Hreppurinn kominn á hreppinn

Það fer varla fram hjá neinum að fyrir dyrum standa kosningar bæði til lands og sjávar - ríkis og borgar- sjálfur Selinskí hefur ávarpað þjóðina. Ísland fyrir Íslendinga var einu sinni vinsæll frasi fyrir kosningar. Nú dettur ekki nokkrum heilvita frambjóðenda í hug að viðhafa svoleiðis orðfæri án þess að eiga yfir höfði að vera kallaður rasisti. Frekar að reynt sé að finna út á hvaða tungumáli sé best að ná til kjósenda. Mörg sveitafélög úti á landi eru komin með allt að helming kjósenda glóbalska.

Ættfærðir íslendingar eru fyrir löngu orðnir eins og hverjir aðrir fábjánar í eigin landi sem hafa ekki við að fá frábærar hugmyndir á færibandi til að láta ljós sitt skína á medíuna. Það sem er sammerkt landanum er að vera orðin handlama þegar koma á öllu hugarfluginu í framkvæmd. Varla að landinn sé fær um að tjalda, hvað þá að búa um rúm eða byggja hús. En ræður ennþá nokkuð vel við að skella í selfí til að senda heim frá Tene.

Flugumenn frelsisins gægjast nú glottandi úr hverri gátt tilbúnir til að selja ömmu sína, ættarsilfrið og stúta endanlega fullveldinu í skiptum fyrir að vera lausir undan mætingaskildu og starfstöð á fjarfundi í símanum sínum. Þvílík er uppbyggingin framundan að hornsteinum er nú hent að heilu hverfunum svo ekki sé skautað fram hjá þjóðarhöllunum og skýjaborgunum sem þessa dagana birtast eins og sápukúlur upp úr hattinum.

Í mínum smáheimabæ birtist nú í vikunni; innviðaráðherrann ásamt forstjóra mannvirkjastofnunnar ríkisins og fagfjárfestis af hrafnshól. Þetta andans lið fór um sinumóann í norðaustan nepjunni, ásamt sveitarstjórnarfólki, með byggingahjálma og öryggisgleraugu skartandi gulum vestum og lögðu hornstein með símanum sínum við löngu gleymdan moldartroðning.

Þessi slóði var eina veðið sem stóð eftir fyrir 2,2 milljarða skuld korter eftir “hið svo kallaða hrun” sem núverandi meirihluti sameinaðs sveitarfélags hefur endurheimt úr klóm veðhafa með málaferlum í á annan áratug. Sett var upp smá skilti fyrir símana og sjónvarpstökumanninn við enda troðningsins gegnt hornsteininum sem á stendur Construction Area authorized personnel only, m.a. með táknmyndum af öryggismyndavél og byggingahjálmi.

Það var ekki seinna vænna en að smella í selfí fyrir ríkissmedíu okkar landsmanna allra, -og hræra steypu í hornstein. Fagfjárfestirinn á hrafnshólnum hefur með handverkið að gera, hefur unnið að lofsverðum framkvæmdum í sveitarfélaginu, með því fá grafna holu í miðjan fótboltavöllinn á Seyðisfirði fyrir átta íbúðum. Holunni var reyndar skilað, en byggðar hafa verið þess í stað fimm holur neðanjarðar á Djúpavogi sem ekki hefur alveg tekist að klára vegna tæknilegra atriða.

Heir, heir! Selenskí ávarpar alþingi íslendinga. Já það er munur að búa í stóru samfélagi en vera ekki eins og hreppari í einhverju krummaskuði úti á landi. Enda er hreppurinn sjálfur, sem hefur verið til sem hallærisleg stjórnsýslueining frá þjóðveldisöld, komin á hreppinn.

Farið hefur fé betra varla eru menn á móti uppbyggingu kann einhver að spyrja, -eftir stanslausa fólksfjölgun undangenginna áratuga. En þegar betur er að gáð þá hefur Íslendingum lítið fjölgað við innrás glóbalsins, nema þá í kirkjugarðinum, eins og kunningi minn á grafarbakkanum benti á.

Guð blessi Ísland.


Bloggfærslur 6. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband