Guði sé lof fyrir veturinn

Nú hefur veturinn kvatt samkvæmt dagatalinu, sá kaldasti á öld hamfarahlýnunar. Lóan farin að kveða burt snjóinn, syngja bí, bí og stöku dírren-dí, þó ekki sé komið blómstur í tún, sem enn eru eins og freðmýrar á Egilsstaðanesinu, -og fannhvít þennan morgunninn.

Veturinn var lengi vel kaldur og stilltur, byrjaði um vetrardag og gaf lítið eftir í frosti fyrr en komið var fram undir sumarmál. En þrátt fyrir ekki of marga plúsgráðu daga þá fór lítið fyrir úrkomunni og vindstigum. Því er sennilega enn langt í land með að hinu heilaga loftslagsviðmiði kolefniskirkjunnar verði náð, -viðmiði stillu á veður fyrir aldamótin 1900.

Þórbergur Þórðarson lýsti vetrarveðrum þess tíma í greininni Lifandi kristindómur og ég -í tímaritinu Iðunn, en greinin var svar til ritstjóra tímaritsins Bjarma sem hafði efast um að Þórbergur hefði fengið tilhlýðilega kristilegt uppeldi. Grein Þórbergs hefur því veðurlýsingar að geima, enda hefur veðrið lengi verið vinsælt umræðuefni landans og ná tengt bænum til almættisins

Þórbergi sveið aðdróttanir ritstjórans, -fyrir hönd síns fólks, og varði það með ótal dæmisögum. Þar má m.a. finna veðurlýsingu úr hans Suðursveit og bænahald henni tengdri.

Útsýnið frá æskuheimili mínu er því svipmikið og margbreytilegt. Veðráttan er mild, en næðingar þó nokkuð tíðir. Á vetrum hlaupa stundum á afspyrnufárviðri á útnorðan eða norðaustan, er sogast fram úr fjallaskörðunum eins og fossföll þúsund vatna. Þessi ofviðri verða stundum svo skelfileg, að alt dautt og lifandi ætlar um koll að keyra. Lónið þyrlast í hvítum strókum, hringsnýst með drunum og stormgný í þykkum mökkum svo hátt í loft upp, sem auga eygir. Stóreflis bjálkar þeytast eins og fis óravegu, sílum og öðrum smákvikindum rignir úr loftinu, en húsin hristast og gnötra, svo að hriktir og brakar í hverju tré.

Ef slík fárviðri rekur á að næturþeli, rýkur fólk í dauðans ofboði upp úr rúmunum og reyrir að sér hverja spjör. Síðan hímir hver á sínu fleti og hlustar með óttablandinni andakt á rokhrinurnar, sem bylja á húsþökunum eins og holskeflur í hafróti. Við og við dettur alt í dúnalogn. En áður en minnst varir heyrast sog og drunur í fjarska, og eftir nokkur augnablik ríður beljandi fellibylur yfir baðstofuþakið. Hellan hrynur niður eftir súðinni, en veggir og stafnar leika á reiðiskjálfi. Þá og þegar bíða menn þess með titrandi hryllingi, að næsta rokhrina svipti þakinu af baðstofunni og þeir sitji eftir limlestir á rúmfletunum, kaffærðir af spýtnabraki, freðnum moldarhnausum og helluhruni, Þá er ekki um annað skárra að velja en að fela sál sína Guði og reyna svo að skríða í líkamanum niður í fjósbásana til kúnna.

í slíkum veðrum greip fólk stundum til þess óyndisúrræðis að syngja Veðursálminn, sem svo var nefndur. Það var trúa manna, að þá slotaði ofviðrinu. Ef veðrið keyrði úr öllu hófi fram, var sálmurinn sunginn tvisvar eða þrisvar. Það þótti hrífa betur. Hallgrímur Pétursson hefir ort Veðursálminn eins og margt annað þarflegt, og byrjar hann svona:

Ljúfur með lærisveinum

lausnarinn sté á skip.

Hvirfilvind óvart einum

yfir sló þegar í svip.

Ókyrðist hauður og haf.

Undir áföllum lágu.

Enga mannhjálp því sáu.

En Herrann sjálfur svaf.

Sálmurinn var sunginn með hátíðlegri guðræknisandakt. Og ég hafði fjandi gaman að honum. Einkum fannst mér lýsingin á djöfulóða vitfirringnum kitlandi dularfull. Ég fylltist  draugalegum trúartitringi, þegar þessar hryllilegu, örlagaþrungnu hendingar kváðu við gegnum rokhrinurnar og helluglamrið:

Úr járni og böndum bæði

brotist oft hafði sá

með grimd og ógnaræði,

svo enginn ferðast má

um þann almennings stig,

dvalist í dökkvum heíðum

og dauðra manna leiðum

lemjandi sjálfan sig.

En aldrei var það heyranlegt á baðstofuþekjunni, að andríki ákvæðaskáldsins hefði tiltakanleg áhrif á skoðanir þeirra þar efra.

Kirkjuferðir voru ekki tíðar í Suðursveit. Fólkið var svo auðugt að lifandi, innri guðrækni, að kirkjugöngur hefðu litlu getað bætt við þá fjársjóði. Þegar trúin fjarar úr hjörtunum, fyllast musterin af skemtunarsjúkum áheyrendum. Hér í höfuðstaðnum hefir trúað fólk sementskirkjur í staðinn fyrir helgidóm hjartans, þröngsýna klerka í staðinn fyrir spámenn, síldarplan í staðinn fyrir guðsríki, krossaðan biskup í staðinn fyrir krossfestan Jesú Krist, frjálsa samkeppni, gjaldþrota togaraútgerð og ]ón Þorláksson í staðinn fyrir heilaga þrenningu og heimatrúboð til þess að hafa ofan af fyrir sér og troða upp í vindgöt verðleikanna.

Á öðrum stað í greininni segir Þórbergur: Guðlæknisiðkanir ættingja minna voru sprottnar af trú, fölskvalausri trú, einlægri trúarvissu. Þær voru lifandi kristindómur.

Já er nema von að maður segi; -Guði sé lof fyrir veturinn. En grein Þórbergs birtist í 2. tölublaði Iðunnar 01.04.1929 og hana má lesa hér.


Bloggfærslur 27. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband