13.5.2025 | 19:43
Þrjár nafnkunnar konur
Einu sinni fyrir langa löngu var ung stúlka á Sótastöðum frekar en Víðidal, sem átti í vinfengi við karlmann í Möðrudal. Segja sumir, að það væri sjálfur presturinn. Stúlkan hét Guðrún. Hún átti af greindum ástæðum tíðförult í Möðrudal. Í einni slíkri ferð varð hún úti. Fannst lík hennar í skútanum undir klöppinni í Vegaskarðinu. Hefur klöppin borðið nafn stúlkunnar síðan.
Í Víðidalsfjöllum, á leiðinni milli Möðrudals og Víðidals, er skarð, sem nefnist Vegaskarð. Þar kemur fram í skriðunni, í hlíðinni öðru megin skarðsins, klöpp, klofin og skúti inn undir; heitir hún Gunnuklöpp. Um nafn hennar er þessi saga.(Sögn Jóns A Stefánssonar / Þættir úr sögu Möðrudals á Efra-fjalli bls 86)
Einu sinni var ófrískri konu sem Halla hét neitað um gistingu á bæ í Reyðarfirði eystra. Hún fór þá um Oddskarð til Norðfjarðar. En á leiðinni ól hún barnið við stóran stein neðan við tvær brekkur. tók hún af sér fötin til að hlúa að barninu en króknaði þá. Ferðamenn röktu blóðslóðina eftir hana að steininum og fundu hana látna. Barnið dó skömmu síðar. Eftir það heita brekkurnar Blóðbrekkur og steinninn Höllusteinn. (Sigfús Sigfússon. Íslenskar þjóðsögur og sagnir)
Blóðbrekkur eru ofarlega í Oddsdal við gamla veginn niður úr Oddskarði til Norðfjarðar.
Meðfram þjóðveginum rétt utan við Hvítá á hægri hönd þegar farið er inn eftir, er fremur lágt klettabelti. Yst í því er Þuruskúti. Sagan segir að kona, Þura að nafni, hafi orðið þar úti eftir að hafa alið barn í skútanum. Hann hafði verið úthýst í Urðarteigi. (Aðalheimildarmaður þessarar örnefnalýsingar er Lilja Skúladóttir, fædd í Urðarteigi 1932 og þar uppalin og hefur auk þess dvalið þar lengst af. Skrásett af Nönnu Guðmundsdóttir 1973)
Þuruskúti er nefndur svo af því, að þar fannst dáin kona og barn nýfætt, líka dáið. Hafði verið vísað frá Urðarteigi nokkrum kvöldum áður, en þá alveg komin að fjölgun það kvöld. Þetta var í gamladaga og sorglegt mjög. (Bergsveinn Skúlason 1842-1939 bóndi í Urðarteigi)
Þuruskúti er við þjóðveg eitt í sunnanverðum Berufirði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)