Eftirlits-þjóðfélagið og torkennileg skítseyði

Nú er migið á báða lófa og fiskað í gruggugum ólgusjó. Verkalýðsforustan og stjórnmálamenn, auk alls málsmetandi fólks ofbýður mansalsiðnaðurinn og þjóðinni er jafnvel nóg boðið.

En er það nú alveg svo? -vill einhver viðurkenna að þetta sé samfélagslegs eðlis? -þjóðinni sé nákvæmlega sama á meðan hún á fyrir okurvöxtunum, fær greiningar um kulnun á kaupi og fer í sína Tene túra?

Það virðist hið besta mál að flutt sé inn erlent vinnuafl á mansalslaunum svo lengi sem einhver hirðir ekki alveg allan mismuninn, alla vega ekki það sem á að fara í eftirlitið. Enda gengur þetta þjóðfélag víst ekki upp öðruvísi í praxís, -ekki frekar en Sameinuðu Arabísku furstadæmin.

Samfélag sem er hætt að nenna að þrifa skítinn eftir sjálft sig og það heima hjá sér, -fær til þess erlent vinnuafl. Þjóðfélag sem telur sig upptekið við allt annað og uppbyggilegra, -ef ekki reglugerða eftirlit, þá á Tene eða í hvíldar kulnun.

Já ég er gnafinn og gneiptur þessa dagana. Í vikunni sá ég af ungum vinnufélaga til Noregs. Gullmoli sem kom 17 ára til að verða steypukall eins og afi sinn, mér var falin umsjáin af vinnuveitandanum. Við vorum búnir að vera vinnufélagar í fimm ár.

Svo verð ég að segja það alveg eins og er að ég stalst til að horfa á marg-mærðan mansalsþátt Kveiks í tölvunni, -eftir allt umtalið. En á fréttir í sjónvarpi hef ég ekki haft geð í mér til að horfa á í ártugi, nánast ekki síðan þjóðarsáttin kvað uppmælingaaðalinn í kútinn.

Já það er ánægt slektið yfir verðbólgnum virðisaukanum af flækingunum, sem skilar sér alla leið í ríkissjóð, þó svo að það kunni að hneykslast á réttum stöðum, -og tala um að lausnin sé meiri peninga í vel launað eftirlitið.

Vinnufélagarnir eru á því að gullmolinn skili sér heim aftur þegar fram líða stundir, -reynslunni ríkari. Ég var búin að segja yfirmönnum að ungir menn væru mestu verðmæti fyrirtækis. En allt kom fyrir ekki, þeir sögðu kærustuna ráða för.

Ég þekki Norðmenn af því að kunna betur að meta steypukalla en kulnandi þjóðin á klakanum, og er því ekkert sérstaklega bjartsýnni á að afburða steypukall snúi heim frekar en þúsundir iðnaðarmanna sem yfirgáfu landið bláa í hinu svo kallaða hruni.

Nú verð ég gamli steypukallinn að treysta á Rúmenana, en þeim langar til að eiga heima heima hjá sér án þess að hafa efni á því frekar en steypukallar og skúringakonur almennt.

Já ég kvaddi ungan vinnufélaga minn í vikunni, daginn sem hann tók bátinn, og sagði honum að hann yrði ekki í vandræðum með að fá að vinna við steypu í Noregi.

Þar þyrfti hann ekki annað en sýna sig. Ég gæti svo sagt honum það að skilanaði, -af fenginni fimm ára reynslu, að hann væri með þeim albestu vinnufélögum sem ég hefði unnið með í steypunni.


Bloggfærslur 28. september 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband