27.6.2022 | 22:28
Svalir dagar
Ég sé að Trausti Jónsson er með áhugaverða hugleiðingu um kaldan dag um s.l. helgi. Vissuleg var helgin í svalara lagi víðast hvar, og hér austan lands gránaði í fjöll bæði aðfaranótt laugardags og sunnudags.
Það breytti samt ekki því að veðrið var oft með því fallegasta það sem af er í sumar þrátt fyrir norðan blástur, loftkulda og rigningu á stöku stað.
Það er nefnilega oft svo að þegar kalt er og birtir upp eftir rigningaruppstyttu þá er loftið einstaklega tært. Um helgina skiptust þar að auki á miklar andstæður í birtu um þennan bjarta tíma ársins.
Norðan vindurinn er misjafnlega stríður þegar hann gengur út úr austfjörðunum, t.d. var ekki mikill vindur á Stöðvarfirði á laugardaginn og bjart veður frá Fáskrúðsfirði og allavega suður í Berufjörð.
Við Matthildur mín dvöldum mestan hluta helgarinnar á Reyðarfirði við dýra pössun auk þess að sýsla við rabbabara. Reyðarfjörðurinn var á mörkum regns og sólar með grátt í fjallatoppum á morgnum, en í Stöðvarfirðinum var sól og blíða, enda er þar nokkuð skýlla í norðan átt en í flestum hinna austfjarðanna.
Sólin skein í rabbabarann á Reyðarfirði
Sólskin, sóleyjar og Súlur við Stöðvarfjörð á laugardeginum
Reyðarfjörður á sunnudagsmorgninum, kannski má greina smá grátt efst í fjallatoppum
Kambanes við Stöðvarfjörð í norðan skýjafjúki
Dægurmál | Breytt 29.6.2022 kl. 03:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)