17.8.2023 | 18:44
Þegar þjóðaskáldin rumska
Bubbi Morthens er með grein í Morgunnblaðinu í dag, undir fyrirsögninni Hernaðurinn gegn tungumálinu. Þar leggur hann íslenskunni lið, enda segir hann að hún eigi það inni hjá sér. Auðvelt er að vera samála Bubba enda er hann eitt af þjóðskáldunum sem hefur hvað oftast hitt í hjartastað með hreinni og tærri íslensku, -ekki ósvipað og Kim Larsen hefur heillað Dani á dönsku.
Ísland er ekki lengur það sem það var þegar ég var ungur. Það er varla til sá blettur lengur á landi voru þar sem ekki má sjá fótspor og rusl. Höfuðborgin Reykjavík er þakin skiltum á ensku. Allir veitingastaðir eru með ensku sem fyrsta mál, matseðlar þar með taldir, og það sem meira er: það talar enginn íslensku á þessum stöðum sumir segja vegna þess að Íslendingar fáist ekki í störfin.
Á þessum orðum hefst Morgunnblaðsgrein Bubba. Hann telur ferðamannavaðalinn eiga sök á hvað íslenskan á orðið undir högg að sækja í eigin landi, -og ekki síður fásinni landans í meðvirkni sinni með græðginni.
"Mér finnst það skipta gríðarlegu máli að við þegjum ekki og séum ekki meðvirk með þessum geysilega hagnaði og velvild íslenska ferðaiðnaðarins og það á um leið við allar hliðargötur sem liggja út af ferðaiðnaðinum sem nýtur góðs af þessu."
Bubbi er líka með ákveðna hernaðartaktík til varnar íslenskunni og vill að yfirvöld taki hana upp á sýna arma: "Það yrði einhvers konar herferð með listamönnum, rithöfundum og skáldum," segir Bubbi.
Ég tek undir hvert orð Bubba. Þó það sé of seint að endurheimta landið og þjóðina sem í því bjó þegar við Bubbi vorum ungir, er eina ráðið til þess að þjóðin sé íslensk sem á Íslandi býr, -að viðahalda tungumálinu, skilningi á sögunni og íslenskum gildum, -öðrum en græðginni sem hefur verið í hávegum höfð alla þessa öld.
Vonandi að þjóðskáld, yfirvöld og vættir landsins leggi íslenskunni lið með Bubba.
![]() |
Við getum snúið vörn í sókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)