Konudagatal

Nú er upp komin sú staða á Íslandi, að konur gegna öllum helstu embættum landsins. Þær eru ekki bara uppalendur okkar strákanna, heldur eru þær líka ríkislögreglustjóri, lögreglustjórar í borg og stærstu bæjum, borgar- og bæjarstjórar, biskup, forseti, ráðherrar og foraætisráðherra þríhöfða valkyrjur ríkisstjórnarinnar, þar sem sprengjudúkkur hafa farið fyrir stríðsæsingum þessi árin, -og bara til að nefndu það, -þá verður formaður Sjálfstæðisflokksins kona innan skamms.

Já og vel á minnst tappi er kallkyns, jafnvel þó hann sé áfastur úr plasti. Annars ætlaði ég í dag, sjálfan konudaginn, -ekki að fjargviðrast um kellingavaðalinn, þó svo Íslendingar virðist staðráðnir að fá upp í kok af konum í eitt skipti fyrir öll eftir allan hrútspungafnykinn úr Hádegismóum. -Mér væri kannski nær að gera orð þjóðskáldsins að mínum þegar kemur að stríðsþyrstum konum; -gefðu þeim blóm.

Ég ætlaði að nota þennan pistil í fabúleringar um dagana en ekki staðreyndir um stöðu konunnar nú á dögum. En þar sem konudagurinn er í dag þá er þessi útúrdúr í formála fyrirgefanlegur sérstaklega ef orð skáldsins sem á eftir koma eru höfð í huga. Einnig er nú fyrsti dagur mánaðarins Góu, sem er annar mánuður útmánaða, -á seinni hluta vetrar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu.

Erfitt er að finna eldri heimildir fyrir sérstökum degi konunnar, en frá því upp úr miðri 20. öld, -hvað þá að haldið hafi verið upp á þann dag. En auðvitað er sá dagur samt rökrétt framhald bóndadags, á fyrsta degi Þorra, -og í takt við eftirbátana,  yngissveinadag á fyrsta degi Einmánaðar, og yngismeyjadag, sumardaginn fyrsta, -fyrsta dags Hörpu.

Líklegast er að konudagsblómsala Lionsmanna eigi heiðurinn af því að gera konudaginn að þjóðlegum degi í hugum landans. En sú þjóðrækni kemur í raun frá fjáröflunarsölu Lionsmanna í USA sem þeir ástunduðu fyrir Valentínusardag þar vestra. Sá dagur er í grennd við fyrsta dag Góu og íslenskir Lionsmenn tóku upp eftir bræðrum sínum í Ameríku, að kaupa blóm í heildsölu upp úr miðri 20. öld og ganga í hús til að selja kynbræðrum sínum svo þeir gætu glatt sína heittelskuðu á svokölluðum konudegi, sem þeir vildu náttúrulega meina að væri þjóðlega hefð.

Í mínu smáheimabæ olli þessi blómasala talsverðri úlfúð á sínum tíma, vegna þess að eina blómabúð bæjarins var í eigu konu, og karlar voru ekki að kaupa blóm á hverjum degi í þá daga, enda helst að þau væru keypt á líkkistur. Blómasölukonan taldi sig því sitja sorgmædd með sárt ennið allt í kringum þennan dag vegna uppátækis Lionsmanna, og hennar maður kunni ekki við að kaupa blóm til að gleðja hana við það tækifæri.

Annars er sama hvar í heiminum er, og á hvaða tíma, -þá er eitt sem flest samfélög hafa rambað á, það er að hafa vikudagana sjö, og að lengi getur manneskjan á sig blómum bætt. Kannski er enn merkilegra að dagarnir eiga sér svipaðan uppruna. Eins er það athyglivert að fáar þjóðir hafa gengið lengra í að afmá goðsögur vikudagana og Íslendingar með því að breyta nöfnum þeirra til veraldlegri merkingar.

Biblían segir að Guð hafi skapað heiminn á 6 dögum og hvílst dag af því loknu, þess vegna séu dagar vikunnar sjö. Svo er stundum sagt að fjöldi atriða, sem meðalmaðurinn getur sett á minnið séu sjö, þess vegna hafi dagar vikunnar orðið sjö. Talan sjö er auk þessa frumtala og einungis hægt að deila henni með einum í sig sjálfa, og nöfn vikudaganna eru sjö, eitt fyrir hvern dag.

Hér á landi var nöfnum vikudagana breytt, aðallega fyrir tilverknað Jóns Ögmundssonar biskups. Á 12. öld hlutu flestir íslensku dagana þau nöfn sem notuð eru í dag. Áður voru þeir með svipuðum nöfnum og í nágrannalöndunum eða; Sunnudagur, Mánadagur, Týsdagur, Óðinsdagur, Þórsdagur, Freyjudagur, Lokadagur. Meir að segja var reynt að breyta Sunnudegi í Drottinsdag og Mánadegi í Annadag.

Líklegt er að skipan vikunnar sé gyðingleg og eigi sér uppruna í gamla testamentinu þó svo að vikudagarnir hafi borðið nöfn heiðinna goða. Þetta sést best á því að þó nöfnum daganna sé breytt þá stendur sunnudagur sem fyrsti dagaur vikunnar sé miðað við miðvikudag, -en er orðin að hvíldardegi að Kristnum sið. Gyðingar halda sinn hvíldardag á laugardegi.

Á norðurlöndunum eru nöfn dagana Sondag, Mandag, Tirsdag, Onsdag, Torsdag, Fredag og Lordag, enn þann dag í dag kenndir við nöfn hinna fornu goða nema Sunnudagur og Mánudagur sem kenndir eru við himintungl. Á ensku eru dagarnir kenndir við sömu goð, í sömu röð, nema Lokadagur - Saturday er kenndur við stjörnuna Satúrnus eða rómverska goðið Saturn. Miðvikudagur sem er Wedensday á ensku var t.d. áður skrifaður Wodensday, sem Óðinsdagur.

Uppruni vikudagana um víða veröld er talinn eiga meira sammerkt en að vera sjö talsins og sumstaðar goðsöguleg nöfn, því goðin eru talin hafa haft sína skírskotun til himintunglanna. Það segir sig sjálft að sunnudagur er sólardagur og mánudagur er mánadagur. Vikudagarnir á íslensku hafa flestir tínt sínum upphaflegu goðsögulegu einkennum, auk þess sem aðeins tveir þeirra eigi enn sína stjarnfræðilega tengingar.

Einkenni dagana gætu hafa verið eitthvað á þennan veg í gegnum tíðina:

Sunnudagur til sigurs, er fyrsti dagur vikunnar / Sól, gull = Sunnudagur; uppljómun „hin skínandi“ gyðja uppljómunar, ákvarðanir, leiðandi, afl. Sólin hefur verið tilbeðin um allan heim og goð henni tengd. Ra var t.d. sólguð í fornegypskri goðafræði sem réð yfir himni og jörð. Ra var guð hádegissólarinnar, um tíma höfuðguð trúarbragða Egypta.

Mánudagur til mæðu, er annar dagur vikunnar og fyrsti virki dagur vikunnar / Máni, silfur = Mánadagur; hugur, tilfinningar, hjartnæmi, samhygð. Máninn hefur ekki verið talinn álitlegur til tilbeiðslu í gegnum tíðina. Orðið „Luna“ er Máninn á grísku og rót enska orðsins „lunatic“ sem gæti útlagst hugsjúkur, þýtt beint á íslensku tunglsjúkur. „Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn"(Matth 17:15) 

Þriðjudagur til þrautar, er eins og nafnið gefur til kynna þriðji dagur vikunnar / Mars, járn = Týsdagur; hamingja, velferð, réttlæti, lög, tærleiki, hreysti (hin guðlegu alheimslög)lögmál náttúru. Týr er guð hernaðar, en einnig goð himins og þings. Týr var hugprúðastur og djarfastur allra ása. Stríðsmenn ristu galdrastaf hans á skefti sverða sinna.

Miðvikudagur til moldar, hefur það í nafninu að bera upp á miðja viku / Merkúr, kvikasilfur = Óðinsdagur; vitund skilningur rökhugsun. Óðinn er æðstur goða í norrænni goðafræði, guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Óðinn birtist mönnum sem gamall eineygður förumaður í skikkju og með barðabreiðan hatt, slóttugur og gengur undir mörgum nöfnum.

Fimmtudagur til frama, er fimmti dagur vikunnar / Júpíter, tin = Þórsdagur; kraftur, þekking, viska. Þór er þrumuguð í norrænni goðafræði. Hann er sterkastur allra ása og er mest dýrkaður að fornu og nýju. Himnarnir skulfu er hann reið yfir himinhvolfið og klettar og fjöll brustu við þrumur og eldingar sem fylgdu honum, hamar hans Mjölnir er tákn þrumu og eldinga.

Föstudagur til fjár, er dagur sem skal nota til föstu samkvæmt kaþólskum sið / Venus, kopar = Freyjudagur; ást, sköpun, laðar að fólk. Freyja var gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Valdamikil gyðja, dýrkuð af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar, veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Verandi ástargyðja er hún sögð hafa átt marga ástmenn, var valkyrja sem átti hálfan valinn á móti Óðni.

Laugardagur til lukku, lokadagur vikunnar, / Saturnus, blý = Lokadagur; efnishyggja, völd, veraldarhyggja. Er nú sagður til hreingerninga og var um tíma nefndur þvottadagur. Loki var brögðóttastur allra ása, ekki hafa fundist merki þess að Loki hafi nokkurstaðar verið tilbeðinn eða dýrkaður opinberlega sem goð, enda tákn efnishyggju og undirferlis. Hnötturinn Saturnus er stundum kallaður „hringa drottinn“ tákngervingur bragða, valda og græðgi. Ætla mætti að nafnið Satan væri þaðan komið, en verður samt ósennilegt við það að þessi dagur er hvíldardagur þess drottins sem skapaði jörðina samkvæmt gamla testamentinu.

Það er kannski ekki skrýtið að menn hafi að mestu komist að sömu niðurstöðu um víða veröld hvað eiginleika dagana varðar, með sömu kenndir og sama himinhvolf til að styðjast við, -kennt þriðjudaginn við Mars, miðvikudaginn við Merkúr, fimmtudaginn við Júpíter, föstudaginn við Venus og laugardaginn við Satúrnus auk Sunnu og Mána.

Ef einhver kona lítur hér inn þá óska ég henni til hamingju með alla daga blómalaust, -annað gæti bara valdið misskilningi, enda ekki svo langt síðan að þjóðskáldið gaf tóninn:

 

Ég er fæddur hjá frjálsri þjóð, í ljómandi fallegu landi,

sem laust er við heimskingja, afætur, gula og svarta.

En nú sækir stíft að oss aríum mikill voði og vandi,

þessi vesældarlýður hefur birst hér að betla og kvarta.

Mér finnst ekki rétt þegar heimurinn hagar sér svona.

Hefnd vofir yfir. - Jafnvel forsetinn sjálfur er kona !

Í örvænting minni ég hrópaði á alvaldsins herra:

Hvað get ég gert ! - Svarið það minnti á hnerra.

  

Gefðu þeim blóm.

Gefa þeim blóm!

Já, gefðu þeim blómavönd og rúsínupoka með hnetum.

 

Því miður er fluttur í götuna okkar kornúngt kynvillingsgrey

Karlmönnum, einsog mér, verður illt við það eitt að sjá-ann.

Ég spurð-ann útí búð svo allir heyrðu hvort hann væri hrein mey.

Helvítis auminginn roðnaði og mig langaði langmest að slá-ann.

Hann dillar sér alveinsog graðnaut með grettum og hlær.

Ég greip-ann hér niðrá horni í myrkrinu í gær.

Þegar ég ætlaði að berja-ann duglega og kýl-ann í klessu

Þá kallaði til mín þessi rödd eins og prestur við messu:

 

Gefð-onum blóm.

Gef-onum blóm!

Já, gefð-onum blómavönd og rúsínupoka með hnetum.

 

Ég er ekki með neina fordóma eða fornaldarviðhorf í neinu.

Aðeins frábrugðinn mönnum sem þora ekki að taka af skarið.

Mér finnst það sjálfgefið viðhorf að halda landinu hreinu,

hreinsa burt mannlífssorann svo við föllum ekki í sama farið

og stórþjóðir margar sem vandann vilja ekki sjá.

Slík viðhorf mega aldrei hérlendis fótfestu ná.

En ef maður segir eitthvað gegn þessum múhameðs durtum og dóti

þá drynur þessi rödd fyrir ofan alltaf á móti.

 

Gefðu þeim blóm.

Gefa þeim blóm!

Já, gefðu þeim blómavönd og rúsínupoka með hnetum. (Hörður Torfason)


Bloggfærslur 23. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband