Flón

Nú ríkir hamfara blíða á landinu bláa og bjálfarnir láta ljós sín skína í skammdegis myrkrinu. Uppi eru stórhuga áform um að byggja upp bakka við eldgjár og brýr yfir hraunelfur, til viðbótar við allt grjótið sem keyrt eru fjörur til varnar sjávarföllum, og fjöllum sem rutt er til fjalla sem ofanflóðavörnum.

Verklegir vanvitar með sérfræði gráður eigra nú um mela og móa með mælitæki í blíðunni og reka niður hæla svo hefjast megi handa um leið og endanleg staðsetning hefur verið afmörkuð. Á árum áður þurftu þessi flón að gera sig gildandi með því að henda sér fyrir skurðgröfuskóflur svo á þau væri hlustað, -þá oftast við að stöðva framkvæmdir annarra vegna eigin kjarabaráttu.

En nú er öldin önnur þetta eru handhafar sannleikans úr spálíkani, og sem slík skammta þau sér lífsviðurværið sjálf. Það mun gjósa bara spurning hvar og hvenær, þó svo að það verði ekki til annars tjóns en fjárhagslegs þá er aldrei of varlega farið. Það ætti landanum að vera í fersku minni frá því í kóvítinu.

Það sem nú þarf til, umfram allt annað, er að þylja sömu þuluna nógu oft upp úr spálíkaninu í medíuna. Fá flissandi fábjána við Austurvöll til að setja upp áhyggjusvip í beinni, og fara síðan út um þúfur rekandi niður hæla úti á víðavangi sem afmarka innviða skurðgröfunum pláss. Klædd gulum vestum með hvíta plasthjálma á hausnum í guðs grænni náttúrunni.

Þegar þessi flón gera sig gildandi eru hvorki samsæriskenningasmiðir né álhattar á ferð, -þetta eru svokallaðir fræðingar sem byggja allt sitt á vísindum.


Bloggfærslur 9. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband