Gletta

Vilji maður gera óvini sínum glettur þá kasta þessum staf fyrir fætur honum.

 

IMG_3932

Til að gera öðrum glettur eða galdur voru notaðir svo kallaðir galdrastafir, teiknaðar myndir sem galdurinn áttu að tákna. Myndin gat verið útskýrð með rúnaletri, það átti að auka áhrifin. Rúnir voru taldar búa yfir yfirnáttúrulegum krafti allt fram á 17. öld, en á þeirri öld glataðist endanlega þekking á notkun rúna.

Sautjánda öldin er stundum kölluð brennuöldin, en upp úr miðri 17. öldinni hófust einhverjar mestu rétttrúnaðar ofsóknir, sem um er getið hér á landi, -við að útrýma forneskju. Talið er að 21 manneskja hafi verið brennd á báli vegna galdra, -þar af 20 í tveimur hrinum á 25-30 ára tímabili, -20 karlmenn og 1 kona.

Lífshættulegt var að eiga forskrift af rúnum í fórum sínum, eða hafa krassað mynd sem gat verið túlkuð sem galdrastafur, jafnvel þó svo að teikningin væri óviðkomandi galdri. -Myndir Jóns lærða Guðmundssonar eru í dag taldar hafa verið teiknaðar samfara náttúrurannsóknum hans, -Jón lærði var einn af þeim sem mátti þola galdraofsóknir fyrir sérvisku sina og þekkingu.

En hvaðan var orðið galdur upphaflega komið?

Orðið galdur er dregið af sögninni að gala sem þýddi til forna að syngja og var orðið einkum notað um fuglasöng. Merkingin var að syngja, með hárri skærri röddu. Talið er að galdurinn hafi verið galaður eða sungin í fölskum gjallandi skræktón. Talað var um að "gala galdur".

Óðinn var höfuð galdrameistarinn og kvaðst kunna "fimbulljóð". Orðið ljóð er stundum sömu merkingar og galdur, og með ljóðum gátu guðirnir læknað, deyft eggjar, vakið ástir með konum o.s.frv. Óðinn stóð á hærra stigi en aðrir galdramenn, enda hafði hann fórnað miklu fyrir kunnáttu sína og fjölkynngi, látið annað augað og hangið níu nætur á gálga.

Þekking Óðins var fengi að miklu leiti hjá jötnum, andstæðingum guðanna og spákonum og völvum. Hann var rúnameistari, en orðið rún merkir leyndardómur og rúnin hafði í sér fólginn mátt og afl til góðs og ills. Óðinn var nefndur "galdurs faðir".

Seiðurinn var ein tegund galdurs og upphaf hans má rekja til Vana, og er Freyja talin hafa fyrst kennt Ásum seið. Seiðurinn var einkum framin af konum og þótti vafasamt fyrir karlmenn að fremja hann. Óðinn er þó talinn hafa framið seið. Seiðmenn og seiðkonur voru illa séð þótt menn leituðu til þeirra í miklum vanda.

Seiðurinn var galdrinum magnaðri og hann var framinn með því að sjóða ólyfjan og syngja yfir gufunni sem upp af lagði. Söngur sá sem hæfði seið og galdri var langdreginn endurtekning sömu tóna. Í galdralagi voru sömu orðin og setningarnar endurteknar hvað eftir annað. Síendurtekin hrynjandinn hafði þau áhrif að tilheyrendur féllu í stafi.

Hver er svo sannur andans galdur?

Orðlist andans er galdur, -sá galdur er sigrar efnið og opnar alla heima. Með þekkingu orðsins, samfara reynslu þeirri, sem er því samfara að kynnast efnisheiminum og kafa hann til þrautar, nær skáld lífsins því stefnumiði sem því er ætlað, og jafnframt er fögnuður himnaríkis; -að sigra efnið, án eigingirni, til að finna sinn eigin uppruna og sameinast honum í takmarkalausu frelsi.

 

Heimildir:

Galdraskræða Skugga

Galdrar og brennudómar - Sigurlaugur Brynleifsson

Brísingamen Freyju - Jochum M Eggertsson


Bloggfærslur 18. apríl 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband