hættu með það.
Þegar fram liðu stundir var vörslu eignarinnar breytt á þá lund, að létt var af hreppstjóra og oddvita þeirri kvöð að hafa sjálfir sveitarómagana á framfæri sínu persónulega, heldur guldu þeir leigu, hvor fyrir sinn hlut eignarinnar. Hreppsnefndin skipti síðan upphæðinni í meðlög með ómögunum og arðshlutur þeirra af eign sinni færðu þeim til skuldar, rétt eins og þeir ættu alls ekki Búlandsnesið. Höfund brestur guðspekilega þekkingu til að álykta um það, hvernig hertar ráðstafanir valdsmanna til að varðveit fátækt erfingjanna kunni að hafa plumað sig upp á sálarheill hins látna auðmanns, en svo fór um það er lauk, að hreppsnefndin svipti fátæka endanlega þessari eign sinn. Þá var Geithellnahreppi skipt með eignum og skuldum og Búlandsnesið þaðan í frá látið heita eign nýja sveitarfélagsins, Búlandshrepps. Ég vil ekki nefna þennan verknað fornvina minna og frænda í Geithellnahreppi neinum leiðinlegum nöfnum, heldur einungis leyfa mér þá tilgátu, að einmitt þannig kunni nú meðal annars að standa á þessu þrotleysi fátæktarinnar í öllum heiminum, að það eru gjarnan þeir snauðu sem stolið er frá, sínu litlu frá hverjum, og safnast þegar saman kemur. Hér hafa menn steytt á sömu steinunum og hin síðari árin í tilraunum sínum til þess að bæta öðru fremur hag þeirra fátækustu við gjörð kjarasamninga. Forrit mannlífskerfisins byggir á því, að sumir skulu eiga meira en aðrir, og því verður ekki haggað nema með því að skipta um forritið. Þess eru dæmi að slíkt hafi verið reynt, sem var víst reyndar með þeim árangri, að aðrir urðu þá ríkari en sumir, sem var víst ekki ætlunin.
En þetta dæmi um vandræðaskapinn út af ríkidæmi fátækara í Geithellnahreppi finnst mér frásagnarvert, vegna þess hve sjaldgæft það hlýtur að vera, að tiltölulega margir bjargálna geti kynslóðum saman haft mjög mikið af sárafáum fátæklingum.
Nú treysti ég mér ekki til að eigna frændum mínum, Skaftfellingu, eins og þeir voru langflestir að ætt og uppruna í þessum hreppi, frumsmíð þessa guðspeki- og lögfræðilega snjallræðis til andsvars gegn einhverjum hættulegasta agnúa kristindómsins, enda sennilega óralöngu fyrr hafi komið til ráð biskupa og lögsögumanna á landsvísu, þótt ókunnugt sé mér að önnur eins vá hafi að helgi skynsamlegs eignarréttar í öðrum landshlutum á þeim tíma. (Stefán Jónsson Að breyta fjalli)
Hvort hugmyndir Stefáns Jónsonar um 6 fátæklinga í Geithellnahreppi eru komnar frá Tyrkjaráni er ekki gott í að spá, en þegar Tyrkir rændu fólkinu á Búlandsnesi árið 1627 kemur fram í Tyrkjaránsögu að 6 heimilismenn hafi verið umrenningar sem þar voru hernumdir.
Árið 1888 áttust oddvitinn og hreppstjórinn, Haraldur Ó Breim á Búlandsnesi og Jón Jónsson í Borgargarði, við í dómsmáli vegna deilna um leigu af Borgargarði sem tilheyrir Búlandsnesi. Haraldur taldi Jón eiga að greiða til sín Kristfjárgjald aukalega, sem var 1/3 kristfjármaður.
Í dómsorði kemur fram: Með konungsúrskurði 31 maí 1867 var ákveðið um ýmsar Kristfjárjarðir, þar á meðal Búlandsnes með hjáleigunum Bjargarrétt og Borgargarði, að við leiguskipti skuli byggja þær eins og aðrar jarðir fyrir ákveðið afgjald, er renni í sveitarsjóð þann, sem í hlut á, en að ómagahaldið, sem á þeim hafði hvílt, skuli með öllu aftekið. Þannig að Þinghöfða samþykkt þeirra Norð-Mýlinga virðist hafa orðið ofan á hjá konungi fyrir rest.
Þarna var deilt um framfærslu eins fátæklings af ábúendum kristfjárjarðarinnar Búlandsness, ef rétt er skilið, sem hafði verið afnumin með konungsúrskurði 1867, en settur á sveitasjóð. Þegar Tyrkir rændu fólki á Búlandsnesi árið 1627 kemur fram að 6 umrenningar hafi þar verið hernumdir.
Á 21. öldinni reynist ekki lengur örðugt að hafa arfinn af Jesú Kristi og fátæklingunum án nokkurs samviskubits, þeim er einfaldlega öllum komið á sveitina. Gjörningurinn verður samt að hafa stimpil frá Alþingi.
Í Upphafi þessarar aldar var landnámsjörðin Arnheiðarstaðir og Droplaugarstaðir, sem var hjáleiga frá Arnheiðarstöðum, hafðar af Jesú Kristi með lagagafrumvarpi félagsmálaráðherra og afraksturinn settur á hreppinn.
Texti lagafrumvarpsins var mjög einfaldur: Frumvarp til laga um sölu kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi. (Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 20002001.) 1. gr. Hreppsnefnd Fljótsdalshrepps er heimilt að selja ábúendum kristfjárjarðirnar Arnheiðarstaði og Droplaugarstaði í Fljótsdalshreppi. Verð jarðanna, mannvirkja og ræktunar á þeim fer eftir því sem um semst, en ella skal það ákveðið af dómkvöddum matsmönnum. Andvirði jarðanna skal varið til félagslegra framkvæmda í hreppnum. Ráðstöfun söluandvirðis skal háð samþykki félagsmálaráðuneytisins og vera samræmanleg hinum forna tilgangi kristfjárgjafa. 2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. -Greinargerðina má sjá hér.
Það eitt að Arnheiðastaðir hafi borið nafn þessarar landnámskonu í meira en þúsund ár bendir til að hún hafi átt því að venjast að hafa sitt fram. Hvort sem það var hún eða afkomendur hennar sem arfleiddu jörðina Jesú Kristi.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)