25.5.2025 | 06:00
Blíðir bláir dagar
Í þar síðustu viku sagði ég á hverjum morgni á kaffistofunni að besta veðrið heiminum væri núna á Íslandi. Kaffistofan samanstendur að mestu af austantjöldum, sem tóku dræmt undir fyrsta daginn, næsta dag með; -já en , , , , -og dagana þar á eftir með þögninni.
Svo var það á föstudeginum að einn Króatinn leit upp úr símanum, rauf þögnina og sagði; -vitið þið að þetta er bara alveg rétt hjá honum ég hef verið að tala heim og það er ekki svona gott verðu þar núna, og hér á Íslandi er búið að vera gott veður frá því í febrúar.
Ég hafði orð á óvenjulegu víðsýni í veðurblíðunni við einn innlendan vinnufélaga vikuna á eftir, -man ekki eftir svona tæru lofti út daginn hvað þá margra tuga kílómetra tærleika tug daga í röð. Sá sagði mér að hann hefði notað einn bláa daginn til að labba upp á Snæfell, -hæsta fjall landsins bláa utan jökla.
Þar upplifði hann að snúa sér í hring og sjá yfir landið með ekki ský á himni í 20 stiga hita og stafalogni, sem ekki bærði hár á hans höfði, -sagðist ekki reikna með að upplifa annað eins á ævinni. Já þeir voru hver örðum einstakari blíðu bláu dagarnir tíu sem innihéldu besta veður í heimi, þó svo að þeir hafi kostað nokkrar sprengitöflur aukalega.
Við Matthildur mín höfum verið að fara á Sólhól af og til í vor til að mála hann að utan, -já einmitt gulan. Hún hélt að það stæði til að ég rellaði í syni okkar með að mála háa stafninn, sem snýr að hafinu, þegar við fluttum útdraganlegan stiga með okkur sem ég fékk lánaðan í vinunni, -standandi upp úr toppnum á Kangoo.
Ég sagði henni að sonur okkar væri engin stigamaður, ég væri aftur á móti gamall og grár stigamaður sem hefði klöngrast upp og niður stiga byggingariðnaðarins allt mitt líf á leið í steypu. Hún studdi tuðandi við stigann meðan ég skakklappaðist upp hann með málningardós og pensil.
-Hvað ef þú dettur niður maður þegar þú ert að teygja þig þarna út á vindskeiðina; -sagði hún. Svona komdu þér frá stiganum manneskja það gæti bara lekið málning á þig ef þú ert að þvælast þarna; -sagði ég. Ef þú dyttir þá lægjum við bæði í valnum og engin til frásagnar; -hélt hún áfram.
Heldurðu virkilega að það væri betra að Siggi dytti sem hefur fyrir litlu Matthildi og fjölskyldu að sjá; -ansaði ég, -svo væri það bara betra þá færum við allavega saman í Valhöll. Þá sá hún náttúrulega að ég hafði lög að mæla sleppti stiganum og fór að á mála.
Það sem verra var að það hljóp í hana kapp. Og þegar hái stafninn, sem snýr að hafinu var búinn, þá vildi hún endilega að við máluðum hinn stafninn sem komin var í sólina og snýr inn í bæ.
Skúrbygging er á honum þannig að það þarf ekki annað en fara með stuttan stiga upp á þak. Ég hafði uppi úrtölur og lallaði svo í sólinni og hitanum niður að sjó sem er neðst í garðinum. Lagðist þar og lét svalandi hafgolu ylja mér um hjartaræturnar.
Matthildur mín kom að vörmu spori og hélt áfram ofvirkniáráttunni. Ég spurði hvort hún ætlaði að drepa okkur bæði, -nei ég átti aðallega að hjálpa henni upp á þak með því að styðja stigann og rétta henni stutta stigann því hún væri svo lofthrædd eftir að ég lokkaði hana út á Landsenda um árið.
Þar sem við höktum rollugöturnar um fjörur og um klettasnaga uppá bjargbrúnir. Matthildur jagaðist þá á hvað svona ferðalag ætti eiginlega að þýða, hvað ég ætlaði svo að gera þegar hún hrapaði fyrir björg. Hvort ég ætlaði þá að hringja í neyðarlínuna og biðja um þyrlu Landhelgisgæslunnar. Svo oft hafði ég fengið að heyra söguna í vitna viðurvist um hvernig hún varð lofthræðslunni að bráð að ég skjögraði upp að Sólhól og reisti upp stigann.
Við kláruðum auðvitað að mála stafninn í sameiningu upp á þaki og skúrinn undir líka, en þá var mér líka öllum lokið. Nóttin fór í að lauma upp í mig sprengitöflum því ekki vildi ég að Matthildur mín hringdi á neyðarlínuna. Undir morgunn fór ég út í úlfgráa morgunnþokuna þar sem í henni bjarmaði af sólarupprás nýs dags.
Úti í þokunni úuðu kollurnar duggandi á sjónum. Morgunndöggin glitraði grasið og vætti á mér tærnar ofan við hleinarnar neðan við kot. Vellandi spói fór með langloku í sólarátt sem gerði þokuna hvíta. Út úr heiðmyrkrinu flugu hvítir mávar inn á bláan himinin langt fyrir ofan gráan hausinn á mér.
Fjallatoppar sigu í ljós upp úr þokunni í geislum morgunnsólarinnar og veiðibjalla gaggaði hátt á lofti sólarupprásinni lof um leið og gneggandi kríur skelltu sér niður að spegilsléttum hafsfletinum. Upp var runninn enn einn dýrðarinnar dagurinn á landinu bláa, og ég tautaði út í andaktina líkt og sálin hans Jóns míns mikið var ég feginn því að lifa þessa nótt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)