Steiktar spýtur - saga úr mygluhjallinum

Ég var spurður að því á steypuandaktinni í tíukaffi um miðja vikuna hvort ég væri búin að messa yfir einhverjum vitleysingnum þann morgunninn. Ég sagðist hvorki messa né tala við vitleysinga á morgnanna. Félagarnir ráku þá upp stór augu og sögðu það vera misminni, -hvort ég væri búin að gleyma kaffitímanum frá í gær.

Það fauk reyndar í mig í vikunni, kannski ekki allt í einni hviðu, en vindstyrkurinn fór vaxandi eftir því sem á vikuna leið. Þannig er komið á Íslandi að þeir eru metnir mest sem minnsta ábyrgð bera og minnst gera. Óþekkt er t.d. að þeir sem sitja í nefndum, setja lög, eða gefa út reglugerðir, -beri ábyrgð á afleiðingunum.

-Já, og það er óþarfi að vorkenna Haarde vegna Landsdómsins. Hann fékk uppreist æru bæði með stöðu og aurum. -Nei, það fauk í mig vegna hins vinnandi manns sem er neyddur til þess að vera á rangri hillu í lífinu með reglugerðum.

Ég hafði fengið sérkennilegt símtal daginn fyrir fokið, þar var ég beðinn um að staðfesta rafrænt ábyrgðaryfirlýsingu múrarameistara. Ég kannaðist hvorki við byggingaráformin, sem ég átti að staðfesta, né að ég hefði verið beðin um slíkt. En þannig er að byggingastjóra ber að safna saman meistaraábyrgðum þeirra iðnmeistara sem hann er með á sínum snærum, -ábyrgðum sem ganga út yfir gröf og dauða. Ég hélt að byggingastjórinn hefði hringt, maður sem þekki vel af góðu einu, en hann er eigandi verktakafyrirtækis.

Byggingastjóri kaupir tryggingu sem gildir til 5 ára eftir að bygging hefur verið tekin til lokaúttektar. Framkvæmdaaðili á ekki að vera bæði byggingastjóri og iðnmeistari en verktaki getur lagt til byggingastjóra. Oftast er eitthvert ehf byggingaraðili. Byggingastjórinn getur líka verið kostaður af ehf, en þarf að hafa persónulega staðfestingu regluverksins og tryggingu sem hann kaupir er hjá tryggingafélagi. Byggingastjóratryggingin tekur til tjóns upp að vissu marki, í hana á endanlegur eigandi að geta leitað vegna tjóns komi fram gallar innan tímarammans (5 ár).

Meistaraábyrgð gildir aftur á móti út yfir gröf og dauða og ber að vera á persónulegri kennitölu iðnmeistara. Í reynd gamall draugur frá því að byggingameistarar byggðu og seldu hús út í eigin reikning. Til að farmafylgja þessum draugagangi, nú á tímum byggingastjórans, þarf eftirlit sem framkvæmt er af verkfræðistofum, skoðunarstofum á við Frumherja og svo kölluðum öryggisfulltrúum. Mikið til fólki sem ekki hefur hundsvit á byggingum, en getur farið yfir gátlista um bókhald yfir dagsetningar og gula hjálma, -kallað gæða- og öryggiseftirlit, undir yfirumsjón Mannvirkjastofnunar ríkisins.

Það var samt ekki út af þessu sem fauk í mig þegar leið á vikuna því út af þessum meistara draug hefur svo oft fokið í mig. Draug sem er ættaður úr örófi aldanna, þegar byggingameistarar máttu hanna, byggja og selja hús út í eigin reikning og eðlilegt þótti að þeir ábyrgðust sín verk. Hús eiga meistarar helst ekki byggja í dag, sem slíkir, og geta það ekki samkvæmt reglugerðinni nema með byggingastjóra samþykktan af Mannvirkjastofnun. Nú eru það fjárfestar sem helst geta og eiga að byggja hús, -hanna og selja, með byggingastjórann sem sverð og skjöld úti á mörkinni, -en eftir sem áður út á ævilangar persónulegar ábyrgðir byggingameistara.

Það fauk hins vegar í mig vegna þess að fyrr um vinnufélagi, sem hefur verið frá steypu í 10 ár, eða svo, ákvað að koma aftur í steypuna fyrir skemmstu. Hann tilkynnti mér snemma í vikunni að þetta yrði síðasta vikan okkar saman í steypunni að þessu sinni, -því sem næst nýbyrjaður. Ég hváði og spurði; -hvers vegna? - okkur framkvæmdastjóranum semur ekki um launin; -sagði hann. Síðan tjáði þessi félagi í steypunni mér á hverju steytti og sagði að hann hefði haft betri laun við að afgreiða spýtur og myglugips í Húsasmiðunni.

Ég sagði honum að þetta væru ágætis laun í þessum steypu bransa, sem honum væri boðið upp á, og væru nokkurn vegin á pari við mín. -Og þó svo að hann væri enn á besta aldri þá hefði ég þann djöful að draga að vera með réttindi, sem nýttust fyrirtækinu til verkefnaöflunar, -þó gamall draugur væri. Hann sagðist ekki geta sleppt betri launakjörum – fjölskyldumaðurinn, -þó gaman væri að steypa. Honum stæði til boða að koma aftur í Húsasmiðjuna og afgreiða myglugips og spýtur.

Þetta skyldi meir að segja ég steypukallinn, -og lét talið niður falla. Þegar við strákarnir vorum komnir á verkstað þá hringdi síminn og aftur var farið að impra á því hvort ég ætlaði ekki að ganga frá þessari meistaraábyrgð sem hringt hafði verið út af daginn áður. Í þetta sinn var það ekki sá sem hringdi þá heldur verkfræðingur af stofu í Reykjavík sem ég man ekki lengur hvað e-há-effið heitir.

Ég spurði verkfræðinginn hvernig hann tengdist málinu, hann sagðist vera byggingastjórinn. Ég sagði honum að það væri gott að fá að skýra þennan misskilning út fyrir honum. Því að það væri byggingastjórans að samþykkja iðnmeistara á verk og ég hefði ekki heyrt fyrr en í gær að ég væri múrarameistari á verki hjá fyrirtæki sem ég starfaði ekki hjá. Hann sagði að það skipti engu máli ég þyrfti ekkert að koma að því að vinna verkið bara mæta í úttektir, eða ekki -og hvort sem ég gerði, að með því væri samþykki mitt fengið fyrir að allt sem við kæmi steypu, væri gert samkvæmt bókinni.

Þessi verkfræðistofa í Reykjavík er að selja ákveðna byggingaraðferð fyrir þriðja aðila og framkvæmdin er hafin fyrir hálfu ári síðan, án þess að gengið hafi verið frá byggingaleyfum, en nú væri komið að því að ekki yrði lengur undan vikist, -sagði hann. Ég sagðist ekki taka þátt í svoleiðis ábyrgðayfirlýsingu, enda hefði ég oftar en einu sinni þurft að mæta fyrir dóm og vissi hvað það gæti kostað persónulegar kennitölur, sem ekki mættu, þegar í harðbakkann slægi fyrir dómi, -væri ekki allt samkvæmt verklaginu.

Svo var það þegar við vinnufélagarnir vorum á andaktinni í tíu kaffinu í steypuverksmiðjunni að enn einu sinni var hringt út af þessari múrarameistaraábyrgð. Í þetta sinn var það sá sem hafði sagt að ég tæki það að mér að lýsa yfir ábyrgð, að vísu án þess að bera málið undir mig áður, en eftir áreyðanlegum heimildum þriðja aðila. Verkakafyrirtæki hans og félaga hans, sem fyrstur hringdi í vikunni, myndi sjá um verkið fyrir verkfræðistofuna sem byggingastjórinn vann hjá sem hringt hafði hálftíma áður og þeir hygðust fá fyrirtækið sem ég starfa hjá til að vinna einn ákveðinn verkþátt.

Það var þá sem rokhvessti og ég fauk upp, en kom mér ekki nógu hratt út úr kaffistofunni, -úr heyranda hljóði, áður en ég las þessum koleiga mínum óbóta pistilinn.

Það má segja að það sé orðið fyrir lögnu svo, að þeir blýantanagarar sem skipuleggja bókhaldið í termítahjallinum, en eru ófærir um framkvæmdina, séu búnir að koma exelnum svo snilldarlega fyrir í rotnandi mygluunni með bókhaldið eitt að vopni, að þeir sem geta framkvæmt verkið skuli bera minnst úr bítum, nema þá að þeir séu tilbúnir til að afgreiða  myglugips, -meðan pappakassarnir á stofunum, sem möndla keysið, -fleyta rjómann.

Það styttist sem betur fer óðum í að ég setjist á helgan steyptan stein og tálgi spýtur, -en ekki hef ég geð í mér til að afgreiða þær úr Húsasmiðjunni, -þó svo að hún borgi betur.


Bloggfærslur 6. júlí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband