Borg óttans

Reykjavík er stundum kölluð borg óttans og kannski ekki að ástæðulausu. Jafnframt hefur því heyrst fleygt að suðvestur hornið allt sé kallað landráðaskagi af landsbyggðarlýðnum. Það breytir samt ekki því að Reykjavík er höfuðborg allra Íslendinga og fæðingabær síðuhafa.

Ég fór til Reykjavíkur s.l. sunnudag. Flaug suður til að fara í þræðingu á Hjartagátt Landspítalans eldsnemma á mánudagsmorgunn. Fékk gistingu í Barmahliðinni hjá Dagbjörtu systir sem hringdi í Áskel bróðir og boðaða að hann yrði heimsóttur á sunnudagskvöldið af sér og okkur Sindra bróðir.

Guðjón mágur keyrði upp í Grafarvoginn og á þeirri leið varð mér hugsað hvað ég hefði oft keyrt þessa leið þau fjögur ár sem við Matthildur bjuggum í Grafarvoginum. Breytingarnar á Grafarvogi eru ekki miklar á 20 árum, helst að trén hefðu stækkað og gróðurinn virtist suðrænni.

Morguninn eftir keyrði Guðjón mér á Landspítalann við Eiríksgötu þar sem ég var þræddur. Þessi þræðing var ákveðin í byrjun júní og ég búin að vera með undanbrögð í allt sumar, sem ég tímdi ekki að eyða degi af í leiðindi.

Meðan ég lá á gáttinni bíðandi eftir að slagæðin lokaðist, sem voru um 4-5 klukkutímar, varð mér hugsað til þess, gónandi upp í loftið á rafmagnsljósin, að á horninu hinu megin við götuna hefði verið klippt á naflastrenginn fyrri öllum þessum árum síðan, enda hafði ég um ekkert að hugsa snjall tæknilaus maðurinn og búin að drepa á mínum gsm læstum inn í skáp.

Dagbjört systir kom svo og sótti mig og þegar við komum í Barmahlíðina ákváðum við að ganga út á Klambratún í Kjarvalstaði og skoða portrettin hans Kjarvals. Mér þóttu Borgfirðingarnir, nágrannar mínir að austan bestir og fannst þekkja hvern andlitsdrátt.

Ein af stóru myndunum var af fjórum mönnum stöddum í Hjaltastaðaþinghá í svífandi umhverfi með Selfljótinu og Dyrfjöllunum séðum frá Kjarvalshvamminum. Þeirri mynd snaraði Kjarval á striga í geðshræringu þegar honum var færður Gullmávurinn að gjöf, norskan Norlending, seglbát sem Kjarval sigldi einn niður Selfljótið út á Héraðsflóann og þokuna áður en hann kom inn á Borgarfjörð.

Þá var Kjarval 71 árs siglinga tækjalaus og óreyndur siglingamaður en ekki brást honum ratvísin heim í þokunni. Spurning hvernig menn hefðu sig í gegnum þetta snjalltækjalausir í dag þegar gps og kort eru komin í hvert snjallúr og síma.

Á þriðjudagsmorgunninn fór Dagbjört með mér á rölt um Reykjavík. Við keyrðum upp á Skólavörðuholt og löbbuðum niður Skólavörðustíginn niður í gömlu Reykjavík sem var orðin gjörbreytt neðan við Lækjargötu frá því ég kom þar síðast.

Ég get nú ekki sagt sem svo að ég hafi beint veri imponeraður af nýju Reykjavík þó svo að steinsteypan hafi fengið að njóta sín á stöku stað í því H&M Kalverstraat, þá minnti það meira á Sovéskan supermarkað. Túrista vaðallinn hafði velst um allar götur, en þarna brá svo við að ekki var hræðu að sjá innan um heimsklassa herlegheitin.

Á Austurstræti streymdi túristavaðalinn og hægt var að fylgja straumnum upp á Skólavörðuholtið aftur þar sem markmið ferðarinnar var fullkomnað með því að skoða Listasafn Einars Jónssonar. Það safn hafði ég aldrei skoðað og varð dolfallinn.

Dagbjört keyrði mér svo út á Reykjavíkurflugvöll. Það má því segja að ferðin í borg óttans sem ég hafði forðast í allt sumar hafi endað sem menningartengd borgarferð.

IMG_5203

Kjarval engum líkur í sinni fjölbreytilegu litadýrð

 

IMG_5210

Íslenskt handverk á boðstólum í gamalli steypu

 

IMG_5215

Gimli í Lækjarbrekku, húsið sem ég vann síðast við múrviðgerðir í Reykjavík, en ég var svo heppin að vinna mikið í gömlu Reykjavík þegar við bjuggum í Grafarvogi 

 

IMG_5218

Nýja Reykjavík

 

IMG_5226

Sovéskur súpermarkaður?

 

IMG_5237

Meir að segja skatturinn er farinn, en myndin hennar Gerðar Helgadóttur stendur fyrir sínu

 

IMG_5241

Eftirsóttasta hornið heitir ekki lengur Kaffi París, nú heitir það Dukc & Rose

 

IMG_5246

Hressó stendur vaktina

 

IMG_5249

Lækjarbrekka án lambasteikur

 

IMG_5250

Skólavörðustígur og glóballinn

 

IMG_5251

Ferðamenn í haustlitum

 

IMG_5254

Ísland í dag

 

IMG_5256

Skólavörðuholt 

 

IMG_5270

Slakað á garðinum á bak við Listasafn Einars Jónssonar

 

IMG_5282

Sjá má grilla í hrjóstrugt Skólavörðuholtið í allri hnattrænu hlýnuninni

 

IMG_5289 - Copy

Útlaginn hans Einars Jónssonar, mitt upp á hald

 

IMG_5333

En má sjá gömlu litfríðu Reykjavík líkt og rigningarskúri á stöku stað


Bloggfærslur 14. september 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband