3.4.2022 | 08:55
Ég legg metnað minn í það að míga úti
Það fer ekki yfirleitt ekki mikið fyrir lýsingum af því hvernig salernisferðum var háttað fyrr á tíð og mætti jafnvel ætla að Iss, piss og pelamál púðursykur og króna. Þegar mér er mikið mál pissa ég bara í skóna, -hafi verið lenskan.
Samt má víða finna lýsingar á því hvar hlandforinni var fyrirkomið heima við bæ, og að koppar hafi verið undir rúmum gömlu baðstofunnar. Stærri stykki má ætla að hafi oftast verið gerð í fjósflórinn enda oft innangengt úr bæ í fjós, ef baðstofan var þá ekki yfir fjósinu sjálfu svo mætti notast við ylinn frá kúnum.
Karlmenn hafa líklega flestir lagt metnað sinn í að míga úti rétt eins og segir í Stuðmannaslagaranum, þó svo að kvenfólk hafi frekar kosið fjósið. Ólíku hefur verið saman að jafna við glæsileg salerni nútímans. Nokkrar lýsingar má þó finna á því í rituðu máli hvernig fólk sinnti kalli náttúrunnar fyrir daga nútíma salernis.
Húsaröðin austur að hlaðinu var þá þessi: Syðst austurhlið baðstofunnar, torfveggur og torfþekja, með fjórum gluggum niðri og fjórum uppi, þá bæjardyraþil með dyrahurð og litlum glugga yfir, og loks skemmuþil með tveimur gluggum niðri og einum uppi. Á bak við og vestan við þessi þrjú hús var svo búr, eldhús og fjós, og innangengt í öll frá vesturenda bæjardyra. Voru það hlunnindi fyrir mjaltakonur á vetrum að þurfa ekki út til mjalta, og fyrir alla yfirleitt að hafa innangengt á náðhúsið. En það var fjósflórinn. Þannig var þessu fyrir komið um allt Hérað, eða víðast. (Um húsaskipan í Þingmúla 1891 - Endurminningar sr Magnúsar Blöndal II bindi)
Þrír strompar voru á eldhúsinu, og safnaðist sjaldan mikill reykur í það, en sótleki var oft til óþæginda. Í gegnum norðurvegginn var trérenna. Í hana var helt skólpi úr bænum út í hlandforina, sem var norðan undir eldhúsveggnum. Þótt rennan væri lokuð með hlera, kom stundum óþægileg lykt um hana inn í eldhúsið og bæinn allan, einkum ef norðanátt var í aðsigi, var hún nokkurn veginn öruggur veðurviti. Í eldhúsinu stóð kerald eitt mikið og fornt, svo engin vissi aldur þess. Í það var safnað öllu þvagi, sem til féllst á nóttum til ullarþvottar á vorin. (Innanbæjarlýsing Norðlenskt sveitarheimili í upphafi 20. aldar - Steindór Steindórsson frá Hlöðum)
Lýsingin að norðan á við gamla hlóðaeldhúsið, sem þá orðið var aðallega notað til að baka brauð, sláturgerðar og stórþvotta. Nýrra eldhús var komið til sögunnar á þessum tíma til daglegra nota, sem var gengt gamla eldhúsinu og var með eldavél kynntri mó og taði.
Það er farið að glitta í nútímann fyrir um hundrað árum síðan á norðlenska sveitarheimilinu, þegar sagt er frá hvernig hlandforin var breidd á túnið: Sóðalegasta og á ýmsan hátt erfiðasta vorverkið var að koma forinni á túnið. Norðurundir bænum var allstór safnþró, steinsteypt. Lá renna í hana úr gamla eldhúsinu, og var hellt í hana allskonar skólpi. Salerni var einnig yfir þrónni, og í hana var fleygt ýmsu rusli sem rotnað gat. Var hún nær full á hverju vori.
Ekki er lýsingin gleggri en svo að erfitt er áð átta sig á hvort um postulínssalerni hefur verið að ræða eða kamar, sem hefur verið gengið í utanhúss, eins og víða var orðin lenska í höfuðstaðnum.
Ég legg metnað minn í að míga úti sungu Stuðmenn. Einhver tíma heyrði ég af manni sem ég þekkti, sem hefði átt lengi erfitt með að míga inn í miðju húsi, þó svo að þar væri hefðbundið prívat postulínsklósett.
Nú á dögum hefur femínisminn komið metnaði kalmannsins í fjósið, ef svo má segja. Þeim verði hált á haldforinni, sem verði á að míga úti, jafnvel þó svo að það sé torgi í landnámi Ingólfs, kenndu við sjálfan fyrsta landnámsmanninn.
Iss, piss og pelamál púðursykur og króna komi sér því betur, ef karlmanni verður mikið mál. Svo mikil hefur framförin orðið á innan við öld.
Hús og híbýli | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)