16.5.2025 | 14:25
Hrak
Ég segist stundum varla komast yfir götu nú orðið, en þess á milli tala ég um að ganga á fjöll. Það er varla í frásögur færandi en núna í vikunni fór ég upp í Fljótsdal í Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, -keyrandi auðvitað eins og flestra minna ferða.
Fljótsdælingar, -í einu ríkasta sveitarfélag á landsins vegna Kárahnjúkanna, -eru nú komnir með myndavélar á súlustanda a, la ISAVIA til að rukka vegfarendur, ef keyrt er fram hjá þeim að Hengifossi sem er utan þjóðgarðs. -Þeir hyggjast einnig reisa vindmyllur í samstarfi við danska félagið Copenhagen Infrastructure Partners í nágrenni þjóðgarðsins og myndavélanna.
Bílastæði, salerni, göngustígar og allt sem er innan foto zone er gert fyrir almannafé, svokallaða skattpeninga. Nú sitja Fljótsdælingar mest megnis keikir upp til hópa og reikna, -eða þá reita sinu, meðan beðið er eftir pening úr camerunum. -Vini mína í Fljótsdal vantar ekki hyggjuvitið þó margt annað virðist hafa farið úrskeiðis á milli eyrnanna.
Þessi ökuferð mín var 24 stiga heita daginn núna í vikunni, daginn fyrir 26 stiga daginn. Það þurfti að klára smá viðgerð í kjallara Gestastofu hússins. Þegar ég kom var miði við innganginn sem sagði að opnunartíminn væri frá 10 16 límdur við hliðina á vönduðu gluggaskrauti um opnunartíma stofnunarinnar.
Þetta skiptir náttúrulega engu máli því þarna kemur varla hræða til að skoða uppstoppaða hreindýrið meðan má sjá þau lifandi út um bílgluggana eins og vinnufélagi minn er vanur að sega, -og gæsina ekki gleyma henni bæti ég þá vanalega við, já og tófuna segir þá einhver annar. -Þannig að mér gafst tími til að keyra inn að Gunnarshúsi skálds á Klaustri.
Þar lagði ég og labbaði yfir götuna niður á tún til að skoða klausturuppgröftinn, en þangað hafði ég komið áður en þá allur tíminn farið í að finna leiðið hans Jóns Hrak og farist fyrir að rangla um ganga klaustursins sem er talið hafa verið byggt árið 1500.
Þetta klaustur var ekki lengi við lýði því eftir siðaskiptin lokuðu Danir klaustrum á landinu bláa og stálu öllu steini léttara. Svo rækilega var Skriðuklaustur rænt að Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur fann enga silfurmuni fyrir utan eitt lítið Maríulíkneski á Englandi sem hafði verið falið í fjósvegg.
Steinunn komst svo að því seinna að megnið af Íslandssilfrinu, sem klaustrin höfðu verið full af hafði verið flutt til Danmerkur upp úr siðaskiptunum, og telur ekki ólíklegt að Rósenborgarhallar ljónin séu steypt úr bræddu Íslandasilfri. -Varla nema von að valkyrjurnar vilji gera fraukuna Fredriksen að málsvara Íslands þegar skattpeningar eru annars vegar.
Ég ranglaði um klaustrið og kom við hjá Jóni kolleika mínum Hrak áður en ég skakklappaðist laf móður standandi á öndinni upp í móti yfir götuna aftur og upp í bíl til að keyra út í Vatnajökulsþjóðgarðsgestastofuna.
Þar var búið að taka sjálfrennihurðina úr lás en engin samt innandyra, ekki einu sinni í afgreiðslunni, hvað þá á klósettinu og allar skrifstofur tómar. Uppstoppaða hreindýrið var náttúrlega á sínum stað en ég sá hvorki gæsina né tófuna, kannski hefur tófan verið búin að éta gæsina og látið sig hverfa. -Ég endaði á að fara niður í kjallara en þar voru holurnar sem átti eftir að steypa uppí.
Í kjallaranum hitti ég tvær undrandi stúlkur við störf, sem spurðu mig hvort það hefði nokkur verið á ferðinni uppi: -Nei, -sagði ég; -áttuð þið von á því. -Ég kláraði að steypa í holurnar og fann svo stúlkurnar til að kveðja þær þar sem þær voru í sólinni utan við hús að reita sinu.
En um Jón Hrak stendur þetta á standi við legsteininn hans rétt utan við gömlu klausturkirkjuna.
Aðeins einn legsteinn er sýnilegur í kirkjugarðinum. Í hann eru greipt orðin JÓN HRAK. Um Jón þennan eru til sagnir víða um land en það er gömul trú að hann hvíli í kirkjugarði klaustursins á Skriðu. Hann var flækingur og sagt er að hann hafi verið grafin út og suður, öfugt við það sem venja er. Stephan G Stephansson orti fagurt kvæði um Jón Hrak og lét hlaða upp leiðið hans um 1920. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri bætti svo um betur og gaf legstein yfir Jón um miðja síðustu öld. Um Jón Hrak er til þjóðvísa sem margir kunna.
Kalt er við kór bak
kúrir þar Jón Hrak
Ýtar snúa austur og vestur
allir nema Jón Hrak
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)