Ber og Barbie í himnaríki

Brátt fer sumri að halla og hver er að verða síðastur til að bögglast um í berjamó. Nema að týna eigi berin frosin við norðurljósin dansandi á næturhimninum eða þá með vasaljósi. Nú er ekki nema rétt um vika til haustjafndægurs.

Máríerlan fer venjulega um haustjafndægur, en síðasta haust kom hún inn á svalirnar til að kveðja daginn fyrir fyrsta vetrardag, og þótti mér það aldeilis alveg stórmerkilegt. En það segir svo sem ekki annað en hvað haustið í fyrra var gott. Þessi ljúfi sumargestur er árviss og á sér hreiður einhversstaðar í þakskegginu.

Einn máríerlunginn var eitthvað vankaður núna í sumar. Átti það til að fá sér lúr á útidyramottunni, sem er úr flóka strýi, og hefur kannski minnt á hreiðrið. Kom fyrir að hann flaug ekki fyrr en við Matthildur því sem næst klofuðumst yfir hann þegar við komum eða fórum að heiman.

Þess á milli glímdi hann við að veiða flugur með því að flögra við gluggana og þakskeggið, og skimaði eftir þeim af svalahandriðunum þess á milli. Hann er nú orðin það flinkur að ekki þarf að hafa nokkrar áhyggjur af því að hann komist ekki til himna og þess vegna alla leið til V-Afríku til vetursetu.

Annars er það þannig að þegar lækkar sól þá krafsar morgunnkulið í farlama hró, sem reynir að muna eftir að fara ekki af stað út í daginn hjólbeinóttur og skældur, þó svo verki í gömul kaun. Enda fæturnir eins og veðurbarðir girðingastaurar og axlirnar sem stungnar rýtingum, að ógleymdum herðakistli, kviðsliti og gráu höfði fullu af minnisleysi.

Eins og ég hef komið inn á áður, þá er ég orðinn lasburða og lúinn steypukall sem á fullt í fangi með hálfan daginn. Hef samt hlotnast sá heiður að vinna með ungum mönnum, gæti þess vegna verið pabbi allra í múrarahópnum og jafnvel afi einhverra. Þess vegna á ég það til að ganga fram af mér, -og þarf ekki mikið til þó dagurinn sé stuttur.

Þegar sýna á gamla takta innan um unga menn verður maður í það minnsta að muna eftir að rétta úr kútnum og ganga með hnén saman. Það þýðir lítið að ætla að geiflast um hjólbeinóttur, kviðslitin og kúlulaga í keng með ruglandi óráði. Svoleiðis yrði bara ávísun á vantrú.

Ég þyrfti samt ekki að örvænta þó svo ég missti kúlið gagnvart ungu mönnunum. Fyrir skemmstu sá ég mynd af mér í ramma hjá einni prinsessunni. Ömmugullið hafði fundið passamynd af afa gamla og sett hana á efstu hæð í dúkkuhúsið sitt, -á náttborðið í svefnherberginu hennar Barbie.

Þó svo örli aðeins á því að Matthildur mín sé farin að missa trúna á myndar manninum þá höfum við af og til síðustu 6-7 vikurnar verið að bögglast um eins og börn í berjamó, við hjalandi lækjarnið og ljúfan þyt í lyngi. Berjasprettan klikkaði ekki þetta árið og er ýkjulaust þannig að sultu pollur er í hverju spori.

Við skælumst um á gamla Grand Cherokee og höfum farið hærra eftir því sem berin hafa verið klesstari neðra með von um meiri ferskleika efra. Klífum vegg fjallkirkjunnar, á meðan himinbláminn blasir við í gegnum þokubólstra út um framrúðuna. Urð og grjót upp í mót, höfum farið á áður ókannaðar hæðir og séð inn yfir dalinn fagra þar sem lömbin hafa ekki enn þagnað.

Matthildur á það til að segja höstuglega í mesta brattanum; -nú er nóg komið Maggi, -enda 98 oktana bensínlítrinn kominni í 400 kr; -hver heldurðu að sé að þvælast um á svona bensínhák í berjamó hátt upp í fjalli. – Þá segi ég; -svona, svona Matthildur mín, -við skulum ekki vera með neina mæðu núna þegar við erum hvort eð er á leiðinni til himnaríkis.


Bloggfærslur 16. september 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband