Slökktu á símanum og sjónvarpinu

Þangað sem athyglinni er beint þar liggur orkan og áhuginn. Að vera meðvitaður um þennan algilda sannleika er nauðsynlegt þegar fylgst er með fréttum fjölmiðlanna. Annars verðum við leiksoppar medíunnar, -áhorfendur af lífinu.

Ósjálfstæði skoðana er nú þegar orðið normið við að opinbera persónulegt álit, -halda fram viðteknum viðhorfum. Innst inni afneita margir eðli sínu og sérkennum. Við viðurkennum ekki lengur hver við erum, skiljum ekki lengur til hvers við komum og hvernig við eigum að hafa okkur í frammi.

Ef persónulegum krafti okkar væri líkt við ljós í myrkri, myndu mörg okkar hrasa við ljósið frá skjánum í símanum til að forðast ábyrgðina á því hver við erum. Ef við víkjum tommu frá meðfæddri sýn, endum við á því að komast á áfangastað sem er ljósár frá örlögum okkar.

“Margfaldaðu trú mesta trúfífls veraldarinnar með billjón og þá ertu farinn að nálgast veruleikann” (Gunnar Dal)

Fjölmiðlaheimurinn segir skilningarvitunum ósatt, rökhugsunin getur því aldrei vitað neitt með vissu. Þar mun rökfræðin elta eigið skott. Við verðum því á endanum að trúa reynslunni, eða tapa öllu án þess að fá neitt í staðin, -bæði veruleika okkar og draumi.

Treystu því á eigið innsæi við að skynja allt samtímis, þannig upplifirðu eilífðina. Fortíð og framtíð verða aldrei það fjarlæg að skipta ekki máli, þær eru veruleikinn í núinu. Í augnablikinu búa margar víddir þar á meðal öll þín framtíð og fortíð.

Hámenntaður samtíminn telur okkur trú um að eilíf sálin sé goðsögn, -jafnvel blekking. Hugmynd hinna fáfróðu og trúgjörnu, ópíóíðar hins huglausa til að slá á óttann við dauðann.

Við höfum samt alltaf vitað inn við beinið að við komum til að öðlast skilning, ná yfirsýn á veröld okkar með innsýn sjálfsins í upplifun veruleikans, -sem hvorki er í símanum né sjónvarpinu.


Bloggfærslur 27. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband