8.10.2025 | 05:44
Himnaríki í hauslitunum
Í síðustu viku datt ég óvænt í djúpan þanka um árstíðir og hvar mörk upphafs og endis lægju á hinni eilífu hringrás. Þetta gerðist aldeilis óvænt og óumbeðið á einu augnabliki rétt fyrir hádegi.
Ég var einn að keyra Tjarnarbrautina í sólinni á milli íþróttahússins og menntaskólans, og vottaði fyrir lítilsháttar uppgufun frá götunni eftir skúri næturinnar, - líkust tíbrá.
Við vinnufélagarnir höfðum lokið við að flota gólf um morgunninn. Félagarnir voru allir mun yngri en ég, sá sem fyrir fór 23 ára, tveir innan við 20 og Rúmeni um 35 ára aldurinn.
Sá 23 ára, sem fyrir fór, hafði talið að 4 nægðu til verksins, en ég vildi hafa Rúmenann með því þeir yngstu hefðu ekki unnið með flotdælu áður, -og fékk að ráða.
Ég varð einungis að vera með því ég hafði ökuskýrteini af gömlu cocoa puffs gerðinni, þegar allt kom upp úr sama pakkanum, -áður en var farið gefa út bílpróf á hvern bíl fyrir sig.
Þarna á Tjarnarbrautinni í kassabílnum skaust upp í hugann, að fyrir 47 árum síðan byrjaði ég á samning við steypuna í menntaskólabyggingunni og lauk honum hinu megin við götuna í íþróttahúsinu með sveinsprófi.
Þegar ég keyrði aðeins lengra þá röðuðu 20 m háar aspir sér sitthvoru megin við Tjarnarbrautina og laufinu rigndi í haustlitun í tíbrána á meðan sólin skein skært við enda gullnu trjáganganna.
Gæsahópur flaug oddaflug vestan við sólina og síðan fyrir hana, -hvarf í blossa rétt eins og fuglinn Fönix, en komu svo endurnýjaðar í ljós austan við sól og flaug áfram sunnan við mána.
Búin að setja framrúðu sólskyggnið niður í kassabílnum vegna ofbirtu, sá ég uppljómaðar, -á gangstéttinni, tvær ungar mæður koma á móti mér með sitthvorn barnavagninn í haustblíðunni, og rigningu af laufvindi ljúfum.
Ég beygði af með tárin í augunum inn á Selásinn, keyrði fram hjá húsi ömmu og afa. Þar sem við ungu mennirnir, -í vikunni áður, -steyptum stærsta bílaplanið í bænum, sem nær alla leið inn fyrir þvottasnúrurnar hennar ömmu.
Frændi minn og fjölskylda hafa búið í, -og átt húsið, síðasta aldarfjórðunginn eða allt frá því nafni minn og afi skildi við rétt fyrir aldamótin.
Í dagrenningu um morguninn, sem við steyptum planið, fór ég óvenju blíðlega með bænirnar mínar. Síðan hef ég dáðst að bílaplaninu hvern dag sem ég keyri fram hjá, -og kominn á þá skoðun að það sé flottasta planið í bænum.
Í leiðslu velti ég því fyrir mér fram hjá sjúkrahúsinu og sigurholunni, niður að Bónus, og út allt Egilsstaðanes, -hvort ég hefði farið í gegnum gullna hliðið og væri nú staddur í himnaríki. -Og ef ekki, -hvernig ég gæti komist að hvort væri.
Þessu velti ég fyrir mér í meðvitundarleysi með sólina á vangann í suðri á meðan svartir rúllubaggar liðu hjá með löngum skuggum í norðri, -og þeim sem innihalda hálminn af nýskorna gullna kornakrinum á gömlu flugbrautinni lengst úti á nesi.
Þegar ég hafði farið norður fyrir Lagarfljótsbrúna, sem skipti bæði hreppum og sýslum þegar ég fékk mitt sveinspróf, -kominn upp Brúarlandið og sá vestur í steypufabrikkuna, þá rann upp fyrir mér svarið ljóslifandi.
-Ég var enn hérna megin, þó ég hefði rétt áður verið báðu megin við Fljótið. Því í himnaríki væri ég laus við skrokkskjóður og suð fyrir eyrunum, -væri hvorki orkulaus né lafmóður á leiðinni heim úr steypu um miðjan dag, -heldur fullur orku við að steypa út í eitt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 05:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)