1. maí baráttudagur verkalýðsins

Ég fór með einn af eldri vinnubílunum í dekkjaskipti í vikunni. Þetta er gamall lúinn jálkur, sem engin nennir lengur að keyra, en er notaður til að sækja hádegismatinn í steypuverksmiðjuna. Það gafst stund á milli stríða hjá mér enda orðin eldri og lúnari en gamli rauður.

Þegar ég var þarna var ung kona á símafundi í snjallsímanum sínum fyrir utan dekkjaverkstæðið, þar sem drundi í loflyklum og glamraði í affelgunar vélum. Konan hafði gengið yfir planið og stóð á grasbala þar sem hún hafði stillt sér tígurlega upp og beindi símanum að sér svo hún sæist sem best í selfí.

Hvort unga litfríða og ljóshærða konan var að tala við ritarinn sinn veit ég náttúrulega ekkert um, en ef svo hefur verið þá hefur ritarinn væntanlega þurft að segja þeim sem áttu erindi við hana að hún væri ekki viðlátin hún væri á fundi.

það getur verið flókið að vera á vinnustað án mætingarskyldu og ætti að borga dekkjastrákum og gömlum lúnum jálkum, sem hafa ekkert gáfulegra að gera en spá í skýin, betra kaup fyrir þess lags álag.

Nei ég segi nú bara svona, -til að segja eitthvað á baráttudegi verkalýðsins.


Bloggfærslur 1. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband