Angurgapi - íslenskur galdrastafur

Ristur á hlemm eða keraldsbotn. Einhver allra rammasti galdrastafur sem til er.

Maður var í Skagafirði sem kallaður var Galdra-Björn. Hann átti illt útistandandi við marga í héraðinu og þóttist ávallt eiga sín í að hefna á þeim með ýmsum gjörningum. Eitt af því var það að hann risti angurgapa á kjaraldshlemm og sendi svo hlemminn á stað til að drepa fénað fyrir fjandmönnum sínum. Hlemmurinn rann á rönd víða um héraðið og drap fé bænda hrönnum saman því hver skepna sem hlemminn sá lá þegar dauð. Hlemmurinn snerist svo snart að ekki varð auga á fest né á hann lesið, en það þóttust kunnáttumenn skilja að ef einhverjum tækist að lesa ristingarnar á honum sem sáust svo óglöggt af því hann snerist svo ótt að þær hlupu í eina hringiðu fyrir auganu, að þá mundi þessu meini af létta. Loksins tókst galdramanni einum út í Fljótum að lesa á hlemminn; féll hann þá um koll og hreyfðist ekki eftir það né vann neinum tjón framar.

 

IMG_3934

Ef ekki væri fyrir Galdraskræðu Skugga væri lítið vitað um útlit angurgapa. Í Þjóðsögum JÁ eru þó myndir af rúnum sem honum tilheyra og lítil mynd af hring með striki í gegnum, sem gæti átt að vera hringlaga hlemmur með priki í gegnum miðjuna.

Þetta leiðir hugann að skopparakringlu sem segir frá í Píslarsögu séra Jóns Magnússonar. En þar segir séra Jón frá Þuríði Jónsdóttir(þá 18 ára) þegar Jón faðir hennar og bróðir voru brenndir á báli fyrir galdur á Skipeyri þann 10. apríl 1656, -þar sem Ísafjaðarflugvöllur er nú. Þeir voru dæmdir á bálið 9. apríl, brenndir 10.apríl og séra Jón fékk hluta Kirkjubóls, heimili fjölskyldu Þuríðar, með dómi í miskabætur þann 11. apríl.

Þuríður á að hafa, samkvæmt því sem séra Jón Magnússon ritaði í Píslarsöguna, - hlegið á brennudaginn með glensi og skrítlyrðum, dinglað fót við stokk og leikið að skopparakringlu, þótt vandalausir menn grétu óhamingju fjölskyldunnar; heyrist að sjálf óvættin hafi frændfræknari fundist, ritar séra Jón: Skessunni Medea er viðbrugðið, þó bar henni nokkuð til síns ræktarleysis.

Á eftir telur séra Jón Magnússon sig hafa orðið fyrir einhverjum rammasta galdri frá Þuríði og skrifaði píslarsögu sína því til sanninda merkis, er hann stóð í málaferlum til að fá Þuríði dæmda á bálið rétt eins og þá feðga. En það tókst honum reyndar ekki.

Það virðist einnig vera búið að glata merkingu orðsins angurgapi ef marka má orðaforða Árnastofnunar. En þar er angurgapi sagður fáráðlingur, örviti, hálfviti og ýmislegt í þeim dúr, þó kemur orðið ofstækismaður einnig fyrir í upptalningunni.

Ef farið er í orðsifjarnar þá er angur; -kvíði, vanlíðan, hugarstríð og fleira þess háttar. Gapi er væntanlega eitthvað sem gapir. -Rætin galdur þótti að reisa níðstöng með gapandi höfði.

Rétt eins og hrosshausinn sem Egill Skallagrímsson reisti á stöng til höfuðs konungshjónunum Eiríki blóðöxi og Gunnhildi í Noregi á sínum tíma, þar sem hann hét á landvættir Noregs að koma því hyski úr landi.

Einnig var til sá ótuktar galdur að reisa  vindgapa á stöng, -gapandi lönguhaus með rúnakefli í kjaftinum, til að gera óveður að mönnum á sjó.

Þannig að ekki er ólíklegt að séra Jón Magnússon hafi talið sig hafa orðið fyrir angurgapa Þuríðar Jónsdóttir þegar hann stóð í því stórræði að rita fleirhundruð blaðsíðna Píslarsögu sína sem sönnunargagn í málaferlum gegn Þuríði.

Píslarsaga séra Jóns Magnússonar þykir með athygliverðari heimildum um fyrri tíma sálarháska.

 

Heimildir:

Galdraskræða Skugga

Þjósögur Jóns Árnasonar

Píslarsaga séra Jóns Magnússonar

Árnastofnun

 


Bloggfærslur 29. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband