Síðasti goðinn og allra síðasti Oddverjinn

Til Oddverja er menning Íslendinga rakin, þó stjórnarfarið sé af Sturlungakyni. Þjóðlíf Íslendinga berst alltaf á milli tveggja skauta: Mikillar menningar í bóklegum og verklegum efnum, og ónotandi siðlauss stjórnarfars.

Það er Oddverjaarfurinn og Sturlungaarfurinn, sem ávaxtast í landinu hlið við hlið, og rífur hinn síðarnefndi niður það, sem hinn fyrri byggir upp.

Gæfulaus þjóð lifir í þessu dásamlega fagra og auðuga landi á sterkri menningarlegri rót, og pínist af gæfuleysi út í sárasta umkomuleysi og neyð, sem saga Íslands vottar.

Þetta stendur í Smiðs-sögu Andréssonar á bls 49, -bók Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi. Smiður varð hirðstjóri yfir Íslandi um nokkurra mánaða skeið, -100 árum eftir að  þjóðveldið féll, -og á Smiður að hafa verið norskrar ættar.

Smiður Andrésson hafði tekið landið á leigu til að innheimta skatt fyrri norska kónginn upp á hlut. Áður en hann tók við höfðu verið fjórir hirðstjórar hver með sinn fjórðung, allir íslenskir höfðingjar, -eins og hirðstjórar höfðu verið fram að þeim tíma.

Benedikt Gíslasyni þótti einkennilegt að til greina hefði komið að gera erlendan mann að æðsta umboðsmanni konungs á Íslandi, jafnvel þó svo að hann hafi fljótlega verið drepinn. -Og þá kannski alveg sérstaklega vegna þess hve sagan ber honum illa söguna taldi hann Smið vera Íslending.

Smiður átt að hafa gengið hart fram í skattheimtu, verið svallgjarn og djarfur til kvenna þessa örfáu mánuði sem hann hélt lífi á Íslandi. Grundar-Helga í Eyjafirði á að hafa gert endi á ribbaldahátt Smiðs ásamt Eyfirðingum, með aftöku á honum og liði hans á Grund 8. júlí 1362. Og dráp Smiðs á að hafa verið háðuglegt, þar sem höfuð hans rúllað í mjólkurtrogi Helgu, -samkvæmt þjóðsögunni.

Benedikt trúir varla orði af því sem opinbera sagan segir um Smið Andrésson og leggur margskonar heimildir úr annaálum og bréfum á borðið því til stuðnings. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Jón Smiður Andrésson sé í raun allra síðasti Oddverjinn, sem fór með völd á Íslandi. Nöfn Smiðs, -Jón og Andrésson bendi, meðal margs annars, til Oddverja.

Hverjir voru svo Oddverjar? Þeir voru kenndir við Odda á Rangárvöllum. Þekktasti höfðingi þeirra á Þjóðveldisöld var Jón Loftsson, sonarsonur Sæmundar fróða, en dóttursonur Magnúsar berfætts Noregskonungs. Jón fór fyrir svo kölluðum staðarmálum Íslendinga á Þjóðveldisöld, í upphafi þess að erlent vald, -kaþólska kirkjan, ásældist landsins gæði.

Þannig komst Jón Loftsson að orði þegar hann hafði í fullu tré við páfadóminn úr Róm: Heyra má og erkibiskups boðskap, en ráðin er ég að hafa hann að engu, því ekki held ég að hann viti betur né vilji en ég og mínir foreldrar, Sæmundur hinn fróði og synir hans.

Gissur jarl Þorvaldson á að hafa tekið síðasta Oddverjann af lífi árið 1264, samkvæmt Íslandssögunni, -Þórð Andrésson. En hvað varð svo um Oddverja þessa eðalbornu ætt Íslendinga? Það má með réttu segja að þeir hafi verið komnir í mikinn minnihluta, samkvæmt núgildandi kosningareglum lýðveldisins.

Benedikt leiðir líkum að því að Oddverjar hafi leitað austur á land á náðir síðasta goðans Þorvarðar Þórarinssonar sem átti sitt höfuðból á Hofi í Vopnafirði. Hann var kvæntur Sólveigu Hálfdanardóttir, Sæmundssonar frá Odda.

Þórarinn var síðasti landvarnarmaður Íslands, og lét goðorð sín undir Noregskonung tveimur árum síðar en aðrir íslenskir höfðingjar, ásamt Austfirðingum og Oddverum, allt frá Langanesi í norðri suður um að þjórsá. Þess ber að geta að Íslandssagan lætur lítið með síðasta goðann, getur hans vala, en um hann má fræðast hér og þar í Sturlungasögu og bók Dr Björns Þórðarsonar, -Síðasti goðinn.

Það má öruggt telja að Þorvarður Þórarinsson hefði fengið hærri stall í Íslandssögunni ef ekki væri fyrir Þorgils-sögu skarða, Sturlunga sem átti að gera Ísland að skattlandi Noregskonungs, en Þorvarður tók Þorgils af lífi á Hrafngili í Eyjafirði. Barði Guðmundsson f.v. þjóðskjalavörður telur reyndar Þorvað Þórarinsson vera höfund Njálssögu og hafi notað Odd bróður sinn sem fyrirmynd Gunnars á Hlíðarenda.

Ljóður Þorvarðar var sá að hafði fengið Þorgils skarða Sturlunga í lið með sér við að hefna fyrir dráp Odds bróður síns. Samningur þeirra var sá að Þorvarður myndi ekki setja sig upp á móti því að Þorgils legði undir sig Skagafjörð í því þrotabúi sem þeir Þórður kakali og Gissur jarl höfðu bitist um eftir Haugsnesbardaga. Eftir að hefndin var framgengin krafðist Þorgils Eyjafjarðar einnig, en þá tók Þorvarður þennan samherja sinn í bróðurhefndinni af lífi.

Oddi, bróður Þorvarðar, er einnig lítt haldið á lofti í Íslandssögunni, enda einungis 24 ára þegar hann var drepinn. Ungur aldur breytti ekki því að gegn Oddi var dregin saman stærsti her sem sögur fara af á Íslandi, hátt á annað þúsund manna lið, sem var stefnt til Skagafjarðar þar sem Oddur hafði tekið Hólabiskup í gíslingu. Sturlunga herinn fór þá erindisleysu, en nokkrum mánuðum seinna var Oddur drepin af Eyjólfi ofsa tengdasyni Sturlu Sighvatssonar.

Þeir bræður Þorvarður og Oddur Þórarinssynir voru frá Valþjófstað í Fljótsdal, báðir kvæntir inn í ætt Oddverja. Kona Odds var Randalín Filippusdóttir, dóttir eins Oddabræðra. En Þorvaður var kvæntur Sólveigu sem var dóttir Hálfdans Sæmundssonar á Keldum annars Oddabróðirs og Steinvarar Sighvatsdóttur Sturlungu. Steinvör erfði höfuðbólið Grund eftir Þórð kakala bróðir sinn og fékk Þorvarð tengdason sinn til að gæta arfs síns.

Benedikt telur m.a. útilokað að dráp Smiðs hafi verið gert í þökk Helga á Grund. Smiður Andrésson hafi verið frændi hennar, og sem gestur hefði hann ekki verið tekin af lífi á Grund, hinu forna höfuðbóli Sturlunga, með hennar samþykki. Hún hafi setið á höfuðbóli sem var arfur Steinvarar langömmu hennar, auk þess að vera Oddverji, sem afkomandi þeirra hjóna Hálfdanar og Steinvarar á Keldum. Benedikt vill meina að eiginmaður Helgu hafi aldrei stígið fæti inn á Grund eftir þennan atburð.

Þórður kakali var eitt af stóru nöfnunum á Sturlungaöld, einn af hirðmönnum Noregskonungs sem tekið hafði að sér að gera Ísland að Norskri skattlendu. Hann leitaði til Hálfdans mágs síns á Keldum til að hefna Sighvats föður þeirra og Steinvarar, -Sturlu og þeirra bræðra eftir Örlygstaðabardaga.

Svona segir Sturlungasaga að Steinvör hafi komist að orði þegar Þórður kakali bróðir hennar fór fram á liðveislu Hálfdánar, en hann færðist undan. -Hérna eru búrlyklarnir Hálfdan og skammtaðu fólkinu, en fáðu mér brynhosurnar, svo ég geti veitt lið Þórði bróður mínum.

Benedikt Gílason frá Hofteigi segir í þessu sambandi: - Á Íslandi mátti snúa öllu við á þessum tíma, gera karlmanninn að kvenmanni og kvenmanninn að kalmanni. Þetta er í raun siðspeki tímans, og það sem snýst við, og óhjákvæmilega snýst við, er það, að merkilegasta menningarríki verður skattpínt leppríki útlendra konunga, af þessari pólitík.

 

Ps. ef svo ólíklega vill til að einhver hefur náð að lesa svona langt og er ekki búin að fá nóg. Þá birtist hér pistill á síðunni fyrir nokkrum árum undir fyrirsögninni Síðasti goðinn og bróðir hans, sem má lesa hér.


Bloggfærslur 13. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband