Fyrstu kaup

Nú er rætt hvernig hægt verði að lokka fyrstu kaupendur inn á íbúðamarkaðinn. Hefð er fyrir því á landinu bláa að náhirðin japlandi við jötuna maki krókinn á ungu og saklausu fólki þegar þakið yfir höfuðið er annars vegar. Nýjasta nýtt eru svokölluð hlutdeildarlán markaðarins. Í gegnum aldirnar hefur ýmsu verið tjaldað til, -verðtryggingu, vistarbandi, fardrögum og bara nefndu það.

Fyrsta húsið sem ég eignaðist var Ásbyrgi á Djúpavogi. Ég keypti það hús seinnipart sumars 1986, var þá að verða 26 ára. Tildrögin voru þau að kunningi minn hafði flutt frá Djúpavogi og þurfti að losna við húsið sem hann hafði átt í tæp tvö ár.

Ég hafði keypt bíl fyrr um sumarið, þegar við Matthildur mín vorum í okkar fyrstu Reykjavíkurferð saman, -og var ekki ánægður með bílinn. Vildi losna við hann og datt þá í huga að bjóða kunningja mínum bílinn upp í Ásbyrgi, -svona meira í bríaríi. Átti bíllinn að vera tæplega helmingur kaupverðs og það sem umfram var staðgreitt. Kunningi minn tók þessu tilboði, og kom austur um hæl, um helgi, til að ganga frá sölunni.

Strax á mánudegi, eftir helgina, þegar kaupin höfðu verið undirrituð og greiðslan farið fram, þá fékk ég símtal frá fyrri eiganda hússins, þar sem hann spurði út í hvernig hefði farið og hversu mikið ég hefði greitt fyrir húsið. Hann sagði mér að sennilega væri ég búin að tapa bæði bílnum og peningunum vegna þess að hann ætti ennþá eftir að fá húsið greitt. Það væri fjárnám í húsinu og það færi á uppboð innan skamms þar sem hann myndi leysa það til sín.

Kunningi minn hafði haft meðferðis veðbókarvottorð þegar við gengum frá kaupunum og á því kom ekkert fram um fjárnám. Fyrri eigandi sagði það vottorð ekki vera sannleikanum samkvæmt. Ég hringdi í kunningja minn við fyrst tækifæri, því ég vissi að þennan mánudag var hann á ferðinni suður símasambandslaus, og spurði hann út í þetta atriði. Viðurkenndi hann strax að eiga eftir að gera upp við fyrri eiganda en það stæði til um leið og hann kæmi bílnum í verð.

Ég spurði hann hvers vegna í ósköpunum hann hefði framvísað röngu veðbókarvottorði, ég hefði haldið að við værum það góðir vinir að handsalið eitt dygði okkar á milli. Hann sagði að okkar handsal væri tryggara en nokkuð veðbókaravottorð. En hann hefði verið hræddur um að ef ég vissi hvernig í pottinn væri búið þá hefði ég ekki keypt Ásbyrgi og hann þar af leiðandi ekki getað leyst sín mál. Nú hefði hann allt til þess og ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur þess vegna, -fjárnámið yrðu losað af húsinu. -Og það stóð eins og stafur á bók.

Við húsið hafði ég lítið að gera. Við Matthildur bjuggum þá í Sólhól undir þaki pabba hennar og ég var byrjaður á að byggja drauma húsið okkar Tuborg, komin upp með sökkla og gólfplötu. Ásbyrgi hafði verið í leigu fyrir farandverkafólk á meðan kunningi minn átti það en sú leiga fylgdi ekki með í kaupunum. Ég leigði samt húsið út í ár fyrir lítið meira en rafmagni, -en það var mjög illa farið af áratuga viðhaldsleysi. Eins var ég með um tíma lager vegna málningarsölu í húsinu.

Þetta var fyrir u.þ.b. 40 árum síðan og hygg ég að svona möguleiki sé vandfundinn í dag. Auk þess sem ungu fólki hefur verið gert ómögulegt að koma sér upp þaki yfir höfuðið af eigin rammleik, með regluverki. Ég hef áður sagt frá Ásbyrgi hér á síðunni, án aðdraganda kaupanna og læt þá sögu fljóta hér með aftur.

Ásbyrgi var sem sagt, fyrsta húsið sem ég eignaðist, keypti það árið 1986. Það var byggt á Djúpavogi árið 1947 af Birni Gústafssyni og Rakel Jónsdóttir, sem þá voru um tvítugt. Þegar þau fluttu úr húsinu til Akraness árið 1963 höfðu þau eignast 6 börn. Margir höfðu búið í húsinu í eftir Birni og Rakel, lengst af Kristján og Antonía ættforeldrar margra Djúpavogsbúa, sem kennd voru við Garða.

Þegar ég eignaðist Ásbyrgi var það farið að líta verulega upp á landið en samt í notkun sem verbúð fyrir farandverkafólk. Margir vildu meina að húsið væri ónýtt þegar ég keypti það og best færi á að brjóta það niður og nota lóðina annað. Steyptir veggir voru illa farnir, gluggar ónýtir og múrhúð víðast hrunin.

Þegar ég leitaði fjármögnunar í Landsbankanum á Djúpavogi var húsið ekki talið lánshæft. Það kom ekki til þessa að fjármagna þyrfti endurbætur í gegnum banka. Fljótlega eftir að þær hófust árið 1989 kom fram áhugi á að kaupa húsið uppgert. Rifið var innan úr húsinu, fyllt í kjallara þar sem hafði verið olíukynding.

Við endurgerð innanhúss var fyrra skipulag látið halda sér að mestu en þó var einu litlu herbergi bætt við stofu, forstofa breikkuð og höfð opin inn í húsið til að auka birtu og rími. Eins var baðherbergi stækkað um 20-30 cm á báðar hliðar á kostnað eldhúss og hjónaherbergis. Útveggir eingraðir og múrhúðaðir á hefðbundinn hátt. Milliveggir hlaðnir úr vikri og múrhúðaðir. Allt rafmagn - og vatnslagnir endurnýjaðar. Út úr þessu fékkst lítið fjögra herbergja einbýlishús.

Fyrri part sumars 1989 var húsið gert upp að utan, múrhúðað og skipt um pappa og járn á þaki. Steypan í útveggjum hafði valdið mér heilabrotum, og þá hvort betra væri að klæða húsið og einangra að utan.

Niðurstaðan varð sú að gera við steypu og múrhúða húsið með hrauni, sem sagt hefðbundið verklag á steinsteyptum útveggjum fyrri hluta 20. aldar. Sökklar og fyrrum kjallaraveggir voru einangraðir og klæddir að utan með STO múrkerfi til að fá einangrun fyrir gólfplötu. Allt steypuefni var fengið úr næstu fjöru eins og venjan var þegar húsið var byggt.

Síðar sumarið 1989, komu þau hjónin Björn og Rakel á Djúpavog og bönkuðu upp á hjá mér að kvöldlagi og báðu mig um að sýna sér húsið, sem var þá komið á loka stig endurbótanna. Ég sýndi þeim það náttúrulega með glöðu geði, en óttaðist satt að segja svolítið að ég hefði breytt húsinu þannig að þeim myndi ekki líka.

Oftar en einu sinni sagði Rakel; „Bjössi af hverju höfðum við þetta ekki svona“, -þar var um að ræða baðherbergið sem var stærra og því pláss fyrir þvottavél, en þvottahúsið ásamt kyndikompunni, hafði verið niður í kjallara sem var utangengur. Annað atrið sem hún minntist á var staðsetningin á eldhúsvaskinum sem var kominn við glugga þannig að Búlandstindurinn, staðar prýði Djúpavogs, blasti við þegar vaskað var upp.

Þegar Rakel var sest út í bíl spjölluðum við Björn í smá stund og hann sagði mér hversu erfitt hefði verið með aðföng og efni þegar þau byggðu húsið, allt í höftum og skömmtunum, -enda skömmu eftir stríð. Þetta vissi ég vel því fyrr um nágranni þeirra hafði sagt mér að hann hefði byggt sitt hús á sama tíma og upphaflega hefðu þau verið eins. Sá sagðist hafa verið betur settur en Björn og Rakel að því leiti að hann hefði haft sambönd austur á Norðfjörð og getað fengið þar eitt og annað tilfallandi.

Þó svo að Ásbyrgi hafi ekki verið ætlað langt líf af mörgum þegar ég keypti það þá hefur það nú þjónað núverandi eigenda í rúm 36 ár, -er vel viðhaldið, í alla staði Djúpavogi til prýði og eigenda sínum til mikils sóma.

Ef farið er aftur fyrir þá tíma þegar Björn og Rakel byggðu Ásbyrgi, þá er frásögn í bók Tryggva Emilssonar – Baráttan um brauðið, -góð lýsing á því hvernig almenningur kom sér upp þaki yfir höfuðið fyrri hluta 20. aldarinnar þegar höft helsisins höfðu verið brotin á bak aftur með fullveldinu. Tryggvi lýsir þar þegar hann byggði íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri fyrir hátt í hundrað árum, en hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáum dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Þessi möguleiki hefur verið tekinn frá ungu fólki með höftum og rándýru regluverki, þess í stað er boðið upp á hlutdeildarlán á helfrosnum íbúðamarkaði.


Bloggfærslur 24. september 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband