31.7.2022 | 06:22
Fjallagrös
Í Landnámu er sagt frá Atla graut Þiðrandasyni sem nam austurströnd Lagarfljóts þ.e. frá Atlavík út undir Vallanes. Viðurnefnið grautur segir þjóðsagan að Atli hafi fengið vegna fjallagrasa sem hann sauð í graut eftir að hann hafði verið dæmdur skógarmaður, þ.e. í 20 ára útlegð frá Íslandi, réttdræpur ella. Atli vildi ekki yfirgefa landnám sitt og leyndist í Hallormstaðaskógi og lifði á grösum og því sem bóndadóttirin á Hallormstað gaukaði að honum. Þjóðsögurnar greina víða frá því að íslenskir útilegumenn hafi lifað á fjallagösum.
Nútímavísindi segja ýmislegt um gagnsemi fjallagrasa t.d. gegn hósta, kvefi, öndunarfærakvillum og magaólgu. Uppistaðan í fjallagrösum - 40-50 % - eru slímkenndar fjölsykrur. Slímið þenst út og verður að hlaupkenndum massa þegar það kemst í snertingu við vatn og sefar þannig og verndar viðkvæmar slímhimnur, sem verða aumar og bólgnar, vegna kvefs, hósta eða þrálátrar barkabólgu. Slímsykrurnar meltast í þörmum og það útskýrir hvers vegna eðlisávísun fólks rak það til þess að leggja sér fjallagrös til munns til að sefa og fylla magann.
Gagnsemi fjallagrasa hefur lengi verið þekkt á Íslandi. Í Ferðabók Olavíusar 1775-1777 um landshagi er oftsinnis komið inn á nytjar fjallagrasa þegar landsins gæðum er lýst. Í ferð hans um Múlasýslur má m.a. þetta finna.
Langanes: Ef ekki væri brimið og þokurnar, sem valda því, að menn verða þar vegna saltleysis að reykja fiskinn í eldhúsi, reyktur fiskur er raunar nógu bragðgóður, og gæta fjárins allan sólarhringinn, mundu bændur á Langanesi vera eins vel efnum búnir og nágrannar þeirra; og mátti raunar sjá þess ljós merki. Að sögn er mikil grasatekja þar hátt til fjalla.
Um Jökuldal: Hofteigssókn er að mestu umkringd af Möðrudalsöræfum, Smjörvatnsheiði og Jökulsá. Á heiðunum er mikil grasatekja. -Vallanessókn: Þarna stunda menn því bæði nautgripa- og sauðfjárrækt, en auk þess afla þeir fjallagrasa af miklum dugnaði.- Valþjófsstaðasókn: Í sjálfum Fljótsdalnum sem héraðið dregur nafn sitt af, nota menn fjallagrös mjög mikið, eins og víðar á þessum slóðum. Er grasatekjan talin meðal bestu landkosta sóknar þessarar.
En hvernig var fjallagrasanna aflað og hvernig voru þau matreidd? Í bók Sigurðar Eiríkssona Af Sjónarhrauni er kafli um Fossárdal í Berufirði og búskap þar fyrr á tímum, en talið er að þar hafi verið búið á 14 bæjum þó svo að það hafi sennilega ekki verið samtímis á öllum (nú er þar tvíbýli, sauðfjárbú og ferðaþjónusta). Í kaflanum er stutt, en athygliverð frásögn af fjallagrösum.
Karólína Auðunsdóttir frá Víðinesi, sem bjó lengi á Djúpavogi, hefur sagt mér ýmislegt frá bernskustöðvum sínum á Fossárdal, sem henni þótti mjög vænt um. Þarna var fátækt, en mikið unnið, því búið var lítið en börnin fimm á heimilinu. Um notkun fjallagrasa til matar hefur hún sagt mér eftirfarandi:
Fjallagrös voru mikið notuð til matar. Það var nóg af góðum fjallagrösum í fjöllunum við Fossárdal einkum í Afréttinni, en hún er í botn dalsins. Á hverju sumri, þegar þau bjuggu í Víðinesi, fór Katínka á grasafjall með tvö eða þrjú börnin með sér. Þau höfðu með sér hestana og sátu börnin á þeim inn eftir. Þau völdu gott veður og voru venjulega í tvo daga í ferðinni. Venjulega fengu þau mikið af grösum, sem þau fluttu á hestunum heim. Þau lágu úti í grænni laut yfir nóttina og breiddu föt sín, teppi og grasapokana ofan á sig. Venjulega voru grasapokarnir ofnir og því talsvert skjól í þeim.
Fjallagrösin voru notuð til matar. Alltaf drukkið grasate á morgnana, og borðuð með því sneið af rauðseyddu pottbrauði með smjöri og mysuosti. Var það mesta hnossgæti. Grösin voru alltaf notuð með grjónum. Einnig voru þau notuð í pottabrauðið. Mjölið var látið út í þétta grasastellu, þegar grösin höfðu legið í bleyti og svo var deigið hnoðað upp á þann hátt.
Nokkru eftir fótaferð var skyrhræringur til morgunverðar. Katínka síaði skyrið svo vel úr ærmjólkinni, að sumrinu, að það súrnaði ekki. Til miðdegisverðar var oftast fiskur. Um miðaftanleytið drakk fullorðna fólkið kaffi en börnin mjólk. Á kvöldin var alltaf skyrhræringur með slátri og brauði. Grösin voru því notuð í flestar máltíðar dagsins, þar sem þau voru bæði í grautum, sem borðaðir voru tvisvar á dag, te að morgninum og í brauði. (Eiríkur Sigurðsson / Af Sjónarhrauni bls 112-1976)
Ég hef stundum sagt frá því hér á síðunni að undanfarin ár höfum við Matthildur mín gefið okkur tíma til að plokka fjallagrös sólbjartan dag upp til heiða, þegar spóinn vellur í kappi við svanasöng, og gæsir gára heiðarvötnin blárri en blá með ungunum sínum.
Þar erum við laus úr erli dagsins, hafgolu og austfjarðaþoku. Hvergi er betra að búa sér ból en í heiðanna ró, meðan blítt blæs gola um kinn, liggja upp í loft á milli þúfna í grasamó og fá sér miðdegislúrinn í fjallasól og mófugla söng, og vita að meira en helmingurinn af hollustunni fæst strax með útiverunni.
Ég fór að rifja það upp fyrir nokkrum árum síðan hvaðan maður hefði vitneskjuna um hollustu fjallgrasa og gat ekki betur munað en hún hefði alltaf verið til staðar. Ég var nefnilega mömmudrengur í bernsku og mamma fór flest sumur þangað sem henni var kærast. Fjölskyldan fór þá eitt sinn á grasafjall í heimahögum hennar sér til yndisauka í sumarfríinu.
Ég ætlaði að sýna Matthildi minni þessar grasa slóðir þegar við vorum þar á ferð fyrir nokkrum árum, en þær eru á heiðinni milli Reykjadals og Laxárdals í S-Þingeyjarsýslu. Við vorum á hraðferð heim frá Akureyri og hugðist ég fara sömu leið og forðum, inn Laxárdalinn og upp á heiðina rétt vestan við Skútustaði í Mývatnsveit. En viti menn leiðin var þá orðin ófær, rétt sást móta fyrir vegslóða í hlíðinni. Þá rann skyndilega upp fyrir mér að það voru meira en 50 ár síðan að mamma kenndi barnahópnum sínum að þekkja og tína fjallagrös.
Við Matthildur mín komumst að sjálfsögðu alla leið heim og erum búin að kenna 4 ára sólargeislanum henni Ævi að þekkja og tína fjallagrös. Það þarf ekki að fara lengra en út á klettana fyrir utan lóð og stundum kemur Ævi inn með fjallagrös í grautinn hans afa.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)