6.11.2023 | 19:40
Þið þekkið Algrím, -er það ekki?
Það kannast sjálfsagt flestir við að eftir að hafa gúgglað þá fyllast síður, sem litið er inn á, af auglýsingum um það sem var gúgglað. Þannig ástand er núna hjá mér m.a. á fésbókinni. Hún er full af sængum víða að úr heiminum eftir að ég gúgglaði íslensk ullarsæng.
Það má segja að ég hafi hitt á algóðan Algrím sem býr til veröld sniðna fyrir mig. Les hugsanir og uppfyllir óskir ekki síður en almættið. Hann býr mér veröld hlýju og væntumþykju, heldur frá mér því óþægilega og þeim ógeðfelldu, á samt til að vera full alúðlegur fyrir minn smekk.
Þegar ég var í Noregi fyrir 11-12 árum eða svo, var íslenskur vefmiðill sem hafði tekið trú á almáttugan Algrím. Þessu komst ég að með því að vera virkur í athugasemdum. Það skemmtilega við þennan fréttamiðil var, að hann bauð bæði upp á þumalinn upp og þumalinn niður, ekki bara like.
Mér tókst oft að fá fjölda þumla, þó oftast mun fleiri niður en upp. Enda var sérviska mín á skjön við helferðarhyskið sem hélt úti netmiðlinum. En vegna þess að nokkrir með minn þankagang voru forvitnir um hvað áhangendur helferðahyskisins höfðu til málanna að leggja kom fyrir að þumlar væru upp við mínum athugasemdum.
Svo gerðist það einn daginn að ég fékk ekki einn einasta þumal, þó svo athugasemdin mín stæði þarna svört á hvítu heldur betur nöturleg, -og skildi hvorki upp né niður í því. Stuttu seinna datt netið út hjá mér, og ég fékk að fara á netið í tölvu fyrirtækisins, sem ég starfaði hjá og var í sama húsi og ég bjó í, -til að hringja á skype heim á landið bláa.
Á meðan ég talaði við hana Matthildi mína á skype þá datt mér í hug að kíkja á netið, þ.m.t. síðu helferðarhyskisins, og viti menn þar var engin athugasemd frá mér við tiltekna frétt. Mér hafði semsagt verið slaufað án þess að það ætti að valda mér óþægindum, því ég gat áfram lesið ruglið í mér sjálfur í minni tölvu eftir að netsambandið mitt komst aftur í lag, -ég fékk aldrei þumal eftir það.
Þetta var þá svo til óþekkt tækniundur, en er orðin staðalbúnaður Algríms í dag. Ég er t.d. með link á bloggið hjá mér í kynningar reit á fésbókarsíðunni minni, ef ég klikka á hann þá kemur þessi texti upp; Your connection is not private! Attackers might be trying to steal your information from www.magnuss.blog.is (for example, passwords, messages, or credit cards). -ásamt stóru rauðu aðvörunar merki.
Síðan er boðið upp á kennslustund í hvernig má forðast fýrinn og flipa til frekara öryggis, eða snúa snarlega aftur í öryggið. Þessi melding poppar líka upp þegar mér verður á að kíkja á blogg síðuna mína í öðrum tölvum en minni. T.d. ef ég stelst til þess í vinunni, því ég er svo svakalega sérvitur að eiga ekki snjallsíma, finnst í því tilfelli betra að slaufa því sem veldur óþægindum.
Þessi slaufunnar menning hófst reyndar strax með símnúmerabirtinum seint á síðustu öld og hefur náð þeirri fullkomnun í dag að ef símhringingu er ekki svarað og hvorki með símtali eða skilaboðum til baka, þá er viðkomandi líklega dáinn, eða allt að því, -alla vega hægt að segja blessuð sé minning hans í Algríms nafni.
Dægurmál | Breytt 7.11.2023 kl. 06:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)