7.9.2025 | 07:51
Hold kæft mand
Það er kannski ekki rétt að segja frá samtölum þó allrar athygli séu verð. En ef, -þá er rétt að sleppa því sem getur valdið særindum þó sárt sé umræðuefnið sem sagt er frá.
Fyrir stuttu hafði félagi minn og vinur frá því í bernsku samband við mig með vinarbeiðni á facebook, við áttum margt saman að sælda fram yfir tvítugt, en þá skyldu leiðir. Hann flutti í borgina og fljótlega þaðan til Danmerkur.
Síðan þá hef ég aðeins heyrt einu sinni í honum, fyrir tæpum 20 árum síðan. En þá var honum mikið niðri fyrir vegna ógæfu sem hann vildi afstýra og bað mig um að hafa milligöngu þar um, þetta tengdist því hvers vegna hann yfirgaf æskustöðvarnar.
Hann hafði sagt mér þetta allt saman skömmu áður en hann fór héðan, þannig að ég var inn í málinu og gat sagt honum að vera alveg rólegum því ég hefði þegar varað viðkomandi við og sá væri meira en meðvitaður um hvað málið snérist.
Ég hafði ekki heyrt í þessum æskufélaga frá því að hann hafði samband, þarna um árið, með símhringingu um miðja nótt. Síðan var það núna í gærkvöld að skilboð komu upp á facebook um hvort það væri í lagi að hann hefði samband. Ég ok-ey-aði það.
Hann hringdi strax og spurði á dönsku hvort það væri í lagi að hann talaði dönsku því hann hefði týnt niður íslenskunni og síðan spurði hann hvernig ég hefði það, sagðist hafa séð áhugaverðar myndir sem ég hafði póstað á facebook.
Ég sagði honum að danska væri í lagi mín vegna, en ég myndi tala íslensku því hann hlyti að skilja hana betur en ef ég færi að rifja upp norskuna mína, -og ég hefði það bara þokkalegt, væri enn í steypunni eins og myndirnar bæru með sér á facebook. - Spurði svo um hans hagi.
Það kom löng þögn frá félaganum, og síðan að hann væri bara ekki viss um að hann væri að tala við réttan mann, -hann kannaðist ekki við röddina í mér, þannig að hann væri ekki tilbúin til að tjá sig um sína hagi.
Ég sagði honum að það væri samt sá Magnús, sem hann hefði óskað eftir samtali við, sem hann væri að tala við, og það væri einkennilegt að hann rengdi mig um að vera sá sem ég segðist, -maður sem nú talaði dönsku með orðaforða og raddbeitingu sem ég kannaðist ekki við af honum frá bernsku.
Samtalið gekk nokkuð stirt um tíma, en svo spurði hann hvort ég myndi eftir atviki úr okkar bernsku, um fuglinn, þegar við fórum upp á kletta, hann myndi bara ekki lengur hvað klettarnir hétu. Ég sagði honum að þeir hétu Hamrar. Hann meðtók það ekki og efaðist áfram um hver ég væri.
-Þetta voru Hamrarnir; sagði ég, -og fuglinn var rjúpa. Manstu hvernig fuglinn drapst; spurði hann. Rjúpan át einangrunarplast; svaraði ég. Hold kæft mand du er Magnús.
Eftir þetta gekk samtalið greiðlega og varð bæði langt og ánægjulegt þar sem ýmislegt var rifjað upp. Hann kom inná atburðina sem urðu til þess að hann yfirgaf æskustöðvarnar, og sagði að kannski væri best að hann kæmi til baka og kveddi drauginn niður.
Ég hvatti hann til þess og sagðist skyldi taka á móti honum og segja honum við það tækifæri framhald þeirrar húsbyggingar draugasögu, sem mér væri nú sennilega kunnari en honum.
Hann sagði að til Íslands hefði hann ekki haft nokkurn áhuga á að koma í 30 ár og hann efaðist um að hann hefði sig í það eftir þetta, búinn að koma sér vel fyrir í Danmörku. Spillingin væri bara svo yfirgengileg á Íslandi að furðulegt væri að það hefðu ekki fleiri yfirgefið klakann. Og bauð mér síðan að heimsækja sig til Danmerkur til að ræða málin.
Ég sagði honum að hann þyrfti ekkert að segja mér um spillingu á Íslandi, ég hefði flúið til Noregs eftir hið svokallaða hrun og búið þar í 3 ár til að senda hverja krónu heim, en komið til baka við fyrsta tækifæri.
Og nú væri ég búin með kvótann utan landsteinana hefði bæði starfað í Ísrael og Færeyjum, ferðast oft þvers og kruss um Bandaríkin í sambandi við steypu þó svo að ég hafi ekki starfað þar né búið.
Þar að auki hefði besti vinur minn og frændi búið í Ástralíu yfir 40 ár, yngsta systir mín búið í S-Frakklandi lengur en hann í Danmörku og yngsti bróðir í Englandi hátt í 20 ár.
það væru fleirum en honum sem ekki hugnaðist að búa á Íslandi, en út fyrir landsteinana gæti ég ekki hugsað mér að fara úr þessu.
-Hold kæft mand; sagði hann þá, -og við kvöddumst sáttir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)