Ísland úr EES og NATO burt

Sjálfstæðismenn hafa verið í basli vegna bókunar 35. Helst að skilja að þeir telji nægja að lýsa yfir fullveldi sjálfs sín og málið sé dautt.

Öllum má vera ljóst að núverandi ríkisstjórn, Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks, -hefur fótum troðið fullveldi landsins öll sín ríkisstjórnarár. Bændur og búalið er látið bera skaðann á meðan sendiherradóttirin snýr upp á sig í marvælaráðuneytinu.

Þessir flokkar hafa flutt inn hömlulaust lagabókstafi helsisins í flugvélaförmum frá Brussel, ásamt Úkraínskum kjúklingum. Ófögnuðurinn hefur verið stimpluð svo til möglunarlaust á alþingi og kjúklingarnir merktir sem íslenskt gæðafæði.

Ekki einu sinni áköfustu viðreisnar-kratar hefðu getað látið sig dreyma um annað eins fullveldisframsal, öðruvísi en að ganga eins og úlfvaldar í gegnum ESB nálaraugað með tilheyrandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Gott ef ríkisstjórninni er ekki að takast með flissandi fábjánum og kyssandi Davosdúkkulísum  að koma bæði Íslandi og Úkraínu í ESB, umræðu- og átakalaust sem ófullvalda fórnarpeðum stóru stríðsaflanna.

Og nú þegar NATO er að koma sér fyrir til árása frá íslensku yfirráðasvæði, og greina má kjarnorkusprengjuberandi ameríska váfugla flögra yfir höfuðborginni svo fölsku tennurnar eru farnar að glamra í kaldastríðskumlinu, -er komin tími til að þeir málsmetandi, sem tala hvað fjálglegast um fullveldisframsal hætti hálfvelgjunni, -taki af skarið og bjóði upp á valkostinn Ísland úr EES og NATO burt.


Bloggfærslur 29. ágúst 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband