21.4.2022 | 08:36
Hvað helgar daginn?
Þeir eru fáir dagarnir sem hafa jafnstór fyrirheit í nafninu og Sumardagurinn fyrsti. Það veit samt engin lengur hvað helgar þennan dag annað en nafnið, en upp á hann hefur verið haldið á Íslandi frá því land byggðist.
Hvað helgar daginn annað en það sem felst í nafninu er sem sagt ekki vitað. Einhversstaðar rakst ég á að dönskum kirkjuyfirvöldum hefði þótt rétt á 18. öld að banna guðþjónustur á þessum degi í íslenskum kirkjum, þegar þau fréttu af því að þessi dagur hefði verið brúkaður sem messudagur á Íslandi frá alda öðli.
Sumir telja helgi dagsins komna aftan úr heiðni. Nú í seinni tíð hefur aðallega verið sótt að Sumardeginum fyrsta sem helgidegi með því að færa hann til og bæta honum við langa helgi. Stundum hefur heyrst að bæta eigi svona dögum við sumarfrí eða aðra orlofsdaga launþega, -færa fram á sumarið.
Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur mánaðarins Hörpu í gamla íslenska tímatalinu og ber alltaf upp á fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl. Hann er auk þess svo kallaður yngismeyjadagur. Þessi dagur var talin mikill hátíðisdagur áður fyrr, gjafir voru gefnar þennan dag og hjá yngra fólki var dagurinn álíka hátíðlegur og aðfangadagskvöld.
Það góða við sumardaginn fyrsta er að hann er alltaf á sumardaginn fyrsta, -hvernig sem viðrar.
Gleðilegt sumar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)