Droplaug og Darraðardansinn

Lítið hefur farið fyrir því í gegnum tíðina að Íslendingasögunum sé hampað sem kvennabókmenntum. Kannski má kenna því helst um að þeir sem skrifuðu þær hafi verið karlmenn sem og einnig þeir sem túlka þær inn í nútímann.

Í vetur tók ég mig til og las Njálu í fyrsta skipti. Auðvitað kunni ég Njálu nokkuð vel enda hafði ég lesið um söguhetjur og er alinn upp á málsháttum þeirrar bókar eins og flestir íslendingar á mínum aldri. Tekið hefi ég hér hvolpa tvo eða hvað skal við þá gera?

Njála er eitt gleggsta dæmið um kvennabókmenntir Íslendingasagnanna. Þær sögupersónur sem þar ráða örlögum og eru afgerandi hvati sögunnar eru Bergþóra Skarphéðinsdóttir á Hvoli og Hallgerður langbrók Höskuldsdóttir á Hlíðarenda.

Það sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir, áður en sagan var lesin í heild, var hversu mikil tengsl sagan hefur við Bretlandseyjar. Í henni er að finna Brjánsbardaga í Dublin í ljóðinu sem Darraðardansinn er kenndur við, einn magnaðasta kveðskap fornbókmenntanna og var sá vefur spunnin af konum.

Barði Guðmundsson fyrrum Þjóðskjalavörður á að hafa getið sér þess til að Njála sé skrifuð af Þorvarði Þórarinssyni, síðasta goðanum, og fékk hann litla þökk, -og enn minni athygli fyrir þá tilgátu. En Þorvarður varð síðastur til að ganga Noregskonungi á hönd á Þjóðveldisöld og þar með var íslenska Þjóðveldið formlega fallið um allt land.

Þorvarður lifði lengst þeirra sem fóru með goðorð á Íslandi. Hann var frá Valþjófstað í Fljótsdal, hafði búsetu á Hofi í Vopnafirði. Hann aðstoðaði Magnús lagabæti Noregskonung við ritun laga Jónsbókar þegar landsmenn gátu ekki sætt sig við lög Járnsíðu, sem tók við af þjóðveldislögum Grágass, -og þáði hann m.a. riddara nafnbót að launum.

Þorvarðar og Odds bróður hans er getið í Sturlungu, þeir voru af ætt Svínfellinga sem réðu Austfirðingafjórðungi. Brennu Flosi frá Svínafelli, sem kemur við Njálssögu, er einn af forfeðrum þeirra bræðra og áttu þeir kvonfang á söguslóðum Njálu. Í pistlinum Síðasti goðinn og bróðir hans eru því gerð skil hversu afgerandi mark konur settu á Sturlungaöld og kemur það vel fram í sögu þeirra Valþjófstaðabræðra.

Það er því kannski ekkert einkennilegt þó svo Barði Guðmundsson hafi getið sér þess til að Njála hafi verið skrifuð af, -eða að undirlagi síðasta goðans. Því svipuð kvenleg sagnaminni má finna í Austfirðingasögum og ber þau hæðst í Droplaugarsonasögu. Og ekki er ólíklegt að Þorvarður riddari Þórarinsson hafi haft hönd í bagga með því hvernig saga landnáms og þjóðveldis í Austfirðingafjórðungi varðveittist.

Það sem gerir hlut kvenna stóran í Austfirðingasögum má finna í gengum nöfnin Arnheiður, Droplaug og Gróa, ekki er ólíklegt að þar sé um að ræða formæður og frænkur síðasta goðans. Það sem einkennir þessar áhrifamiklu konur er hve vandasamt reynist að ættfæra þær til göfugra ætta landnámsmanna. Sjálfur hef ég trú á að Arnheiður hafi enn fremur haft með nafngiftir á Íslandi að gera, sem má lesa um í pistlinum Hvaðan kom Snæfellið?

Arnheiður var ambátt sem landnámsmaðurinn Ketill þrymur keypti af Véþormi vini sínum í Jamtalandi sem nú er í Svíþjóð. Hún var dóttir Ásbjörns skerjablesa á Mön í Suðureyjum. Þau byggðu Arnheiðarstaði í Fljótsdal og hefur sá bær borið nafn Arnheiðar frá landnámi. Arnheiður var föðuramma þeirra Droplaugarsona.

Droplaug er sögð í Droplaugarsonasögu frá Giljum á Jökuldal og lítið meira um uppruna hennar sagt annað en hún varð kona Þorvaldar Þiðrandasonar, sonarsonar Arnheiðar og Ketils þryms á Arnheiðarstöðum, og settist þar að.

Miklar og ótrúlegar vangaveltur er að finna í Austfirðingasögum um hver Droplaug raunverulega var og ekki er farið í grafgötur með að hún var mikill skörungur enda synir hennar við hana kenndir en ekki föður sinn sem varð skammlífur.

Söguþráður Droplaugarsonasögu umhverfist um það hvernig synir hennar, Helgi og Grímur, verja sæmd móður sinnar. Og hvernig hún giftist aftur til ríkidæmis í þeirra óþökk með þeim afleiðingum að hún og Helgi sonur hennar eru stefnt fyrir dóm grunuð um samantekin ráð vegna manndráps til fjár. Þar teygir sagan sig í nokkrum torskyldum setningum til Írlands. Droplaug fór til skips í Berufirði áður en til dóms kom og keypti jörð í Færeyjum.

Tvær aðrar Austfirðingasögur eru í reynd um Droplaugu, þ.e. Brandkrossa þáttur og Fljótsdæla. Í Brandkrossaþætti er reynt að ættfæra Droplaugu til ókenndra göfugra ætta í Þrándheimi. Það er gert með ævintýralegri sögu af nautinu Brandkrossa í Vopnafirði sem synti á haf út og fannst hjá hellisbúanum Geiti í Þrándheimi og viðurkenndi Geitir að hafði tælt nautið til sín.

Geitir gifti Droplaugu dóttur sína í Vopnafjörð sem nokkurskonar skaðabætur fyrir Brandkrossa er best naut var á öllu Íslandi. Droplaug Geitisdóttir er þar amma Droplaugar á Arnheiðarstöðum sem er samkvæmt Brandkrossa þætti dóttir Gríms úr Vopnafirði sem bjó á Giljum á Jökuldal.

Fljótsdælasaga segir svo að Droplaug á Arnheiðarstöðum sé dóttir Arnheiðar sem Arnheiðarstaðir eru skírðir eftir og þær mæðgur hafi komið saman frá Hjaltlandi þar sem Þorvaldur Þiðrandason sonar sonur Ketils þryms og Arnheiðar á Arnheiðarstöðum bjargaði henni frá jötninum Geiti sem hafði numið Droplaugu frá föður sínum Björgólfi jarli á Hjaltlandseyjum.

Það má segja að ættfærsla Droplaugar sé hálf vandræðaleg samkvæmt Brandkrossaþætti og Fljótsdælasögu, en það segir m.a. Arneiður móðir hennar átti mörg skilgetin börn og var hún þá ekkja er hún átti þessa sína dóttir, Droplaugu. Þar er reyndar margt fremur einkennilegt í ljósi þess að ekkert er legið á ambáttar uppruna Arnheiðar á Arnheiðarstöðum í Droplaugarsonasögu.

Þess er getið eitt sumar að skip kom af hafi í Reyðarfjörð. Kona ein réð fyrir skipinu sú er Gróa hét. Hún var systir Droplaugar, mjög rík að fé. Fór hún af því út hingað að bóndi hennar hafði andast og þá seldi hún lendur sínar og keypti skip og ætlaði að finna móður sína. Droplaug ríður til skips og býður systur sinni til sín og það þiggur hún. Og þennan vetur er Gróa er þar voru sveinarnir Helgi og Grímur heima og var Gróa vel til þeirra. Ástúðugt var með þessum frændum. Fundu menn það að hvorri þeirra systra var yndi að annarri. (Fljótsdæla saga)

Gróa á Eyvindará er svo enn einn kvenkyns örlagavaldur Droplaugarsonasögu. Hún er sögð í Droplaugarsonasögu systir Þorvaldar Þiðrandasonar, en í Fljótsdælasögu systir Droplaugar og kemur óvænt á skipi sínu til Íslands, þá á besta aldri búin að missa mann sinn og kaupir Eyvindará að undirlægi Droplaugar systur sinnar, rífur skip sitt og notar í húsviði.

Hún var kvenna minnst en afbragðlega sjáleg, greyp í skapi og skörungur mikill og forvitra. Svo mikill fégróður hljóp að Gróu að Eyvindará að nálega þóttu tvö höfuð á hverju kvikindi. Menn fóru úr ýmsum héruðum og báðu Gróu og hnekkti hún öllum frá og kvaðst svo misst hafa bónda síns að hún ætlaði öngvan mann að eiga síðan. (Fljótsdæla saga)

Það má að endingu geta þess að það er Gróa sem ræður endi og örlögum Droplaugarsonasögu sem gengur einna best upp Íslendingasögulega séð í tíma og ættfærslum. Þarft verk væri sögufróðra sagnfræðinga, sem þora að lesa á milli línanna, -líkt og Barði Guðmundsson gerði með Brennu Njálssögu, -að gera því skil hversu miklar kvennabókmenntir má finna Íslendingasögunum.


Bloggfærslur 21. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband