Blowin' In The Wind

Þorskhausar Djúpavogi

Það minnast sjálfsagt fáir skrjáfsins í skreiðarhjallinum, þegar sunnan golan blæs blíðlega að sumarlagi, -og þegar þorskhausarnir snérust á bandinu í blíðum blænum, jafnvel heilu golþorskarnir, þar sem þeir héngu til þerris á spírum úti í náttúrunni á meðan þúsund þorskar á færibandinu færðust nær.

Þetta var í þá daga, og ekki er svo langt síðan að þetta mátti sjá í nánast hverju krummaskuð landsins. Þessi verkunar aðferð á fiski hefur verið viðhöfð allt frá landnámi. Síðan hefur Bubbi sungið Ísbjarnarblús, um hana Siggu sem hætti á borði 22 og þegar hann var að spekúlera í að hætta líka ha, ha, hæ. - Já nú er sumar, ég kominn í nokkra vikna frí frá steypunni og nenni ekki að tala um ógæfufólkið við Austurvöll.

Það sama á við í N-Noregi, einkum Lofoten, en þar eru skreiðarhjallarnir samt öllu tilkomumeiri. Skáldið Guðbergur sagði einhvertíma í sjónvarpi að það væri einkenni Íslendinga að skammast sín fyrir það sem hefði gert þeim kleyft í gegnum aldirnar að lifa í þessu landinu. -Og verstu níðyrði sem landinn gætu haft um landann væri að kalla hann þorskhaus eða sauðheimskan. Í Noregi sýndist mér þorskurinn vera kultúr og jafnvel sauðkindin líka. En hér á landi er hún nú orðið kölluð ágangsfé af mútuliðinu sem ástundar hamfarórækt.

Matthildur Moskenes

Í lok 20. aldarinnar var farið að þurrka þorskhausa með jarðvarma á Íslandi, og þeim jafnvel áður keyrt þvers og kruss, -eða jafnvel í hringi um landið. Þannig að eitt af höfuðdjásnum krummaskuðanna, -skreiðarhjallurinn lenti á hverfanda hvel, skömmu eftir að Sigga hætti á borði 22 og gerðist trukkalessa. En á sama tíma gat verið hagkvæmt að reka hausaþurrkun innanhúss jafnvel langt inn í landi hamfaraóræktarinnar s.s. á Laugum og Egilsstöðum.

Síðuhöfundur var svo heppinn að ná að kynnast þessum tímum í mýflugumynd, -að komast bæði í kynni við að seila hausa, hengja upp í hjall, flokka og pakka skreið í striga, auk þess að steyp gólf í jarðvarma þurkkununum. Samt hefur síðuhafa aldrei komið til hugar að starfa við þá gullgerðarlist sem felst í hamfarórækt. Við flokkun og pökkun gat umræðuefnið verið hvort þorskurinn endaði í Nígeríu eða á Ítalíu. Hausinn og ver útlitandi skreið var oftast flokkuð til Nígeríu því sagt var að þar væri soðin fiskisúpu.

Allt frá því þessum stuttu kynnum af skreið hafa skreiðarhjallar heillað, ef þeir eru á annað borð við veginn, sem er orðið mjög sjaldan nú á dögum. Við Matthildur mín keyrðum t.d. fyrsta sunnudag í sumarfríi um hamafaraórækt alla leið inn í Hallormstað, ég við stýrið en hún með lopa á tifandi prjónunum hælandi hamfaraóræktinni, því hún þyrfti ekki lengur að líta af prjónunum út um gluggann þar væri hvort því er ekkert lengur að sjá endilangt Héraðið. Enda útsýnið út um hliðarrúðuna orðið eins og strikamerki, ef ekki heil helvítis Skandinavía.

Skreið Stöddinn 2000

Ég set hérna inn nokkrar af myndunum, sem ég tók eftir að hjallurinn komst á hvervanda hvel, því til hvers að taka þær ef þær eru engum sýndar. Einnig er hér fyrir neðan Business Insider myndbnd um það hvers vegna þurrkaðir þorskhausar eru svo mikil auðlind að jafnvel olíuríkir Norðmenn sjá sér ekki annað fært en að viðhalda gömlum hefðum.

Já en, -ég ætla aldrei, aldrei, aldrei, aldrei meir að vinna í Ísbirninum. Ég ætla með kíló af hassi út í náttúruna og fíla grasið þar sem það grær. -Nú er reyndar meira inn að telja tærnar á sjálfu með coke á Tene.

 

Þorskausar Borgarfirði

Hjallurinn hans Kalla Sveins á Borgarfirði eystra 2014, ég hef grun um að þegar þarna var komið hafi Kalla verið meira umhugað að skreyta fíflana ferðamönnum til yndisauka og halda við gömlu verklagi, en krónur og aurar

 

Skreið 2000

Skreiðarhjallurinn á Stöðvarfirði sumarið 2000. Meðan Stöðvarfjörður var og hét þá urðu hæstu þjóðartekjur á mann á Íslandi til í þeim firði, nú er ekki einu sinni sjoppa á staðnum. Bátarnir streyma samt enn í dag inn og út fjörðinn, enda fiskurinn í fjarðarkjaftinum, en bátarnir eru aðkomnir og landa beint í bíl

 

Moskenes

Sumarið 2012 fórum við Matthildur mín niður Lófótinn og gistum alltaf í Rorbuer(vinsæl gistihús í gömlum verbúðum) og voru komin út á bryggju um leið og við vöknuðum til að rifja upp gamla takta, sem var eitthvað fyrir Matthildi, -sjómannsdóttir og fyrrverandi fiskverkakonu

 

Skreiðarhjallr 2000 

Löngu horfnir hjallar á Stöðvarfirði

 

Skreiðarhjallur Djúpavogi

Horfnir hjallarnir á Djúpavog, mynd frá því seint á síðustu öld

 

Skreiðarhjallur Borgarfirði

Hjallarnir hans Kalla Sveins standa enn, en langt er síðan þar hefur sést til dinglandi þorskhausa

 


Bloggfærslur 10. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband