13.11.2024 | 19:00
Móðsognir er mestur
Fenja, Menja og Moðsognir eru af ættum dverga og jötna. Þær Fenja og menja voru jötunmeyjar sem möluðu gullið fyrir Fróða í kvörninni Gróttu. Fróði Friðleifsson keypti jötnameyjarnar af Fjölni konungi og lét þær mala gull, frið og sælu.
Fróði gaf ambáttunum ekki lengri hvíld eða svefn en gaukurinn þagði eða hljóð mátti kveða. Jötnameyjarnar kváðu því her að Fróða og var hann drepinn af sækonungnum Mýsingi. Þá lagðist af Fróðafriður.
Já, ég hef verið að glugga í skáldskaparmál, og þar má margt fróðlegt finna sem hefur forspárgildi og getur allt eins átt við daginn í dag. Eins hef ég verið að lesa Völuspá og Gylfaginningu til að komast til einhvers botns í dvergatalinu.
Fræðimenn telja að dvergatalinu hafi verið bætt inn í Völuspá. Því má skilja að það sé einhverskonar bastarður sem ekki eigi beint heima í spánni. En auðvitað getur það verið með þetta eins og gullfiskinn umlukin í vatni, að hann gerir sér ekki grein fyrir því í vatninu lifir hann og hrærist.
Það er fróðlegt að lesa Gylfaginningu ef maður vill vita eitthvað um dvergana vegna þess að þar má finna dvergatal þó nöfnin séu ekki alveg þau sömu og Völuspáin þar ekki alveg eins orðuð.
Báðar; Völuspá og Gylfaginning byrja á að geta fyrst Móðsognis og að hann sé mestur dverga, honum á eftir kemur Durinn. Móðsognir er sá sem móðinn sýgur (orkunni rænir og kjarkinn drepur) það má t.d. sjá í skriffinnsku regluverks dagsins í dag.
þeir mannlíkun
mörg af gerðu
dvergar í jörðu
sem Durinn sagði
Hver er þá þessi Durinn?
Mér ei dúrinn meira hrökk
myrkra flúðu skræður
Hverjum kann ég þegna þökk
þeim sem drauminn ræður (kvað Bólu Hjálmar)
Gylfaginning getur þess að þeir dvergarnir; Austri, Vestri, Suðri og Norðri, -haldi uppi himninum. Og goðin hafi lagt dvergunum til hamar og töng og steðja og þaðan tól öll önnur. Því næst lögðu goðin til hráefnið. Um leið og þau minntust þess ævinlega að dvergarnir hefðu kviknað í moldinni sem maðkar úr holdi jötunsins Ýmis.
Hvað er með ásum?
Hvað er með álfum?
Ymur allur Jötunheimur
æsir eru á þingi
Stynja dvergar
Fyrir steindyrum
veggbergs vísir
Vituð ér enn eða hvað?
Gylfaginning segir til um hvert sé best fyrir mannfólkið að flýja í Ragnarökum. Margar eru þá vistir góðar og margar illar. Best er þá að vera á Gimlé á himni. Og allgott er góðs drykkjar þeim er það þykir gaman, í sal þeim er Brimir heitir. Hann stendur á Ókólni. Sá er góður salur er stendur í Niðafjöllum, gjör af rauða gulli. Sá heitir Sindri. Í þessum sölum skulu byggja góðir menn og siðlátir.
Sindri er sagður dvergur og salurinn Sindri þá væntanlega heitinn eftir honum. Hann er í Niðafjöllum, sem kennd eru við myrkur, kannski nokkurskonar neðanjarðar bunker. Brimir er eitt af nöfnum Ýmis, en úr blóði hans gerðu goðin hafið, og Ókólni er þar sem ekki frýs. Við strendur brimar, svo kannski eru sólarstrendur þangað sem best er að flýja við Ragnarökkur, -t.d. Tene. Ég læt samt lesandanum eftir að geta sér við hvað er átt með Gimlé.
Ps. Þeim sem reynist örðugt að átta sig á dvergum í spánni hennar Völu geta kannski náð einhverjum áttum með því að horfa á Simpsons.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)