21.5.2024 | 19:19
Þegar sunnan vindurinn blæs blíðlega
Vinnufélagi minn benti mér í morgunn á hreindýrahóp hinu megin við þjóðveg eitt, -beint á móti steypuverksmiðjunni, sem við mætum í á morgnanna, og sagði; -það er orðið nokkuð oft sem maður sér hreindýr hérna alveg við þéttbýlið.
Já - sagði ég; -það er orðin einhver breyting á hegðun dýra og fugla frá því sem var. Hefurðu ekki tekið eftir því að gæsirnar eru farnar að halda sig inni í Fellabæ sem þær gerðu ekki áður? - En Fellabær er hans æskustöðvar.
Ég hafði vaknaði að mér fannst við þytinn í vindinum um opnanlega fagið aðfaranótt nýrrar vinnuviku. Hafði samt heyrt einhver torkennileg aukahljóð, sem tilheyrði ekki vindinum, -grunaði trampólínið. Fór fram og fékk mér vatnsglas og svo aftur inn til að sofa, en lá andvaka við þytinn í opnanlega faginu.
Svo lægði vindinn alveg, og hljóð sumarnóttin réði ein ríkum um stund fyrir utan gluggann. Þá heyrði ég aftur þessi torkennilegu hljóð og fór aftur fram. Tappaði nú bæði af mér og bætti á mig vatni. Fór svo fram að stofuglugganum, setti á mig gleraugun og horfði út yfir svalirnar.
Fyrir framan trampólínið spígsporaði spói í kringum tvo stelki, sem voru í ástarleiki í næturhúminu, niðri á grasflötinni. Ég hugsaði, já auðvitað það er komið sumar. Fór svo aftur inn í rúm, lá andvaka og lét hugsanirnar reika, og halda fyrir mér vöku, -bæði fram og aftur í tímann.
Eftir nána íhugun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það hefur ekkert breyst í náttúrunni, það erum við mannfólkið sem erum alltaf að tapa tímanum.
Áður voru píkuskrækir
á balli með Stuðmönnum
eins og skellinaðra
þrusast ég aftur í tímann
Þar sem við strákarnir
glöddust yfir bokkunni
eru nú bara læk í símann
Horfinn heill heimur
eins og Tindavodki
í tóbaksreyk
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)