10.8.2023 | 17:39
Börn náttúrunnar
Við hjalandi læk með sólargeisla á vanga heyri ég dun frá fossinum í fjarska. Þegar ég skrúfa númerin á gamla Grand Cherokee í byrjun sumars þá segi ég vinnufélögunum að ég noti hann til að fara í berjamó. Þá hlæja þeir fyrir kurteisis sakir og halda að ég sé að fíflast.
Enda hvernig getur það borgað sig að halda upp á verðlausan bensínhák sem leikur sér að 40 lítrunum fyrir bláber, jafnvel þó svo þau séu aðal. -Því er auðsvarða við Matthildur mín erum bæði orðin feyskin, lúin og fóta fúin. -Og sólageislinn hún Ævi á það til að spyrja; -afi förum við ekki á græna bílnum út í tjaldastaði.
Í sumarfríinu í síðustu viku fórum við Matthildur mín í lautarferð sem endaði niður í fjöru. Við höfðum rásað fram og aftur þjóðveginn í napurri austfjarðaþokunni áður en við fundum að endingu skjólgóðan stað undir grasbakka í hvítri skeljasands fjöru innan við leifarnar af gömlu steinsteyptu bryggjunni á Hafnarnesi.
Þegar við vorum búin að dekka borðið með Thermos kaffibrúsa og kanilsnúðum tók ég eftir að það var að flæða, en sagði Matthildi að það væri langt í að við flæddum. Ég sagði henni líka söguna af því þegar ég var aleinn úti í Noregi eftir hið svokallaða hrun og fór í fjöruna okkar í Akurvík á löngum frídegi eftir að hún var farin heim til Íslands.
Af því að tíminn var þá óendanlegur settist ég þar í flæðamálið og sat og sat, á meðan fjaraði. Og áfram sat ég og sat á meðan flæddi meðan ljósbrot sólarinnar lýsti upp andlitið á mér í spegli hafsins.
Þá gat ég orðið talaði við fuglana, það kom meir að segja til mín kjagandi máfur og skoðaði mig hátt og lágt veltandi vöngum. Svo skyndilega rankaði ég við mér þegar alda flæddi yfir skóna mína og máfurinn flaug og settist á sjóinn fyrir framan mig þar sem sólin speglaði sig.
Við Matthildur mín sátum í Hafnarnesfjörunni og fylgdumst með austfjarðaþokunni líða fram af grænum grasbakkanum, með máríerlurnar flögrandi í kringum okkur meðan að kollurnar kenndu ungunum sínum að kafa á sjónum fyrir framan. Óðinshani settist í fjöruborðið, snarsnérist á öldunni og tíndi upp í sig þaraflugur. Og kríurnar steyptu sér kneggjandi eftir síli eftir að hafa tekið okkur í sátt.
Ég spurði Matthildi eftir klukkutíma: -eigum við ekki að taka saman, nei bíðum þangað til flæðir yfir skóna: sagði hún. Og áfram sátum við og nú í sólinni á meðan hún strauk okkur blítt um kinn í gegnum þokuna á meðan fyllurnar komu flæðandi inn á lygnuna innan við hafnartangann.
Svona leið tíminn ein klukkustund, tvær og þá allt í einu komst alda það langt að við þurftum að lyfta fótunum. Við tókum saman borðið og stólana settum kaffibrúsann í pokann. Um leið og við höfðum klöngrast upp á bakkann sá ég fyllu flóðs koma fyrir Hafnarnestangann, aldan reis inn með landinu og brotnaði svo á grjótinu í fjörunni undir bakkanum.
Þegar aldan hafði runnið út aftur var ekki svo mikið sem eitt skófar eftir okkur niður á hvíta skeljasandinum. -Þarna vorum við heppin: sagði ég, já heldur betur: sagði Matthildur -Það er ekki víst að við hefðum lifað þetta af. Engin ætti að sleppa því á að hafa setið á milli flóðs og fjöru áður en það verður of seint.
-Nema þá við að vera upptekin eins Matthildur mín. Þegar við keyrðum í þokunni úr Hvaldalnum daginn áður, þar hafði ég lofað henni sól og sumri og stóð við það. En um leið og við komum úr Hvaldalnum og Hvalnesskriðunum í Álftafjörðinn liðum við út í þokuna.
Matthildur þá prjónandi mórauðar buxur á snáðann sem bíður óðþolinmóður eftir því að komast í heiminn sem næsta ömmugull. Ég þurfti að hæga á í þéttum þokubólstri vegna rollu með tvö lömb sem ætluðu sér hálfan veginn.
Þegar ég beygði til hliðar tók lambhrúturinn snögg hliðarspor í sömu átt fyrir framan bílinn og hoppaði hæð sína beint upp í loftið og sló saman fótunum. Hljóp svo hróðugur út fyrir veg. Matthildur hafði litið upp frá tifandi prjónunum og sagði; -sástu þennan töffara, sá var flottur.
Í upphafi síðasta áratugar síðustu aldar gerði Friðrik Þór Friðriksson sína ljúfustu kvikmynd, -Börn náttúrunnar, mynd sem náði þeim árangri að heilla heiminn. Myndin var um gamlingja sem tilheyrðu ekki lengur tíðarandanum og lögðu upp í ferðalag á gömlum Willys jeppa frá fjölmenninu út í náttúruna, -þar sem hjartað slær.
Já ég held að ég haldi áfram í berjamó eitthvað fram á haustið og stefni svo á að setji númerin aftur á gamla Grand Cherokke næsta sumar.
Ferðalög | Breytt 13.1.2024 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)