Hof og hörgar

Það hefur varla farið fram hjá þeim sem aðhyllist vegtyllur þessa heims, hversu mikilvægt það er að tilheyra liði rétttrúnaðarins. Liðssöfnuðurinn kristallast í veraldarvafstri, pólitík, vísindum, trú á veiru og Úkraínu stríð á hinsegin, kynsegin dögum, -svo sitthvað sé talið. Það má segja að trúarbrögðin hafi lengi stundað þá íþrótt að skipa fólki í rétt lið og umbuna samkvæmt því, sama hvað það kostar. Enda ekki að ósekju að þau eru kölluð trúar-brögð.

Því hefur verið haldið fram á þessari síðu um nokkurt skeið að heimurinn, sem við samþykkjum, sé á hverfanda hveli. Einn ganginn enn sé komið að Völuspá að mæla fyrir yfirtöku nýrra trúarbragða í nafni rétttrúnaðar feminsima, -samhliða falli feðraveldisins, þjóðríkisins og kristinna gilda. Við taki hagvöxtur Mammons með sínar Davos dúkkulísur sem hofgyðjur.

Völvan sagði í sinni tölu “níu man ég heima” áður en hún spáði ragnarökum. Slík endalok heimsmyndar, er nú blasa við, hafa ekki orðið s.l. 2000 ár. Í lok Völuspár er lýst hinum nýja heimi dyggvra drótta. Þar sem ásamt þeim búa þeir Höður og Baldur Hrofts sigtóftir vel valtívar. Þá kná Hænir hlautvið kjósa og burir byggja bræðra tveggja vindheim víðan. Vituð þér enn eða hvað? -nokkurskonar hán transhumanistar í Gimlé þar sem gullið eitt lýsir upp heiminn og sólin sjálf orðin óþörf.

Landnámsmenn Íslands voru síðustu merkisberar heimsmyndar sem var forveri Kristindóms í vestrænni menningu. Eftir að hafa hrakist undan trúarbrögðum Rómarvaldsins, sem þá orðið voru kennd við Krist, frá Svartahafi norður alla Evrópu, endaði þetta fólk á Íslandi og átti um 200 ár án þess að þurfa að skipast í lið nýs rétttrúnaðar. Það var samt alls ekki svo að landnámsfólk, sem átti sína trú, þyrfti ekki líka að þola brögð hvað sína lífsýn varðaði í goðheimi þjóðveldisins.

Sögur er lúta að goðhelgi frá heiðni, þ.e. helgir staðir, eru oft í hamrabeltum og hengiflugum, s.s. goðaborgir í fjöllum. Fólk til forna hefur mátt leggja á sig harðræði og meinlæti til að þóknast goðunum og sanna trú sína, -ef þar eiga að hafa verið hof. Örnefnin segja nú mest um sögu þessara staða þó svo að þau sé aðeins eitt samsett orð. Þessi örnefni koma í stað skrásettra heimilda og geima munnmælin um hver var helgi þessara staða.

Þær skráðu heimildir sem lýsa goðhelgi staða eru fáar, stuttar og einkennilegar, sagði Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari, og má nú aðallega finna í þjóðsögum. Þessir staðir eru oftar en ekki á fjöllum eða í hamraflugum sem kenndir eru við goðin s.s. Goðatindur, Goðaborg, Goðagil osfv. Líklegast er að þessir staðir til fjalla hafi verið svo kallaðir hörgar. En hörgar, samkvæmt norrænni tungu, geta verið kletta hrjóstur, -oft á háum stöðum.

Þeir sem hafa stundað það að fara á fjallstinda upplifa oft frelsi sem útsýninu fylgir, og eftir því sem umhverfið er hrjóstrugra verður upplifunin sterkari. Jafnframt má ætla að fjallgangan hafi verið meira afrek fyrir fornmenn sem ekki höfðu yfir nútíma gönguskóm að ráða. Eins má álykta að sagnir af goðhelgi hörga hafi verið upplifuð manndómsvíxla þess sem þangað kom. Hörgar hafi þar af leiðandi haft í raun lítið með trúarbrögð að gera.

Líklegra er að goðatrúin, ef þá hún hefur verið til sem skipuleg trúarbrögð, hafi verið iðkuð þar sem voru hof. Fjöldi bæja um allt land bera nafnið Hof, eða bera það í sér s.s. Hoffell, Hofsstaðir, Hofteigur osfv. Þær sagnir sem greina frá því að hof hafi verið á illfærum fjallstindum hljóta því að byggja á misskilningi, þar sé átt við hörga. Landvætti hafi frekar verið að finna þar sem voru hörgar, þær sem menn hugðu búa í steinum, fossum aða á öðrum fögrum og sérkennilegum stöðum.

Af landnámabók sést, að ýmsir landnámsmenn eða synir þeirra reistu hof, og héldust síðan goðorð í ættum flestra þeirra, ef ekki allra. Menn þessir voru venjulega kynstórir og auðugir, enda þurfti nokkurt fé til að reisa stór hof. Oftast munu þeir einnig hafa verið blótmenn miklir, en þó má vera, að sumir hafi reist hof, þótt þeir hefðu ekki mikinn áhuga á blótum, sökum valdastöðu, sem þau sköpuðu. Hofin voru persónuleg eign eins og kirkjur síðar, og voru þeim stundum lagðar til eignir til uppihalds. (Jón Jóhannesson - Íslendinga saga I bls 73)

Líklegt er að bæir þar sem áður hafi verið hof hafi breyst í kirkjustaði við kristni eins og reyndar mörg nöfn benda eindregið til s.s. Hof í Vopnafirði, Hofteigur á Jökuldal, Hof í Álftafirði, Hof í Öræfum osfv. Eins er ekki ólíklegt að nöfn sumra kirkjustaða, sem áður báru goðtengd nöfn, hafi breyst t.d. í Kirkjuból. Heiðin hof hafi því verið staðir þar sem andinn var taminn í rétt lið með trúarbrögðum, á meðan hörgar voru þar sem maðurinn naut frelsis í persónulegu sambandi við almættið á hrjóstrugum stað.

Mannshugurinn á hrjóstrugum fjallstindi með sjálfum sér er laus úr viðjum dægurþras hversdagsins. Því er kannski ekki að furða að trúarbrögðin hafi viljað goðhelga þannig stað. Flest fjarskiptamöstur sem færa okkur sannleika hversdagsins í heimi hagvaxtar Mammons eru á háum hrjóstrum og fjallstindum. Athyglisverð er í því sambandi frásögn Egilssögu þegar Egill rak niður níðstöng á kletti í Noregi og snéri hrosshaus inn til lands við að virkja landvætti í að koma fram vilja sínum.

Hæðin Akrapólís í Aþenu er dæmi um hörga þar sem reyst var hof og síðan byggð háborg goðhelgrar menningar, þaðan sem var útsýni yfir alla borgina. Hauskúpuhæð, eða Golgata í Jerúsalem höfuðborg trúarbragðanna, eru sennilega einhverjir þekktustu hörgar Kristindómsins. Á þeirri hrjóstrugu útsýnishæð var frelsarinn krossfestur.

Hörgar hafa víða verið yfirteknir af táknfræði trúarbragðanna. Á Íslandi hafa t.d. verið byggðar á þeim kirkjur. Á Egilsstöðum er kirkjan byggð á hæð sem heitir upphaflega Gálgaás, kirkjan stendur við hliðina á Gálgaklettinum fornum aftökustað. Þaðan má sjá vítt um Héraðið, nú heitir gatan sem kirkjan er við Hörgsás.

Í Reykjavík er ein tilkomu mesta kirkja landsinns byggð á fyrrum hörgum, víðsýnum og hrjóstrugum stað þar sem áður fyrr mátti sjá yfir bæinn og suður eftir öllu Reykjanesi. Á Skólavörðuhæðin eru táknfræði minnin einnig allt um kring. Dys ólánskonu að vestan, Steinunnar Sveinsdóttur frá Sjöundá, var þar sem stytta Leifs heppna er nú, fyrsta Kristniboðans í vesturheimi.

Sagnir af kristnitöku á Íslandi bera með sér hve mikilvægt var að tilheyra réttu liði. Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og komst að því að rétt væri að hafa einn sið og eitt lið. Spak-Bessi í Fljótsdalnum ákvað að kasta goðunum í Lagarfljótið og treysta á nýjan sið og rétt lið. Það má því segja sem svo að haga seglum eftir vindi hafi þar tekið hofum og hörgunum fram. Kristnin hafði bókina fram yfir goðatrúna, Mammon hefur nú ljósvakann fram yfir bókina og goðin.

Ljós hofs og hörgar eru samt sem áður allt um kring, umvefja þannig að við tökum varla eftir þeim. Þar sem ég sit nú við stofugluggann í Útgarði, á næstu útsýnishæð norðan við Gálgaásinn, sé ég allt í einni hendingu, -Kirkjuna við Gálgaklettinn, Þórsnesið og Freysnesið þar sem goð Spak-Bessa fundust rekin úr Fljótinu. Einnig sé ég uppáhalds hörga Ásröðar landnámsmanns á Ketilstöðum þar sem hann lét heygja sig, -Rauðshauginn á Aurnum. Í flútti við Rauðshauginn er útsendingamastur Mílu á Þverklettunum ofan við fótboltavöllinn, -sú níðstöng okkar tíma sem flytur seiðinn.

Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? -sagði Jesú Kristur, -sannur boðberi upplifunar hörganna, -benti mannfólkinu þannig á sannindin sem hann var krossfestur fyrir, sem myndi vera á nútímans níðstöng í beinni útsendingu, -svo ískyggileg þóttu orð Krists að byggð voru á þeim bókstafleg trúar-brögð.

Því verður seint haldið fram á þessar síðu að Mammon með sínum hagvöxnu ljósvakans hofgyðjum og transhumanisma sé ímynd hörga, -það mikið hefur þó þjóðsagan geymt en ekki gleymt. Glóbalskur Gandhi komst þó nær því með að benda á að með því að breyta sjálfum sér þá breytir maður heiminum.

Nú er siglt inn í nýjan tíma. Tíma þar sem gullið á Gimlé lýsir heiminum í stað sólarinnar, eða allt þar til kemur hinn dimmi dreki fljúgandi, naður fránn, neðan frá Niðafjöllum, -eftir rúm 2000 ár eða svo, -hvað þá?


Bloggfærslur 19. ágúst 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband