Dulsýnir

Við Fjörð í Seyðisfirði fannst sumarið 2021 kumlateygur með bátskumli, -sumarið eftir þrír víkingaskálar, sá elsti frá því um lok landnámsaldar, allt vel varðveitt undir skriðu sem féll á 10. öld. Þessi fornleifafundur staðfestir hve Íslendingasögur, þjóðsögur og munnmæli geta farið með nákvæmt mál.

Mér áskotnaðist bókin Dulsýnir fyrir skemmstu, þar sem Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari segir frá persónulegri reynslu sinni í því efni. Bókin eru tvö hefti í einu bandi og merkileg að því leiti að þessar sagnir eru ekki í þjóðsaganafni hans, sem telur 12 bindi, -og því fágætur fróðleikur.

Þjóðsögur og sagnaþættir eru ritaðar heimildir sem gefa færi á að ferðast aftur í tímann. En samt er því þannig farið, að ef þannig heimildir eru ekki studdar opinberum gögnum eru þær taldar óstaðfestar flökkusögur eða jafnvel hindurvitni.

Hér á þessari síðu hefur ótæpilega veri vitnað í Íslending- og þjóðsögur sem haldgóðar heimildir. Og virðist nú vera að fornleifauppgreftir staðfesti hvað eftir annað þær sem heimildir. Má nefna að bæði á Stöð í Stöðvarfirði og í Firði á Seyðisfirði hafa fundist einhverjir ríkulegustu uppgreftir á hér á landi.

Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari safnaði aragrúa flökkusagna, munnmæla sem hann setti í samhengi í sögum sínum. Því hefur oft verið haldið fram að það hafi ekki verið til þau hindurvitni sem ekki var hægt að ljúga að honum og hann skráði ekki í þjóðsagnasafn sitt.

Reyndar orðaði Sigfús það oftar þannig að hann ástundaði þjóðfræði frekar en þjóðsagnasöfnun, og er safn hans einstakt að því leiti að hann safnaði sínum sögum á mjög svo persónulegan hátt, að líkja má við ímyndanir og notaðist þá m.a. við Íslendingasögurnar til innsæis, -og eru fræði hans því stundum dæmd eftir því.

Í landnámu segir svo um Landnám Seyðisfjarðar.

Loðmundur hinn gamli hét maður, en annar Bjólfur, fóstbróðir hans; þeir fóru til Íslands af Vors af Þulunesi. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnugur. Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu, sem þær ræki á land. En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu, og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þennan vetur.

Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma, og fylgdi henni heiman öll hin nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Ísólfur hét sonur Bjólfs, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir. (Landnámabók-Sturlubók)

Ekki getur Landnáma né þekktar Íslendinga sögur þess hvar í Seyðisfirði Bjólfur bjó. Sigfús safnaði á sinni ævi miklu af munnmælum um landnám á Austurlandi, og hafði þessi munnmæli Þjóðsagnasafni sínu. Þessi munnmæli frá Seyðisfirði eru í VI bindi segir m.a.svo; Frá Seyðfirðingum.

Bjólfur er heygður í fjallsbrúninni sunnan í tindinum (Bjólfi), upp af Firði, beint á móti Sölva (Ísólfi) í Sölvabotnum, hinumegin sveitarinnar. Það eigi meira en hitt að varna því að hlaupið geti á Fjörð eða ræningjar ræni Seyðisfjörð, sem þeir gera aldrei á meðan haugar þeirra eru órofnir.

Ýmsir af frændum, vinum og venslamönnum Bjólfs byggðu suðurströnd Seyðisfjarðar og bæi þá sem síðan eru við þá kenndir. Hánefur byggði Hánefsstaði og Sörli bróðir hans Sörlastaði. Kolur byggði Kolstaði og Selur segja menn vera bróðir hans og byggði Selstaði. (En aðrir menn segja að sú jörð dragi nafn af því að hún væri selstöð).

Sigfús gefur talsverðar upplýsingar um uppruna Seyðfirðinga í þjóðsagana safni sínu og kemur þar fram að Seyðisfjörður byggðist seint á landnámsöld.

Eins eru það munnmæli að til hafi verið til forna þáttur af Seyðfirðingum sem nú er tapaður eins og margar aðrar sögur. Hafa reyndar sögur þær er hér ræðir um á undan verið ritaðar í seinni tíð eftir örnefnasögum og öðrum munnmælum.” Síðan er haldið áfram að skýra örnefni með munnmælum sem þeim fylgja.

Sú sögn fylgir munnmælum þessum að fjörðurinn byggðist seinna en Héraðið og sveitirnar í kring og fyndi smali nokkur þar marga sauði útigengna og héti fjörðurinn því Sauðafjörður. Og enn er sagt að þar áður seiðmenn (sjá Loðmundar þátt). Þriðju segja nafnið dregið af seiðum. (Þjóðs SS VI bindi)

Munnmæli þjóðsagna virðist fornleifauppgröfturinn í Firði á Seyðisfirði nú staðfesta.

Sigfús er einnig með þátt af Loðmundi í safni sínu, sem hvergi er annarstaðlar að finna, þar er eftirfarandi um nafn Seyðisfjarðar.

Eyvindur hét maður er út hafði komið með Brynjólfi hinum gamla er nam Fljótsdal. Hann var óeirinn og göldróttur mjög. Er við hann kenndur Eyvindardalur því þar hafðist hann við. En síðan flutti hann í Seyðisfjörð og voru þeir átján saman, allir fjölkunnugir og seiðmenn miklir. En er Bjólfur nam fjörðinn færðu þeir byggð sína í Mjóafjörð og námu hann; bjó Eyvindur síðan í Firði (Mjóafirði) fyrir innan fjaðrabotn. Þeir fóstbræður (Bjólfur og Loðmundur) nefndu fjörðinn eftir þeim Eyvindi og heitir hann því Seyðisfjörður. (Þjóðs SS VI bindi)

Sigfús safnaði örnefna- og munnmælasögum á Seyðisfirði árum saman, enda dvaldi hann þar langdvölum þegar hann setti saman sitt þjóðsaganasafn, sem er einstakt á íslenska vísu að því leiti að hann lifði sig inn í staðhætti og munnmæli með því að dvelja þar sem hann safnaði sögum.

Sigfús segir munnmælin segja að til hafi verið ritaður sagna þáttur af Seyðfirðingum sem tapast hafi. Eins er ekki er ólíklegt að munnmælin hafi að einhverju leiti geymt þær Íslendingasögur sem hægt væri að staðfesta sem haldgóðar heimildir með seinni tíma rannsóknum.

Vitað er að til var í handriti Íslendingasaga fram á 19. öld sem kallaðist Jökuldæla og má ætla að í fornaldar þjóðsögum Sigfúsar sé mikið af munnmælum ættuðum úr þeirri glötuðu bók. Síðustu síðurnar af Jökuldælu eru sagðar hafa glatast í höfninni í Glasgow á tímum Vesturfaranna.

Þegar ég las Dulsýnir Sigfúsar áttaði ég mig betur á því hvernig var umhorfs í mínu nánasta umhverfi fyrir u.þ.b. einni öld síðan. Fyrir utan eldhúsgluggann sé ég niður á Eyvindarána sem kemur niður á Egilsstaðanesið ofan úr Eyvindarárdal (áður Eyvindardal) en þann dal sé ég út um stofugluggann. Ég sé einnig til Uppsala og leiðina yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar út um gluggana.

Bær Gróu á Eyvindará stóð í túninu á hinum bakkanum. Hún var frænku þeirra Droplaugarsona, sú sem lét sækja þá bræður Helga og Grím í valinn upp á Eyvindardal þar sem þeir voru vegnir ásamt fleirum í bardaga við Kálfshól. Um lágnættið eftir að þeir voru sóttir, fór hún yfir þar sem Egilsstaðanesið er nú og vestur fyrir fljót, þar sem Lagarfljótsbrúin er nú, til Álfgerðar læknis á Ekkjufelli, þar sem golfvöllurinn í Fellabæ er nú, -þegar í ljós koma að lífsmark var með Grími. Þetta sögusvið sé ég allt saman rétt fyrir utan eldhúsgluggann.

Í Dulsýnum segir Sigfús frá því þegar hann lá þungt haldin og hálfrænulaus af veikindum uppi á lofti í nýju baðstofunni á Eyvindará, en þar var hann til heimilis um tíma. Þegar hann var kominn á bataveg og hafði fengið rænu þá dreymir hann að hann eigi orðastað við mann um norrænuna og hvort hún sé töluð eins og í fornöld. Sigfús þóttist vita betur og tók dæmi:

Ég þekki þá vel vísu úr Hávamálum í Eddu til að reyna að bera fram, sem næst því, er ég þóttist ímynda mér, að fornmenn hefðu gert. Svo byrja ég hikandi.

Ósnotr maðr

hyggr sér alla vera

viðhlæjendr vini

þá þat hann finnr

er at þingi kömr

at hann á formælendr fáa

Mér flaug í hug, að hefðu nú fornmenn frá sögu öldinni heyrt til mín, þá hefði þeim þótt ærið ábótavant, sem von var. En í sama bili kemur upp á loftið ókennd kona. En hún sjálf dró alla athygli mína að sér.

Hún var lítil vexti, en mikilúðleg og höfðingleg; og fríðleikur hennar og vaxtarfegurð hreif mig, þegar hún gekk inn gólfið með tignarsvip og góðvild-blandið vandlætingarbros á ásýndinni. Ég vissi undir eins, að þetta var ríka Gróa, sem kölluð var, föður- eða móðir-systir Droplaugarsona, sem sögur þeirra segja frá.

Ég þóttist sjá, að hún væri komin til þess að gefa mér vingjarnlegar, en minnisstæða áminningu, þarfa bendingu um það, að þótt mér tækist furðanlega, mætti ég eigi ætla mér þá dul að gera það óaðfinnanlega.

Hún kvað nú vísuna inn gólfið nokkuð öðruvísi, en ég hafði heyrt áður gert, en þó svo, að ég skildi hvert orð. En eigi treysti ég mér til að ná henni að hljóði, svo nærri lagi verði.

Það helsta sem ég man af afbrigðunum var það, að hún kvað þannig að: Þá þat finnr, er at þingi komr, at hann á formælendr fá-a. Enda atkvæðið fannst mér alltaf sem slitnaði frá. Síðan leit hún við mér aðvarandi og hvarf.

Þegar ég athugaði lýsinguna í sögunum á Gróu á eftir, sá ég, að henni bar saman við það, sem mér sýndist. Og af því margt bendir á, að andar geti vitrast mönnum, væri eigi óhugsandi, að hún hefði birst mér þarna í eigin mynd. (Dulsýnir bls 57)

Gróu á Eyvindará er svo getið í Austfirðingasögum.

Þess er getið eitt sumar að skip kom af hafi í Reyðarfjörð. Kona ein réð fyrir skipinu sú er Gróa hét. Hún var systir Droplaugar, mjög rík að fé. Fór hún af því út hingað að bóndi hennar hafði andast og þá seldi hún lendur sínar og keypti skip og ætlaði að finna móður sína. Droplaug ríður til skips og býður systur sinni til sín og það þiggur hún. Og þennan vetur er Gróa er þar voru sveinarnir Helgi og Grímur heima og var Gróa vel til þeirra. Ástúðugt var með þessum frændum. Fundu menn það að hvorri þeirra systra var yndi að annarri. (Fljótsdæla saga)

Gróa á Eyvindará er sögð í Droplaugarsonasögu systir Þorvaldar Þiðrandasonar, en í Fljótsdælasögu systir Droplaugar konu hans og kemur óvænt á skipi sínu til Íslands, þá á besta aldri búin að missa mann sinn og kaupir Eyvindará að undirlægi Droplaugar systur sinnar samkvæmt Fljótsdælasögu, rífur skip sitt og notar í húsviði á Eyvindará.

Hún var kvenna minnst en afbragðlega sjáleg, greyp í skapi og skörungur mikill og forvitra. Svo mikill fégróður hljóp að Gróu að Eyvindará að nálega þóttu tvö höfuð á hverju kvikindi. Menn fóru úr ýmsum héruðum og báðu Gróu og hnekkti hún öllum frá og kvaðst svo misst hafa bónda síns að hún ætlaði öngvan mann að eiga síðan. (Fljótsdæla saga)

Það sem er svo heillandi við svona skrif eins og koma fram í Íslendingasögum, þjóðsögum og sagnaþáttum, á við Dulsýnir, er ekki bara hvernig er hægt að ferðast um tímann í gegnum þannig skrif, heldur ekki síður hvernig þjóðsögurnar raungerst sem staðreyndir. Það er nefnilega staðreynd að eftir að rafmagnið kom til með upplýsingu sína þá hvarf nútímamönnum heill heimur af öndum, draugum og álfum.

 

Fjær- og gegn-sýn (sögn úr Dulsýnum Sigfúsar sem lýsir hvernig var umhorfs fyrir utan gluggann minn fyrir 130 árum síðan)

Þá kemur að því einkennilegasta sem fyrir mig hefur borið.

Sem áður er sagt, var ég hér og þar í kaupavinnu sumarið sem ég kom norðan frá Möðruvöllum. En um veturinn var ég húskennari Bjarna Siggeirssonar á Fjarðaröldu, er þá stýrði norsku versluninni, Jóhansens. Sumarið eftir var ég kaupamaður hjá Páli skáldi Ólafssyni að Hallfreðarstöðum. 1893 fékk ég heimili að Eyvindará í Eiðaþinghá og hafði það þar síðan nokkur ár, en stundaði þar kennslu á vetrum og þjóðfræðasöfnun, en var í kaupavinnu þess á milli.

Vegghleðslur, jarðarbætur, heyvinna, einkum teigslættir, voru aðal störf mín.

Það var fyrsta eða annan vetur minn að Eyvindará, að Þorvaldur Jónsson, bræðrungur Eyjólfs bankastjóra og Stefáns konsúls Th, á Seyðisfirði, fékk mig til að segja til börnum sínum, Sigríði og Jóni. Þorvaldur bjó að Uppsölum ofar frá Eyvindará, og byggt upphaflega úr aðaljörðinni. Stefanía hét kona hans og var af Hellisfjarðarætt, ættingi minn og margra Austfirðinga.

Þorvaldur var dugnaðar- og myndarmaður mikill og búmaður. Hann byggði nýja baðstofu á Uppsölum, tvö stafgólf undir porti og sneri frá norðvestri til suðausturs. Sitt rúm var á hverju gólfi við vesturhlið, og sinn gluggi yfir hvoru, vel stórir.

Svaf húsfreyja í norðara rúminu. En í rúminu fyrir aftan það svaf vinnukonan, Sesselja Stefánsdóttir (frá Strönd) og Sigríður dóttir hjónanna. Við norðurgaflinn á móti rúmi húsfreyju svaf bóndi og ég hjá honum. Þar aftan við í austurhorninu var uppgangan í loftið. Var baðstofa þessi bjart og snoturt hús og þægileg heimkynni fyrir þær 6 persónur er hér voru nú. Borð var við stafninn á milli hjónarúmanna og tók nærri breiddina.

Eftir að ég hætti kennslu, var fátt að skemmta sér við. Engar nýjar bækur og rými lítið. Notaði ég þá tímann til að ná mér í sagnir og sögur. Gat ég fengið útileguævintýri hjá Þorvaldi, og undi mér vel við það.

Eitt kveld er og verður mér svo minnisstætt, að ég gleymi því aldrei, svo var það fagurt. Himininn heiður og blár, svo hvergi sá ský, þéttstirni og tungl í fyllingu á suðvesturlofti. Himinhvelfingin var þá dýrleg sjón, svo fegurri getur ei, það var bjart sem um hádag, þegar búið var að slökkva ljósið.

Mér vildi það til þetta kvöld, að ég sofnaði út frá útilegumannasögu, er bóndi sagði mér. En það bar sjaldan til. En ekki er ég fyrr sofnaður, en maður sá að Selstöðum í Seyðisfirði, er ég gat um áður, að mislíkaði við mig, og ég vissi að ól þykkju til mín, snaraðist upp á loftið og að rúminu.

Hann var með heiftarsvip, og gerði sig líklegan til að ráða á mig og segir um leið og hann hrifsar til mín: “Nú skal ég launa þér lambið gráa”! Ég þóttist slá af mér handbragð hans og segja: “Hví lætur þú svona maður? Láttu okkur vera sátta”! Viltu ekki heldur eiga gott við mig en illt?”

Engu þótti mér hann svara þessu, heldur búast til nýrrar árásar. Bjóst ég því einnig til varnar og þykist segja: “Það er vísast, að fari eins og fyrr, að þú ábatist lítið á því að kjósa alltaf að eiga við mig illt eitt”. Brá mér þá hart við og vaknaði og þóttist sjá á eftir manninum ofan, þegar hann hrökk frá mér. En það áleit ég eðlilega afleiðingu draumsins.

Nú var talsverð geðsóró í mér. Vissi ég það fyrir víst, að ég mundi eigi sofna fyrri hluta nætur. Ég gerði það aldrei, ef ég vaknaði hvatskeytlega nýsofnaður. Ég varð hálfleiður yfir því að þurfa nú að vaka. En það var þó bót í máli, að bjart var í baðstofunni, sem um hádag, því tunglið skein beint á gluggann og stjörnurnar margar. Ég hugsaði þá með mér: það er annars ómögulegt að láta sér leiðast svona dásamlega nótt. Þessi birta og kyrrð fyllti hugann friði og ánægju.

Fer ég þá að skemmta mér við, að horfa út um gluggann og íhuga það, sem þar var að sjá. En þá bregður undarlega við, því allt í einu finnst mér helst, sem öllu þakinu sé flett af baðstofunni, og ég sé nú himinhvelfinguna jafnvel yfir mér, sem út um gluggann.

Mér varð kynlega við og datt í hug, að ég væri að verða truflaður. Barði ég hnefanum upp í súðina yfir mér til að reyna að reka þessa vitleysu úr hugsun minni. En þessi undarlega sýn hvarf eigi að heldur, heldur ágerðist nú að því leyti, að sjónhringur minn víkkaði, og ég fór að sjá langar leiðir í brott.

“Ég er þó eins vakandi og ég get orðið”, hugsa ég. En eitthvað var ég nú líkur því, sem ég var, þegar ég sá hana Grýlu, sem sagt var frá áður. (Dulsýnarsaga af týndri meri í Loðmundarfirði, sem mikið var búið að leita að og Sigfús sá fyrir sér hvar væri þegar hann var spurður)

Nú þóttist ég sjá norður í Þingeyjarsýslur. En það man ég, að sjónin smá óglöggvaðist eftir því sem fjarlægðin óx. Í Vopnafirði sá ég það, sem ég vissi, að var, og ennfremur það, sem ég vissi eigi, hvort var rétt séð. Út að Héraðsflóa og ofan um Austfjörðu alt í Norðfjörð þóttist ég sjá. Sumt vissi ég, að var rétt séð. Annað gat ég ekki vitað um. Mér varð starsýnt um Seyðisfjörð, en man eigi eftir að ég þættist sjá þar annað en það, sem vissi, að var rétt.

Þá hvarflaði hugskotssjón mín upp á Fjarðarheiði. Sé ég þá, hvar norður þjóðveginn, á svonefndu Kötluhrauni á miðri heiðinni, kemur vera í kvenmannsmynd vel meðalstærðar. Hún var klædd karlmannsslopp yst fata, og var eigi í hægri ermi, svo hún flaksaði. Ég tók strax eftir því, að hún bar eigi til fætur, heldur leið áfram jöfnum hraða og bar undrafljótt áfram sem þokukúfur færi.

“Hvað ætli þetta sé”, hugsa ég. Þá finnst mér helst, sem hvíslað sé að mér alvarlega: “Þarna kemur það sem þér var heitið”. Hvað var þetta? Var það þetta, sem átti að launa lambið gráa? Það fór hrollkaldur geigur um mig. Þetta átti þá að hefna. Það var eigi sem viðfelldnast að eiga að fást við svona fyrir þann, sem lítið vissi og fátt kunni í fornum fræðum.

Mér varð eigi vel við. En þá er eins og fögur og blíð rödd hvísli að mér: “Það getur ekki verið ofurefli þitt að fást við það, sem hann hefir getað ráðið yfir!” Jafnamt þessu fannst mér leggja um mig eins og hlýjan andblæ og unaðsblandið aðstreymi, er ég fæ eigi lýst. Þetta allt hafði þau áhrif, að ég fylltist óbiluðu hugrekki, að ég hefi aldrei eignast slíka sigurvissu í nokkrum vandræðum. Ég fann það nú, að það studdi mig einhver góður og styrkti.

Það var nú aðeins leikur fyrir mig að taka á móti sendingunni, sem var á leiðinni til mín. Ég sá henni miða fljótt yfir heiðina, af veginum austan við norðurbrúnina, ofan fjallið, yfir Uppsaladal svo nefndan, og heim á hlaðið. Heyrði jafnframt því, sem ég sé, að hún lýkur upp bæjarhurðinni, og svo skellur hurðin í göngunum. Svo kemur hún upp og inn að borðinu, snýr sér þegar að mér og glottir háðslega við mér.

Það glott er mér all-minnistætt. Ég var undir það búin að stökkva ofan á gólfið, ef þyrfti. Ég hvessti á hana augun og spurði: “Hver ertu?” Ekkert svar “Hvert ætlarðu?” Steinhljóð. Þagði ég þá í nokkur augnablik og var að hugsa um, hvort ég ætti að tala til húsfreyju, er ég vissi að var vakandi. En ég sló því af. Lét ég hverja spurninguna fara af annarri, en allt til einskis.

Svo fór ég að særa hana og mana. En það hafði sama að segja. Loks bjóst ég til að stökkva ofan og beita handalögmáli, og segi um leið heldur harkalega. “Ef þú ert komin að finna mig, verðurðu að þora að mæla”. Enn, er ekkert svar kom, segi ég: “Farðu til andskotans!” Þú ert dáðlaus, hvort sem er”. Við þetta orð brá henni svo, að hún hljóp fram gólfið og ofan, og hefi ég eigi séð hana síðan.

Nú var öll gegnsýni horfin mér. Fór ég þá að athuga alt, sem fyrir mig hafði borðið. “Ætli öll fjærsýnin og heyrnin og áhrifin hafi verið draumkennd sýn?” hugsa ég. “Það eitt aðeins veruleiki, að þessi vera kom hér inn. “Og hvaða kvenvera ætli það hafi verið?” þannig hugsaði ég.

Ég ávarpa húsfreyjuna og segi: “Hvaða mannvera var þetta, sem kom hér inn?” – “Maður?” tók hún upp. “Heldur þú að þetta hafi verið maður? Nei það þetta var enginn maður; það var allt annað”. “Þú hefur séð það sem inn kom”, sagði ég. “Já ég held nú það. Það má sjá minna grand í mat sínum. Ég sá hana, þegar hún kom upp og allan þann tíma, sem hún var hérna á milli okkar”.

Lét ég Stefaníu lýsa henni fyrir mér, og munaði lýsing hennar í engu, frá því er mér hafði sýnst. Hafði Stefaníu liðið mjög illa, meðan á þessu stóð. Við töluðum um þetta um morguninn. Sagðist þá Sesselía, vinnukonan, hafa vaknað við seinustu orðin, er ég hafði sagt, og séð veruna, þegar hún fór fram gólfið og ofan.

Hvað var nú þetta? – Við sáum það þrjú. Mér kom í hug að fá þær konurnar til að þegja yfir þessu, og halda því leyndu, en það fórst fyrir, og ávæningur komst þegar á loft um atburðinn. Þó hefi ég helst eigi viljað segja söguna nema þeim einum, er færu skynsamlega með hana.

Nú eru Uppsalahjónin dáin fyrir nokkru. En börn þeirra eru bæði á lífi. Þau sváfu þegar þetta skeði. Sesselía hefir verið til þessa vinnukona á Völlum. Og margir munu muna það, að þeir heyrðu það helsta af þessu, þegar það gerðist. Síðan þetta kom fyrir mig, heyrði ég fátt það sagt af þessu tagi, er ég get eigi trúað, að hafi gerst. Það má hver maður lá mér, sem vill.

Maðurinn sem mig dreymdi hefur verið á lífi til skamms tíma. Ef ég reyndi að skýra þennan  viðburð fyrir mér, vil ég helst hugsa, að maðurinn hafi verið ertur upp á mér daginn áður og æstur. Hin sterka hugsun hans hafi svo kallað fram með vilja eða án vitundar, einhverja dulda og eigi góða veru og stefnt að mér.

En góðar verur, sem oss munu nærstæðar og hjálpfúsar, þegar vér viljum og ástundum gott, hafa aðvarað mig og veitt mér styrk með hugskeytum, og síðan búið mig undir með fjarsýninni, svo mér yrði sigurinn vís.

Hefði þessi atburður eigi komið fyrir mig og verið skorað á mig að birta hann, þá hefði ég aldrei ritað þennan þátt, sem ég hef nú byrjað á.


Bloggfærslur 5. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband