5.4.2023 | 14:45
Ógeðslega Ísland
Það hefur sjálfsagt mátt greina undanfarið á þessari síðu að höfundur hefur verið gnafinn. Tungumálið á hverfandi hveli fyrir hroða ensku, regluverk andskotans flæðir yfir svo landanum er orðið ófært að koma sér upp heimagerðu þaki yfir höfuðið hvað þá hænsnakofa án þess að brjóta EES samninginn, sem nú á endanlega að staðfesta að er rétthærri íslenskum lögum, nema að þau séu samhljóma.
Allt hefur þetta gerst á minni vakt, kynslóðar sem ólst upp við að haldið var upp á fullveldisdaginn með fríi í skólum, -kynslóðar sem ólst upp við að vera Íslandi allt með 17. júní helstan hátíðisdag ársins, -kynslóðar sem vissi að dreifðar byggðir landsins yrðu að vera í byggð því síðasti bærinn yrði aldrei til lengdar sá síðasti.
Nú er risið við sjóndeildarhring djöflaríki, þar sem íbúar byggðalags í nauðvörn verða að kaupa heilsíðuauglýsingu til að vekja athygli á firðinum sínum sem á að eyðileggja með óumbeðnu erlendu fiskeldi. Íbúar hafa einfaldlega ekkert um það að segja og fjölmiðlar landsins bláa þegja þunnu hljóði svo ekki slettist á allt of litlu bláu buxnadragtir Davos dúkkulísanna sem halda þeim uppi á óreiðustyrkjum.
Íbúar í stórsameinuðu sveitarfélagi Múlaþings eru með heilsíðu auglýsingu í Dagskránni þessa vikuna þar sem má lesa þetta: Stopp verndum Seyðisfjörð - 75% íbúa Seyðisfjarðar hafna sjókvíaeldi Ice Fish Farm, samkvæmt skoðanakönnun sveitarfélagsins. Ice Fish Farm, sveitarfélagið og innviðaráðherra virða ekki vilja íbúa. Persónulegur fjárhagslegur ávinningur erindreka fyrirtækisins er að minnsta kosti þrír milljarðar ef af verður. Náttúran, lífríkið og samfélagið á Seyðisfirði bera skaðann.
Já svona er komið á minni vakt, því segi ég ógeðslega Ísland.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)