Blessuð sértu sveitin mín

Nú á dögum válegra tíðinda frá Úkraínu raðaði sendiherradóttirin vösku liði latínulærðra sérfræðinga að sunnan á garðann. Þessu liði er mest ætlað að hvítskrúppa skítinn í verbúðinni, sem flýtur um eins kúkur í lauginni. Þetta þrekvirki á að vinna í nefndum með engum efndum.

Auk tuga sérvalinni vina, þá var sjálfur vildarvinur landsbyggðarinnar, svokallaður Gunnarsstaða-móri, skipaður í þriggja manna spretthóp til að finna út hvernig mætti endanlega stúta sveitum landsins, í nafni matvælaöryggis. Vel valið kann einhver að segja, enda heldur móri sig nú að mestu heima á torfunni, sem er komin í sameign erlends auðróna.

Hvern væri s.s. viskulegra en móra að skipa til formennsku kann einhver annar að spyrja, -mann með víðtæka reynslu eftir ævilanga dvöl við jötuna. Þetta ætti því að koma öllum vel, bændum, búendum og ekki síst móra sjálfum. Hann getur alla vega fengið ferðakostnaðinn greiddan heim á lögheimilið í sveitinni.

Það var vel til fundið að skipa framkvæmdastýru bændasamtakana, með spretthlauparanum móra, enda nýbúin að að koma Hótel Sögu undir græna torfu og bændahöllin farin veg allrar veraldar. Eins var skipuð sérleg sérfræðikvinna í fjarfundabúnaði úr efnahags og viðskiptaráðuneytinu til að fullkomna gjörninginn.

“Framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi er björt, þrátt fyrir að nú þurfum við að yfirstíga tímabundnar áskoranir sem leiða af stríðsrekstri Rússa í Úkraínu,” sagði sendiherradóttirin við þetta hátíðlega tækifæri.

Nú á dögum má keyra því sem næst í gegnum heilu landshlutana án þess að sjá sauðkind, og við þjóðveginn hokra nú síðustu hálmstrá Bjarts í Sumarhúsum og Gróu á Leiti undir rofarbörðum áleturðum "Street Food- Black Beach Resturant-Spa Lagoon-Guesthouse Bistro". Ekki er seinna vænna en skera niður síðustu rollurnar, enda tapið einungis meira eftir því sem af þeim er fleira.

Landinn fer svo fljótlega að flæða fram og til baka á öðru hundraðinu með útilegudraslið, reiðhjól og grill í eftirdragi, röflandi yfir lambakjötsleysi í krummaskuðunum úti á landi í eylífri leit sinni að sólinni með góðri trú á að í heimahaganum þar sem ræturnar eitt sinn gréru sé allt óbreytt, þar sem nú má finna í mesta lagi part úr sumri landlorta búandi með brjóstahaldara á gaddavír eða auðróna með veiðistöng, -og svo náttúrulega Gunnarsstaða-móra.

Undanfarin ár hefur það orðið lenskan á landinu bláa að vinna búverkin í nefndum. Meir að segja er nú svo komið að mest allt íbúðarhúsnæði landsins er byggt í nefnd og hafa slíkar framfarir ekki orðið í húsbyggingum frá landnámi, þó svo að skipastóll landsmanna hafi verið haldin með svipuðu sniði þegar Þjóðveldið féll, -sælla minninga.

Stutt er síðan að forkólfar hinna vinnandi stétta handsöluðu nefndarbyggða, innflutta og krosslímda mygluhjalla með austantjalds silfurskottum í kaupbæti við hátíðlega viðveru medíunnar. Það má segja að það sé sárara en tárum taki að vera af kynslóð sem hefur orðið vitni af öllum framförunum frá seinni hluta 20. aldar.

Síðustu sumur hef ég haft það að áhugamáli að skoða húsakost landsins, -þegar venjulegt fólk bæði byggði og lifði með höndunum og hjartanu, og hef æ oftar sagt við sjálfan mig: -þarna var ég aðeins of seinn, allt komið undir græna torfu.

Já blessuð vertu sveitin mín.

 

IMG_7886

 

IMG_7795

 

IMG_7924

 

IMG_2621

 

IMG_7905

 

IMG_2631

 

IMG_2646


Bloggfærslur 9. júní 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband