Er komið að skuldadögum?

Nú hefur ESB stöðvað aflátsbréfasölu íslenska orkuiðnaðarins út fyrir landsteinana. Ekki dugði minna en að láta hálfan álf í fánalitunum fronta fréttina, enda gæti víst tapið hlaupið á milljörðum. Af kolefniskontór Landsvirkjunar berast svo þau válegu tíðindi að ekki sé augljóst hver beri endanlega skaðann.

Að því komust við steypukallarnir í Noregi fyrir meira en áratug síðan, þegar verð á rafmagni til norskra heimila hækkaði hviss bang um 30% við það eitt að hitamælirinn fór niður um nokkrar gráður um haust. Endurnýtanleg vatnsaflsorka Noregs var nefnilega samtengd raforkukerfi ESB með sæstreng, -og þá hafin aflátsbréfasala kolefniskirkjunnar.

Við steypukallarnir ræddum þessa rafmagnshækkun í kaffitíma, og þótti norskum frændum mínum aflátsbréfin vera hvað hrikalegust í þessu seigfljótandi slýgræna orkusvindli kolefniskirkjunnar, þar sem hrein vatnsafls raforka Norðmanna var höfð af eigendunum og þeir látnir greiða fyrir þjófnaðinn með okurverði.

-Og það án þess að nokkur vissa væri fyrri því að sá þungaiðnaður Evrópu, sem sagður var kaupa aflátsbréfin fengi hreina orku í staðin, en fengi samt sem áður upp á skrifað aflátsbréf fyrir sínum sóðaskap, og væru síðan heimili Noregs rukkuð fyrir óskapnaðinn auk förgunarkostnaðar á umbúðum umhverfissóðanna.

Mér datt í hug eftir þetta kaffitímaspjall -um árið- að kanna hvernig þessu væri háttað á Íslandi, -jú einmitt sama aflátsbréfa útgáfan út fyrir landsteinana, -en enginn sæstrengur. Orkustofnun hélt utan um umsvif svindlsins og samkvæmt bókhaldi hennar er sú raforka sem íslensk heimili nota langt innan við 10% endurnýtanleg, rest er fengin með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Það sem er undarlegast við það að ESB skuli nú vera búið að stöðva aflátsbréfasöluna, -er hvað hún fékk að standa lengi, eða allt frá 2011. Ástæðan fyrir því ætti samt að vera flestum skuldseigum Íslendingum augljós, því þegar kemur að skuldadögum borgar sig að hafa þá óviðráðanlega.

Er nema von að nú liggi á að innleiða EES bókun 35 um að Evrópuréttur taki yfir íslensk lög þar sem við á? -þar sem nú á endanlega að staðfesta á Alþingi Íslendinga að hann sé rétthærri íslenskum lögum, nema að þau séu samhljóma.

Allt þetta vita náttúrlega fjárplógsmenn sjálftökunnar og Davos dúkkulísur með augun vatnsblá, glær og galtóm. Þó svo að þeim detti helst í huga að láta hálfan álf fronta óskapnaðinn í fánalitunum í ríkismiðlunum þegar kemur að því -sem kallað er á því ástkæra og ylhýra - skuldadagar.

uppruni-raforku-a-islandi-2019

Þessi kaka var í boði Orkustofnunnar árið 2019, ég nenni ekki að finna nýrri svo oft hef ég bloggað um fyrirbærið að ég á þessa enn óétna.

 

Ps. ef einhver kynni að hafa áhuga á að kinna sér málið þá má hér sjá hvað er að koma út úr hólnum í fánalitunum. Á meðan gálur á glapstigum faðma leikarann ástsæla frá Kænugarði umvafðar stjörnuprýddu flaggi ESB.


Bloggfærslur 7. maí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband