16.2.2025 | 05:09
Fjórir Jónar og jafnmargar Margrétar
Öldin sautjánda hefur hér á landi verið kölluð brennuöldin eða öld galdrafárs, en ætti kannski með réttu að vera kölluð sjóræningjaöldin. Hér á eftir fer örstutt æviágrip fjögurra Jóna þessu til undirstrikunar og í lífi eins þeirra koma við sögu fjórar Margrétar. Allir tengdust þessir Jónar með einum eða öðrum hætti og áttu sitt blómaskeið á fyrri hluta 17. aldar.
Í júnímánuði árið 1614 kom til Vestmannaeyja stórt vígbúið sjóræningjaskip undir stjórn tveggja Englendinga. Sjóræningjarnir settust upp í Heimaey, rændu þar og rupluðu. Meðal þess sem þeir stálu var kirkjuklukkan í Landakirkju.
Skipstjóri sjóræningjaskipsins hefur verið kallaður hér á landi Jón Gentlemann, en hét í raun James Gentleman og var hér í ránsleiðangri ásamt félaga sínum William Clark. Sumar sagnir segja að sjóræningjar þessir hafi komið við í Papey og jafnvel á Djúpavogi.
Séra Jón Halldórsson prestur í Hítardal segir svo frá ráninu í Biskupssögum: -voru Vestmanneyjar rændar- Anno 1614 af þeim eingelska sjóreyfara Jóni Gentelmann, hver með sínum reyfaraflokki gekk um eyjarnar í hálfan mánuð, sem settu knífa og sverð sín á hálsa og barka þeim íslensku og stuttar byssur fyrir þeirra brjóst með spotti og skellihlátri, drápu þó hvorki né særðu nokkurn mann né smánuðu ærlegt kvenfólk, en ræntu og rupluðu öllu.sem þeir vildu nýta, en skemmdu og fordjörfuðu það þeir vildu ekki. Þeir tóku burt þá stóru Landakirkjuklukku. En þá Jón kom fram til Einglands var hann tekinn og drepinn með sínum selskap. Bókstafir, sem steyptir voru á klukkunni, hermdu frá hverri kirkju á Íslandi hún var tekin, var hún þremur árum síðar send aftur til Vestmannaeyja eftir skipun Jacobs kongs á Einglandi.
Örlög Jóns og Williams urðu þau, að nokkru síðar voru þeir teknir höndum í Englandi, dregnir fyrir dóm og hengdir, meðal annars fyrir ránið í Vestmannaeyjum. Danakonungur hafði skrifað Jakob 1. Englandskonungi kvörtunarbréf vegna ránanna. Eyjamenn endurheimtu því kirkjuklukkuna, en áletrunin á klukkunni sannaði hvaðan hún var.
Samkvæmt kvæði séra Jóns Þorsteinssonar sóknarprests í Eyjum voru ensku sjóræningjarnir þar í 28 daga. Hélt séra Jón því fram að Vistmanneyingar hefðu kallað ránið yfir sig sjálfir með óguðlegu líferni, -og orti bæði kvæði um atburðina og það sem ætti eftir að koma yfir Eyjamenn ef þeir bættu ekki ráð sitt.
Spá séra Jóns Þorsteinssonar átti heldur betur eftir að rætast, 13 árum seinna, 1627 rændu Tyrkir Vestamanneyjar og drápu þá séra Jón ásamt fjölda fólks. Eftir það var hann kallaður Jón Píslarvottur, var hann sagður hafa liðið píslarvættisdauða, og er hann eini sannlegi píslarvotturinn á Íslandi.
Þegar sjóræningjar óðu um Vestmannaeyjar í Tyrkjaráninu faldi séra Jón sig ásamt fjölskyldu og heimilisfólki í Rauðhelli, skammt frá Kirkjubæ, en ræningjarnir urðu þeirra varir vegna þess að gamall karl, sem var heimilismaður Jóns, var svo forvitin um framferði Tyrkja að þeir sáu til hans utan við hellinn.
Þeir komu þangað og fundu fólkið, en tvær konur höfðu falið sig í sprungu þar nærri og ræningjarnir sáu þær ekki, en þær fylgdust með því sem gerðist. Þær sögðu að séra Jón hefði gengið á móti ræningjunum, sem hefðu höggvið hann þrisvar í höfuðið en hann mælti guðsorð við hvert högg.
Hjó þá fordæðan þriðja höggið. Þá sagði presturinn: -Það er nóg, herra Jesú! meðtak þú minn anda. Hafði hann þá í sundur klofið hans höfuð. Lét hann svo líf sitt, -segir í Tyrkjaránssögu. Frásögnin er með nokkrum ólíkindablæ, en hetjuleg framganga séra Jóns Þorsteinssonar hefur vafalaust stuðlaði að því að hann fékk píslarvottsnafnbótina.
Kona séra Jóns Píslavotts, Margrét Jónsdóttir, var flutt til Algeirsborgar ásamt tveimur börnum þeirra, Margréti og Jóni yngra, og voru þau seld þar á þrælamarkaði. Prestfrúin dó innan fárra ára, dóttirin Margrét var seld spænskum eða frönskum kaupmanni sem giftist henni síðar.
Á Miðjarðarhafi tíðkaðist að nota galeiður sem voru með fábreyttan seglabúnað svo treysta þurfti á árar. Mikill markaður var því fyrir þræla undir árar galeiðnanna. Nánast eina úrræðið fyrir þræla var að snúast til Íslam vildu þeir betra hlutskipti. Að vera galeiðuþræll var það versta af öllu, þeir voru hlekkjaðir berir undir árar, keyrðir áfram með svipu og gátu verið við róðra klukkustundum saman. Brauði var dýft í súpu eða vín og því slengt í andlitið á þeim með skafti svo ekki yrði hlé á róðrinum. Þegar þeir gáfust upp var gengið úr skugga um að þeir væri dauðir og þeim hent í sjóinn.
Jón, sonur séra Jóns og Margrétar, var 15 ára þegar honum var rænt. Hann kastaði fljótlega trúnni, gerðist Múslimi og komst til þeirra metorða í Barbaríinu að verða sjóræningi á Miðjarðarhafi. Hann tók upp nafnið Vestamann og var eftir það kallaður Jón Vestmann.
Jón Vestmann kom sér vel í Barbaríinu. Fyrst í stað virðist hann samt hafa búið við harðan kost, það má ráða af bréfi sem Grindvíkingurinn Jón Jónsson, skrifaði til foreldra sinna á Íslandi árið 1630. Þar segir Jón svo um nafna sinn Vestmann: - ég skrifaði fyrir Jón son síra Jóns heitins Þorsteinssonar um hans sálugu móður í guði sofnaða til hans bræðra og lögmannsins herra Gísla Hákonarsonar, því hans ógnarlegi patron leið honum eigi að skrifa langort bréf.
Jón Vestmann hefur vafalaust verið reyndur af því hvort hann væri heill í hinni nýju trú. Hann hefur auðsýnilega staðist prófið, því hann komst til álits og fékk mannaforráð. Í Algeirsborg var á þessum tímum mikil velmegun og auður, en það breytti samt ekki því að þræll var ávalt þræll þó svo að hann gengist Íslam á hönd og efnaðist.
Sjóræningjar, sem höfðu aðsetur í Algeirsborg, stunduðu rán á siglingarleiðum til kristinna landa við Miðjarðarhafið og rændu einnig við strendur Vestur Evrópu. Jón Vestmann varð brátt í miklu áliti og varð foringi eða skipstjóri á ránsferðum um Miðjarðarhafið.
Jón Vestmann ól þá von í brjósti að hann slyppi úr Barbaríinu og kæmist aftur á heimaslóðir. Eitt sinn skipulagði hann flótta ásamt Norskum skipstjóra, sem eins var komið fyrir, hugðust þeir komast til Danmerkur, en það komst upp um þá og þeir máttu þola harðræði í kjölfarið.
Jón Vestamann vann sér smá saman aftur traust Tyrkja og hóf á ný sjórán á Miðjaðarhafi. Í eitt sinn féll hann í hendur óvinarins og stóð þá til að hengja hann. Þá bar að Spánverja, sem komst að því að Jón var norrænn maður í ánauð, og fékk Spánverjinn hann lausan undan hengingunni.
Jón Vestmann hóf ferðina heim, kom við í Marseille og hitti systur sína, en þar bjó þá Margrét. þaðan hélt hann til Kaupmannahafnar. Hann ílentist í Kaupmannahöfn og var þar mikils metinn þrátt fyrir menntunarleysi, þótti bæði reyndur og sigldur.
Jón Vestmann kom til Danmerkur árið 1645, 18 árum eftir að honum var rænt og hann seldur á þrælamarkaði. Hann er sagður hafa kennt Dönum að smíða hjólbörur, en þesskonar tækniundri hafði hann kynnst í þrældómi Barbarísins. Eins var hann skipaður af konungi til að gera sjókort vegna siglingareynslu sinnar
Það varð snöggt um Jón Vestmann hann lærbrotnaði í Kaupmannahöfn veturinn 1649, fékk sýkingu í brotið og dó í kjölfarið 37 ára gamall, og komst því aldrei aftur heim. Hann var gefin saman við danska konu á sjúkrabeði, sem hét Margrét. Seinna sama ár fæddi hún dóttir þeirra sem einnig var skírð Margrét.
Einn af þekktustu menntamönnum Danmerkur þessa tíma, Ole Worm, sagði í bréfi til Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti, sem ritað er 10. maí 1649: -Vér höfum misst landa yðar Jón Vestmann, vissulega frábæran mann að gáfum og margskonar þekkingu. Ég harma lát hans næsta mjög, því að hann var náinn vinur minn.
Á úthöfunum þurfti öflugri skip en galeiður, sem treysta þurftu á árar, -og til sjórána á Atlantshafi. Þess vegna og þóttu góðir skipstjórnarmenn á úthafskipin vera frá norður- og vestur Evrópu
Sumarið 1615, ári eftir að Jón Gentleman gerði sig heimakominn í Vestmanneyjum, sigldi Jón Ólafsson, -ungur Vestfirðingur, með ensku skipi til Englands og þaðan lá leið hans til Kaupmannahafnar. þar sem hann gerðist fallbyssuskytta á herskipum Kristjáns IV Danakonungs.
Auk þess að starfa við lífvörð konungs lá leið Jóns fljótlega norður til Svalbarða. Árið 1622 sigldi hann með kaupskipi suður fyrir Afríku, og upp Indlandshaf til Ceylon, -sem nú heitir Srí Lanka. Síðar dvaldist hann í dönsku nýlendunni Tranquebar á Indlandi.
Í september árið 1624 slasaðist Jón illa við sprengingu í fallbyssu, -var hann 30 ára. Þá var hann fluttur til Danmerkur og kom til Kaupmannahafnar um sumarið ári seinna, eftir hrakninga og vetursetu í Írlandi. Hann kom svo til Íslands aftur árið 1626 og settist að í Álftafirði við Ísafjarðardjúp, sinni gömlu heima sveit. Seinna réði hann sig um tíma til að sjá um varnir Vestmanneyja.
Jón skrifaði reisubók sína á alþýðumáli lausu við guðsorðastagl og útúrdúra menntamanna þessa tíma. Bókin kom fyrst út á Íslandi á 20. öldinni. Hann var hér á landi kallaður Indíafari, enda lengi vel eini Íslendingurinn sem hafði komið til Indlands svo vitað væri.
Jón Indíafari var góður sögumaður og eru lýsingar hans á mannlífi Kaupmannahafnar og siðum framandi þjóða skemmtilegar. Reisubókin þykir einstæð heimild um mannlíf og herþjónustu í danska flotanum á 17. öld. Útdrátt úr henni hefur mátt finna sem kennsluefni barna og unglinga í dönskum skólum.
Hægt er að staðfesta frásagnir Jóns Indíafara með samtímaheimildum, auk þess sem í sjóræningjasögum hans er hægt að finna samsvörun enn þann dag í dag, líkt og er við flóann á milli Sómalíu og Jemen á hafsvæði Húta: -Eitt eyland, liggjandi í því Rauða hafi, kallast Zocotora og heyrir til Afríka. Það með lyktar hér um meira að tala. Út af því Rauða hafi koma þrátt í veg fyrir Indíafara nokkur smáskip og skútur, sem kallast barkar, hver skip þeir taka með harðri hendi og alla vöru. Á þeim eru egypskir og arabískir menn. Sumum sleppa þeir tómhentum, en suma aflífa þeir, sem morðingjar og sjóreyfarar. Þar fá þeir oftlega mikið herfang, og nær svo ber við, að þessi smáskip koma út af þeim Rauða sjó í móti þeim, en á vorri leið skeði það ei, og ei komum vér við nokkur lönd, fyrr en við komum að Ceylon.
Jón Indíafari kom við sögu í Tyrkjaráninu sumarið 1627. Þegar Murat Reis, sá sem rændi Grindavík, sigldi fyrir Reykjanes eftir rán í Grindavík, þá er talið að hann hafi ætlað að ráðast á Bessataði, höfuðvígi landsins, þá hafði verið hlaðið í flýti með skreiðapökkum á milli fallbyssa, einungis til þess að sýndist vera virki.
En Holgeir hirðstjóri konungs, sem sat á Bessastöðum, hafði haft spurnir af sjóráninu í Grindavík. Þá var Jón Indíafari nýkominn að vestan í Bessataði með bréf frá Ara sýslumanni í Ögri og gaf ráð við varnirnar. Því þar var kominn fallbyssuskytta úr sjóher konungs á ögurstund og maður sem var vanur hernaði. Þó svo að varnirnar á Bessatöðum væru aumar, virkuðu þær.
Svo fór, hvort sem það var Jón Indíafara að þakka, eða það var einhver annar sem sá um fallbyssuskotin, sem beint var að skipum Murat, að hann hörfaði frá. Þar sem það var lágsjávað þá tók stærra skipið niðri á Lönguskerjum. Holgier hirðstjóri ákvað að aðhafast ekki frekar og fór Morat skipstjóri vestur með landi þegar skipið losnaði, áður en hann tók kúrsinn til Salé í Marokkó.
Þeir sjóræningjar sem kallaðir voru Tyrkir voru ekki eiginlegir Tyrkir eins og við köllum þá í dag. Skip þeirra komu frá N-Afríku og voru að talsverðu leiti mönnuð sjómönnum frá V-Evrópu. Tyrkjanafnið kom til vegna þess skipin áttu heimahafnir innan Ottómanveldisins, -með Soldán sitjandi í Istanbúl, og var því kallað Tyrkjaveldi.
Sumarið 1627 var mesta sjóræningjasumar sem sögur fara af í Íslandssögunni. Tveir sjóræningjaleiðangrar komu frá N-Afríku, annar frá Salé í Marokkó og hinn frá Algeirsborg í Alsír. Sjóræningjaleiðangurinn frá Marokkó rændi Grindavík og reyndi við Bessastaði. Sá frá Alsír rændi í nágreni Djúpavogs og í Vestmannaeyjum. Alls var um 400 manns rænt og fólkið selt á þrælamörkuðum N-Afríku. Talið er að um 50 hafi verið drepnir í sjóránunum.
Skipstjórar sjóræningjaleiðangranna voru tveir og báðir kallaðir Murat Rais. Murat er algengt arabískt og tyrkneskt nafn, Rais þýðir skipstjóri. Vitað er að sá Murat sem kom frá Marokkó hét Jan Janson áður en hann tók upp nafnið Murat. Hann ver Hollenskur að uppruna frá Haarlem.
Alsírski Murat var af svipuðum uppruna, til eru heimildir í Alsír um að hann hafi verið kallaðu Murat Flamenco eða Flemming, hans heimaslóðir voru í nágrenni Antwerpen. Sennilega hafa báðir Muratarnir verið undir sömu sök seldir og Jón Vestmann, þeim hafi verið rænt og seldir í þrældóm.
Þó svo að sjóræningjaskipstjórar kæmust í góð efni eftir að hafa snúist til Íslam þá var ekki svo auðvelt að snúa aftur heim, þó svo að hugur og fjárráð stæðu til þess. Til eru heimildir um að sjóræningjaskipstjórar hafi reynt að kaupa sig heim fyrir stórfé og reynt að ná samningum við yfirvöld í heimalöndunum.
Það kemur fram í sögu Jóns Vestmann, að eftir hann kom til Danmerkur lenti hann í vanda þegar upp komst að hann var umskorinn að hætti Múslima. Var farið fram á um tíma að honum yrði hengt stranglega, jafnvel með lífláti. En Jón komst í gegnum þau mál með lipurð og var aftur tekinn í Kristinna manna tölu.
Svo segir frá aðförum Tyrkja við mannránin í Eyjum. -Meðal þeirra voru hjónin Jón Jónsson og Oddný Þorsteinsdóttir. Víkingarnir fundu þau með barn sitt eitt skammt frá bæ, og varð þar hörð viðureign, en ekki löng. Hjuggu þeir höfuðið af Jóni bónda, en misþrymdu konunni, slitu af henni hár og fatnað og drógu hana síðan nær dauða en lífi niður í kaupstaðinn
Heimildir:
Saga Vestmanneyja
Tyrkjaránssaga
Tyrkjaránið / Jón Helgason
Undir Tyrkjans sverði / Jón Gíslason
Karl Smári Hreinsson
Adam Nichols
Wikipedia
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)