Jónsmessudrafli

Sum íslensk orð vekja meiri forvitni en önnur, eru þá oft þess eðlis að ekki er auðvelt að átta sig á upprunalegri merking þeirra eða yfir hvað þau voru nákvæmlega notuð. Þrísamsetta orðið Jónsmessudrafli varð til þannig hugrenninga en á það rakst ég í þjóðsagnasafni Sigmundar Long, -sögn um Þorgrím póst frá 19. öld.

Hafði sagan að geima skýra frásögn um merkingu orðsins ásamt vísbendingu um hvers lags var en þó ekki hvernig. Læt ég hér fylgja eina sögu, þá sem hafði með Jónsmessudrafla að gera, og hvers ég varð áskynja við frekar eftirgrennslan. En í sögunum af Þorgrími póst kom fram að hann hefði verið mikill mathákur frá bernsku.

Það var gömul venja, að minnsta kosti sumstaðar á Íslandi, að á Jónsmessu, 24. júní, var suðamjólkin tekin, látin yfir eld og hleypt, síðan soðin með hægð, uns osturinn var orðinn rauðleitur og sætur. Ekki sá ég þetta gjört, þar sem ég var, nema einu sinni. Það var á Heykollsstöðum í Hróarstungu hjá Eiríki bónda Pálssyni og Helgu Arngrímsdóttur. Þá var ég á áttunda árinu (1849).

Þorgrímur hét maður, hann mun hafa verið Vopnfirðingur. Hann sagði frá því, að þegar hann var unglingur heima hjá móður sinni, var eldaður Jónsmessudrafli. Var það á sunnudegi og potturinn tekinn ofan og látin standa á eldhúsgólfinu, á meðan lesinn var húslesturinn.

“Mér leiddist lesturinn,” sagði Þorgrímur, “svo að ég laumaðist fram í eldhús og fékk mér sleikjukorn úr pottinum, þegar skammtað var, lauk ég því sem mér var gefið (af mat), og Manga systir gaf mér leifarnar sínar. En er frá leið þembdist ég upp með óþolandi kvölum og fannst ég ætla að springa.

Mamma vissi ekki hvað til bragðs skyldi taka, en svo hugkvæmdist henni ráð. Hún tók tvær rúmfjalir, lagði mig á aðra upp í rúm, en hina ofan á mig, brá utan um mig flatbandi, svo fjalirnar gengu ekki til, svo settist hún ofan á. Þá gekk bæði upp og niður hjá Þorgrími.” (þetta má lesa í Að Vestan II þjóoðsögur og sagnir, Sigmundar Matthíassonar Long, sem hann skrásetti í Vesturheimi, -úrdráttur úr” Þorgrímur Póstur” bls 161)

Drafli kk. -nn; drafla drafla·ábrystir; drafla·ostur; drafla·skyr; -samkvæmt Málið.is. – Jónsmessudrafli hefur tæplega verið ábrystir því þær hefði Sigmundur Long átt að vera vel kunnur enda algengur matur langt fram á 20. öldina, en hann segist aðeins einu sinni hafa séð Jónsmessudrafla gerðan.

Líklegra verður að teljast, samkvæmt sögunni af Þorgrími, að um sérstakan ost hafi verið að ræða, gerðan úr suðamjólk á Jónsmessu. Hversu uppþembdur Þorgrímur varð af Jónsmessudraflanum bendir heldur ekki til þess að hann hafi étið yfir sig af ábrystum, það er varla hægt.

Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs er drafli, -a k, yst mjólk; rauðseyddur d. drafli soðinn, þar til hann fær rauðleitan blæ. Drafli er því talin hafa verið viss aðferð við ostagerð.

Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal: drafli k. yst mjólk, kornótt mjólkurhlaup; sbr. fær dralve (to. í finn. raupuli vont smjör). Sbr. gr. trophalís nýr ostur hlaupin mjólk, gála thrépsai hleypa mjólk, tyrón thrépasi búa til ost. Orðið er efalítið skylt draf, drafna, og drefjar og upphafleg merking orðstofnsins tekur bæði til þess að leysast upp í smámola og renna saman í kekki.

Á Síðunni Ferlir.is má lesa þetta um forna ostagerð:

„Ostar voru hversdags fæða í fornöld, og voru þeir gerðir í sérstökum mótum (ostakista), misjöfnum að stærð. Engum blandast hugur um, að forfeður vorir höfðu mikla ostagerð, en hitt vita menn eigi, hvernig osturinn var gerður. Hinn norski gerlafræðingur dr. 0. J. Olsen Sop hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Norðmenn og Íslendingar hafi einungis gert einskonar súrost í fornöld.

Hann telur líklegt, að mjólkinni hafi verið safnað í stór keröld; þar hafi hún súrnað, og við súrinn eða gerðina hafi mjólkin skilist þannig, að draflinn settist á botn kersins, smjörið eða rjóminn flaut ofan á, og drykkurinn var á millum laga. Nú vitum vér, að ostarnir voru gerðir í mótum, og er því líklegt, að rjóminn hafi verið veiddur ofan af drykknum, draflinn því næst verið veiddur upp úr honum og látinn í mót.

Af fornsögum vorum verður því miður ekki séð, hvernig ostar voru gerðir til forna, en allar líkur eru til þess, að vér höfum tekið ostagerðina í arf af Norðmönnum, og þess vegna hafi ostar hér á landi verið gerðir líkt og í Noregi. - Ferðasaga Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar ber það með sér, að ostagerð hér á landi hafi að mestu leyti verið fallin í gleymsku og þá um miðja átjándu öld. Þó er þess getið í ferðasögunni, að einstöku búkonur á Austurlandi geri allgóða osta, sem ekki eru seigir og harðir, eins og íslenzkir ostar séu venjulega.”

Það má vera nokkuð ljóst að Jónsmessudraflinn, sem Sigmundur M Long segir frá hefur verið gerður samkvæmt aðferð íslendinga við ostagerð sem að mestu hefur verið fallinn í gleymsku um miðja 18. öld, samkvæmt Ferðasögu Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.

Þegar ég fór að leita eftir hvort einhversstaðar væri nú á dögum gerður sauðaostur á Íslandi, þá uppgötvaði ég fljótlega að ekki þyrfti að leita langt því svoleiðis ostur væri gerður í Fljótsdal af þýskri konu, Ann-Marie Schlutz, sem rekur matarhandverksfjölskyldufyrirtæki er nefnist Sauðagull og er með lítinn sölugám við Hengifoss.

Síðastliðinn sunnudag brunuðum við Matthildur mín í Fljótsdalinn með það markmið að hitta á Ann-Marie við Hengifoss og kaupa sauðaost og ég að forvitnast um hvort hann væri gerður eins og Jónsmessudrafli með því að sjóða við hægan eld, eða með því að láta mjólkina súrna og skilja sig.

Við hittum á Ann-Marie, en hún hafði engan suðaost á boðstólnum þá stundina. Eftir nokkrar samræður kom fram hjá henni að vinnsluaðferðin á sauðaostinum hennar var ekki sú sama og á Jónsmessudrafla sem soðin var við hægan hita. Hún undraðist ekki hvernig Þorgrímur Vopnfirðingur blés út þegar hann stalst í draflann. Maginn blési út við heita suðamjólk svo varasamt gæti verið.

Eftir að hafa rætt við Ann-Maríe og orðið nokkuð vísari um Jónsmessudrafla fengum við okkur ís sem hún gerir úr sauðamjólk, hreint út sagt lostæti, minn var með frískandi rabbabarabragði og fór svona líka ljómandi vel í maga. Engin sem er á ferð við Hengifossi í Íslenska sumrinu ætti að sleppa tækifærinu á að bragða ís úr sauðamjólk.


Bloggfærslur 24. júní 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband