Draumur - Brísingamen Freyju

Þennan staf skal rista á surtarbrand með háfshorni þá tungl er þriggja nátta, og láta undir höfuð þitt. Og mun þig þá dreyma það þú vilt.

 IMG_3935

Jón í Vogum átti bæði draummann og draumkonu og dreymdi því oft merkisdrauma. Draumkonan gaf honum ýmis heilræði í svefninum ásamt því að vísa honum á það sem hann hafði glatað eða misst á einhvern hátt.

Meira um draumspeki Jóns í Vogum má lesa í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. En hver var þessi Skuggi sem gaf út Galdraskræðuna sem ótæpilega hefur verið vitnað til í nokkrum undanförnum bloggum?

Skuggi hét Jochum Magnús Eggertsson, var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar. Hann var meðal margs; -skáld, rithöfundur og mjólkurfræðingur. Frægastur er hann sennilega fyrir Brísingamen Freyju, en það setur hann fram kenningar um Krýsa sem bjuggu á suðvestanverðu landinu og höfðu Krýsuvík sem höfuðstað þegar norrænir menn hófu sitt landnám á Íslandi.

Jochum vildi meina að margir íbúar þessarar jarðar lifðu undir örlögum Egypskra skugga. Og við, þessi fámenna þjóð á Íslandi, ættum okkar fornbókmenntir Krýsum að þakka, gullmunnunum sem gáfu okkur tunguna, -guðamálið. Ortu Edduljóðin, Völuspá og Hávamál. 

Í stuttu máli lá leið Krýsa með menningararfinn frá Iona í Gríska Eyjahafinu til eyjarinnar Iona á við Skotland, sem tók nafn sitt þá af eyjunni Grísku, -og þaðan til Krýsuvíkur, -nokkru áður en landnám norrænna manna hófst á Íslandi.

Kolskeggur Iberíasson var menningarviti í Krýsuvík upp úr árinu 1000 og Jón Kjarvalsson þá á Vífilstöðum. Þeir skráðu fyrstir Íslendingasögur á latneskt letur. Jón Kjarvalsson samdi Völuspá og Kokskeggur Hávamál.

Leiðtogar Krýsa voru upp úr siðaskiptunum ofsóttir og drepnir. Kolskeggur var veginn á flótta árið 1054 þar sem nú heitir Kapelluhraun. Reist var Kapella á þeim stað sem fór undir hraun. Kolskeggur fékk svo nafnið Kölski á íslensku,

Krýsar voru miklir athafnamenn, áttu skip sem sigldu til Grænlands og Vínlands, suður til Miðjarðarhafslanda og allt til Nílarósa. Þeir fluttu út íslensk og vesturheims verðmæti, svo sem skinn, rostungs- og náhvalatennur. Innflutningurinn var einnig margvíslegur, má þar nefna úlfvalda.

Gengu stórar úlfvaldalestir undir klyfjum að og frá aðalbækistöð Krýsa, -Gömlu-Krýsuvík, við skreiðarflutninga. Krýsar höfðu eingöngu tveggja kryppuúlfvalda og voru þeir kallaðir “drógir” eða “draugar”, sem var íslenskun á “drómetar”, og er þaðan orðið draugur komið í íslenska tungu.

Nú kann einhver að spyrja hvort Skugga hafi dreymt þetta, -eða kunnað þann galdur að ferðast um tímann.

 

Heimildir:

Galdraskræða

Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Brísingamen Freyju


Bloggfærslur 13. apríl 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband