20.6.2023 | 05:54
Stríðið gegn fíflunum
Nú stendur baráttan hvað hæðst gegn því sem fólki hefur verið innrætt að sé illgresi jarðar. Allt til hausts munu heilu vélaherdeildirnar verða sendar út á vígvöllinn. Árangurinn lætur ekki á sér standa, eða þannig, því fíflunum mun einungis fjölga eftir því sem harðar er að þeim sótt, spretta galvaskir upp á ný strax næsta dag, þó svo þeir hreyki sér kannski ekki jafn hátt og í upphafi.
Leitun er að eitri sem er eins auðvelt að nálgast og fíflaeyði, en eins og margir vita sem hafa reynt þann metal er hann því sem næst gagnslaus. Einn sólríkan góðviðris morgunn þegar ég heimsótti kunningja kom ég að honum bálsteyttum út á lóð með heljarinnar stungu vopn sem hann hafði keypt í byggingavöruverslun, og kallaði fíflabana. Þetta vopn hafði hann fengið eftir að hafa keypt eitur af þeim í gallonavís án árangurs.
Þessi kunningi minn hóf vopnið á loft hvað eftir annað þarna í morgunnsárið með miklum formælingum, og keyrði það ofan í svörðinn ásamt brosandi fíflum á sólbrunninni grasflötinni í kringum húsið og sagði að eina ráðið til að drepa þessi kvikindi væri að komast fyrir ræturnar. Ég stillti mig um að minnast á að þær gætu verið allt að metir á dýpt og væru sennilega það eina sem væri fært um að draga raka og næringu svo djúpt að yfirborði jarðar.
Fyrir stuttu setti ég status á fésbókina um að það væri orðið fíflalegt á Egilsstöðum með myndum af fjölda fífla í brakandi blíðunni. Það stóð ekki á viðbrögðum og einhverjum varð hvorki um sel né til setunnar boðið með að líta í eigin barm þegar fíflunum fjölgaði svona í kringum þá, og mátti jafnvel skilja sem svo að nú yrði að taka á þeim, en flestum fannst þeir samt svolítið fallegir.
Undanfarin ár hef ég ekki nennt að gera nokkurn skapaðan hlut í fíflunum eða öðru illgresi, nema þá að éta þá eins og ég hef oft getið um hér á síðunni. Niður við Sólhólinn úti við ysta haf er garður sem er allur í órækt. Illgresið fær að hafa það eins og því sýnist, í mesta lagi að ég kippi upp einum og einum fífli og éti hann, eða njólavendi til að setja í súpupottinn.
Á síðasta ári bað kunningjafólk mig um að leifa sér að gista í Sólhólnum, en hann hafði verið í eigu þeirra fjölskyldu í áratugi áður en hann lenti í okkar Matthildar minnar umsjá. Ég sagði þessum kunningja að því þyrði ég varla, m.a. vegna þess að garðurinn, sem svilkona hans hafði lagt mikla alúð við, væri allur kominn í órækt. Þar hefði ekki verið gert ærlegt handtak síðan þau fóru.
Hann sagði það gerði ekkert til því að svilkona hans hefði skipulagt garðinn þannig að hann mætti vera í órækt. Þá rann upp fyrir mér hvers vegna ég hafði ekki haft brjóst í mér til að farga fíflum og öðru illgresi. Þessi í stað hafði verið byggður sólpallur yfir herlegheitin með svífandi göngustíg út á, og í mesta lagi verið ruddur þröngur stígur niður að hleinunum fyrir neðan kot.
Það er því orðið nokkuð síðan að ég uppgötvaði hve tilgangslaust stríð gegn fíflum er, eina vitið fyrir þá tapsáru er að hugga sig við enska spakmælið if you can´t beat them, join them, eða þá eins og er svo inn að segja á íslensku í dag, -bara að njóta.
Svona var miðbærinn á Egilsstöðum snemma í júní þegar mér þótti ástæða til að birta fíflalega fésbókar statusinn
Hér er búið að slá og allt annað að sjá, engin órækt lengur og umhverfislistaverkið visitegilsstadir.is fær athyglina óskipta
Hér hefur verið lögð ómæld sumarvinna unglinga árum saman í að hafa innkeyrsluna í Fellabæinn ræktarlega, hannað og útpælt undir eftirliti umhverfis sviðsstjóra og alles
Í hinum vegkantinum við innkomuna í Fellabæ er óræktin villt án þess að nokkuð sé að gert og við blasir lúpínan, -óvinur þjóðarinnar no 1
Vegagerðin lagði af að eitra vegkantana með Roundup fyrir nokkrum árum, en hefur fengið kantsláttuvél á skurðgröfu sem silast um þjóðveginn við að slá óræktina svo langt sem hún nær, svo óskapnaðurinn blasi ekki við vegfarendum
Bölti, eða hljóðmön, sem ekki hefur gefist tími til að slá, og ekki leynir sér að fíflarnir hafa náð laumað sér í grasið. Vanalega er þessi bölti eins og vera ber,-snöggrúin rolla sem skjögrar til fjalls að vori, eða vel reyttur kjúklingur
Sama hljóðmön seint í fyrra sumar, og sama hirðuleysið með sláttinn. Vallhumall búin að gera hann kríthvítan eins og fuglabjarg. Gott ef það vottaði ekki fyrir blágresi þegar ekki tókst að slá nógu staðfastlega í júlí á eftir fíflatímabilinu í júní
Húsmóðirin á það til að bregða sér út í óræktina við Sólhól og tína fífla, sóleyjar og aðra órækt saman í vönd, -á meðan ég er meira fyrir að tína illgresið upp í mig
Leynilegur getur hann verið krákustígurinn í gegnum óræktina að hleinunum neðan við kot
Dægurmál | Breytt 24.6.2023 kl. 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)