7.8.2025 | 19:36
Baugur Bjólfs
Það er ekki öll steypan eins, sum er skýjum ofar og gæti allt eins talist gjörningur. Fyrir ofan Seyðisfjörð í fjallinu Bjólfi er verið að koma fyrir hringlaga steinsteyptum útsýnispalli sem er 32 m í þvermál.
Þarna fékk ég að styðja sig við stútinn á steypudælunni í dag, -gamli maðurinn, -á meðan ungu mennirnir börðust við steypu sem var að grjót harðna. Baugur Bjólfs er útsýnispallaur í 650 m hæð og mun leikandi rúm 300 manns í einu miðað við flatarmál.
Eftir á að finna út hvernig á að koma öllu þessu fólki á pallinn því hann er því sem næst vegasambandslaus, nema fyrir vel útbúna bíla. Hvort einhverjir aurar verða eftir af þeim mörg hundruð milljónum, sem ætluð eru í herlegheitin, til vegagerðar er seinni tíma vandamál. Enda hver lætur góða hugmynd fara forgörðum vegna smámuna.
Sumir myndu kannski segja að ekki sé öll vitleysan eins, en um verðlauna hugmynd er að ræða samkvæmt vinningstillögu Ástríðar Birnu Árnadóttur og Stefaníu Helgu Pálmarsdóttur frá Arkibygg Arkitektum í samvinnu við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá Esja Architecture og Arnar Björn Björnsson frá Exa Nordic sem sá um burðarvirkjahönnun.
En eins og við steypukallarnir tönglumst stundum á, þá er bæði ódýrara og auðveldara að teikna og reikna hring á blað, en koma 200 tonnum af steinsteypu fyrir hátt í snarbrattri fjallshlíð.
Bjólfur var landnámsmaður Seyðisfjarðar, fjallið nefnt eftir honum og hann heygður í fjallshlíðinni við hringinn. Sagan segir svo um hauginn; að Bjólfur hafi mælt svo fyrir, að eftir sína daga skyldi hann heygður þar sem víðsýni væri hvað best yfir landareign hans og ekki myndu skriður hlaupa á bæinn svo lengi sem hugur hans væri órofinn.
Í nótt svaf ég óvært, hugsaði til Bjólfs, -hvort hann hefði viljað buginn í hauginn. Í morgunnsárið fór ég óvenju blíðlega með bænirnar mínar, enda bæði álagatrúar og lofthræddur. Ekki kom samt til þess að lofthræðslan hrjáði mig því þokan grá var eins og massívur veggur við Baug Bjólfs, þegar fyrsti Steypubíllinn mætti.
Þegar verkið var að verða hálfnað fór þokunni að létta en það kom ekki að sök lofthræðslunnar vegna, því ég var komin með steypu í augun. Og varðandi álögatrúna þá rann á mig hamremmi.
Ég hélt mig þó áfram við stútinn, nema rétt á milli steypubíla, en þá brá ég mér frá, muldi steypuna úr augunum, og tók þessar myndir af vöskum köppum á Baugi Bjólfs.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2025 | 06:14
Formsatriði ekki fullnægt
Þau hafast ýmislegt að innstu koppar í búri slektisins; sá appelsínuguli hyggst smala þingmönnum með lögregluvaldi um hásumar til að geta beitt tímabundnum meirihluta í að breyta kjördæmaskipan með það að markmiði að halda meirihluta lengur.
Lukkupotturinn okkar beitti kjarnorku ákvæðinu til að geta aukið skattlagningu á atvinnurekstur hinna dreifðu byggða langt umfram það sem almennt er, -svokallaða auðlindarentu. Hún kallaði það að reyndar að verja lýðveldið ef mér skjöplast ekki.
Vonda lygin í ESB þarf engar áhyggjur að hafa í lýðræðislegum kosningum, hún situr eftir sem áður, og sankar að sér fjármunum fólks til stríðsrekstrar.
Dolli málari kveikti einfaldlega í þinghúsinu á sínum tíma, sælla minninga, eftir það þurftu nasistar ekki að spá frekar í hvort formsatriði hefði verið fullnægt.
![]() |
Trump hótar að kalla út FBI |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)