Skellt í lás og farið til helvítis.

Í gær skellti ég í lás í síðasta sinn.  Í dag er ég atvinnulaus, en jafn tekjulaus og ég hef verið síðustu mánuði.  Sennilega er ég kominn í sömu stöðu og margir Íslendingar, að sjá trauðla fram úr hlutunum, finnast réttlætinu hafa verið fórnað á altari Mammons og vera komin í hraðlestina til helvítis.

 

Ég hef allan minn starfsferil, frá 23 ára aldri verið í vinnu hjá sjálfum mér, eigin fyrirtækjum. Tímarnir hafa verið misjafnir en ég og fyrirtæki mín hafa getað staðið í skilum í gegnum tíðina. Núna viku í fimmtugt, eru einungis líkur á að þau vanskil sem ég verð valdur að aukist við að halda áfram rekstri. Því var ekki um annað að ræða en skella í lás, því siðferðisvitund mín getur ekki samþykkt að mínum vanda verði velt á aðra.

 

Árið 2008 voru fyrirtækin mín tvö. Annað verktakafyrirtæki í byggingariðnaði með 10 manns í vinnu auk þess að reka sérverslun með flísar og baðtæki. Hitt fasteignafélag sem leigir út húsnæði. Árið 2008 urðu margir af mínum stærstu viðskiptavinum gjaldþrota, verkefnin gufuðu upp, tapið er ómælt. Skuldir fasteignafélagsins stökkbreyttust. En þetta er svo sem ekki annað en það sama og gekk yfir allt Ísland það ár.

 

Bæði fyrirtækin voru byggð upp í samstarfi við aðra, verktakafyrirtækið keypti svo ég af félögum mínum seint á árinu 2007. Það hefði þurft 2 - 3- þokkaleg ár til að komast slétt frá þeim kaupum. Fasteignafélagið á ég svo með öðrum félaga. Tveir af þremur félögum mínum í þessum atvinnurekstri eru fluttir til Noregs. Þeir fluttu þangað fyrir rúmu ári síðan til að hefja nýtt líf. Ég sé óumræðanlega eftir þessum vinum mínum yfir hafið. Og kemur oft í hug það sem annar þeirra sagði; "Maggi ég sé ekki betur en komandi ár á Íslandi verði hreint helvíti. Ég ætla ekki að eyða seinni hluta ævinnar í að borga húsið mitt aftur".

 

Það sem er eftir af eigin rekstri eftir rúman aldarfjórðung er alfarið í "eigu" fjármálastofnana í dag, þó þær séu meira gjaldþrota en allt sem heitið getur. Síðustu tvö ár hef ég reynt að sæta lagi með því að breyta flísaversluninni í ferðamannaverslun yfir sumarmánuðina. Það gekk upp 2009 og gaf vonir um að hægt væri að vinna á vandanum. Árið 2010 hækkaði leigan einhliða og skildi miðaðast við byggingarvísitölu frá 1.janúar 2007. Leigan mín er helmingi hærri en verslunin hinu megin við götuna greiðir og þreföld leiga sem greidd er fyrir húsnæði þar sem fyrrum um byggingaverslun var til húsa. Eftir umleitanir um sanngjarnari leigu ákvað ég að vera út árið, enda staðsetningin góð þegar ég hugsaði til ferðamannanna frá fyrra sumri. Leigusalinn er ný skeint fjármálafyrirtæki eftir að hafa verið með drulluna upp á bak án þess að verða gert gjaldþrota. Uppvakið af fyrrum gjaldþrota Seðlabanka Íslands, það auglýsir nú grimmt með nýju eigin fénu á besta tíma sjónvarpstöðvanna "Komdu heim í Sparisjóðinn".

 

Í vor hófust óvænt umfangsmiklar lóðarframkvæmdir sem stóðu í mest allt sumar. Innkoma verslunarinnar varð 60% minni en sumarið 2009. Þegar ég fór þess á leit við leigusalan að fá eftirgefna leigu vegna tekjuhruns var svarið þvert nei. Þar á eftir fylgdu umvandanir um það að ég hefði betur gert ráð fyrir mögrum árum eftir góðærið í byggingariðnaði 2004 -2007. Þessum orðum til réttlætingar, átti ég að ég hafa tekið milljóna tugi út úr rekstri í eigin þágu þegar vel áraði. Ég fór fram á að vita hvaðan þessar upplýsingar kæmu svo ég gæti leiðrétt þær. Leigusalinn (sparisjóðsstjóri) sagðist hafa þær beint upp úr ársreikning 2009 sem ég hefði sent honum þegar hann ætlaði að skoða hvort lægri leiga kæmi til greina. Ég varð að biðja hann um að skoða þetta betur þessir miljónatugir sem hann teldi að hefðu lent í mínum vösum voru tekjusamdrátturinn sem varð á milli árann 2008 og 2009, starfsmaður fyrirtækisins væri orðinn einn í stað tíu og hann væri nú tekjulaus ég, sem væri auk þess í persónulegum ábyrgðum upp á milljónir.

 

Þessi sami sparisjóðstjóri og ég gerði uppahaflegt leigu samkomulag við fyrir tæpum 5 árum síðan, las þetta út úr þeim gögnum sem hann hafði um mín mál og tjáði mér væri því mátulegt að sitja uppi með forsendubrest undangenginna ára. Þegar sama fólkið í fjármálastofnunum fyrir og eftir hrun er við að semja ætti það að vera kostur, allavega mætti ætla að það þekkti menn og málefni. En það virðist vera að þeir sem enn sitja í sínu starfi með sömu laun og áður sé ómögulegt að skilja að svoleiðis sé það ekki allsstaðar. Það sem verra er að margir sem ekki hafa misst milljónina sína á mánuði virðast halda að þær tekjur sem ekki eru lengur sýnilegar séu nú komnar í svart hagkerfi.

 

Hæstiréttur hefur úrskurðað um hvernig farið verður með skuldamál hins fyrirtækisins. Nú er mér full ljóst hvers vegna Geir Haarde bað Guð um að blessa Ísland 6. október 2008. Við erum á hraðferð til helvítis.


mbl.is Eggjum kastað í alþingismenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"If you are going through hell, keep going." - Sir Winston Churchill

CrazyGuy (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 13:47

2 Smámynd: Sigurjón

Sæll Magnús.

Gangi þér vel í framtíðinni.  Öll él birtir upp um síðir.

Kv. Sigurjón

Sigurjón, 2.10.2010 kl. 03:21

3 identicon

Þetta þykir mér leitt að heyra, en skil vel að þú sættir þig ekki við þessa okurleigu því ég veit að hún er fáranleg. Af sömu ástæðu ákvað ég að loka SSbúðinni þegar ég missti húsnæðið þar sem ég var,  sem og vegna þess að sveitarfélagið ákvað að grafa sundur allar götur sem lágu að minni búð án þess að nefna það einu sinni við mig að það stæði til, þannig að til mín var ófært nema gangandi fólki og svoleiðis var það á 3 mánuð. Þegar ég fót á stúfana að leita nýs húsnæðis var okrið svo gengdarlaust að fyrirséð að ekki nokkur smárekstur gæti staðið undir því. Nú og svo fyrir utan þá datt mér ekki í hug að reka blómabúð í samkeppni við ríkið og bankana. Við opnum Aftur Maggi minn þegar við finnum eitthvað sem hentar okkur og venjulegt fólk ræður við og kannski verðum við í þannigð aðstöðu í sitt hvoru rýminu að við getum fengið okkur kaffi saman, þegar engin kúnni lætur sjá sig :-)

(IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 19:49

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur innlitin.

Crazy Guy; við þessi fínu heilræði má bæta við því sem stóð á Ferguson dráttarvélunum "Multi power" og svo náttúlega "Still going strong".

Sigurjón; þetta eru orð að sönnu.  Eins er það oft í miklum skafrenningi að það er bjartur dagur rétt fyrir ofan.  Gangi þér sömuleiðis vel vinur.

Silla; það var meiningin með þessum pistli að benda á hvað mikilvægt er að setja sig í annarra spor.  Ef sá sem hefur góðar tekjur getur ekki sett sig í spor þess sem hefur misst tekjur og stendur frammi fyrir meirháttar forsemdubrest.  Þá erum við á leiðinni til helvítis. 

Þú varst skinsöm að hætta strax.  Auk þess að kringum mig hafa verið stór framkvæmdir annað hvert sumar þá var ég svo einfaldur að hafa ekki hugmyndaflug til að sjá að gjaldþrota company yrðu rekin út í eitt á kostnað skattgreiðenda og þegar það bryti í bága við "samkeppnislög" þá hlypu lífeyrissjóðirnir "okkar" undir bagga. 

Eða eins einn "málsvari almennings" sagði við mig "öll ættum við að geta verið sammála um það að bönkum í okkar eigu ber að hámarka verðmæti eigna sinna".   Ef það á að gera það svona er okkur gert að fjármagna eigið gjaldþrot. 

Magnús Sigurðsson, 3.10.2010 kl. 09:21

5 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Sæll Magnús,

þetta er leitt að heyra bloggfélagi

gangi þér vel að lenda þessum öllu - veit ekki hvort ég get orðið þér að nokkur liði öðru en með góðum hug til þín og þinna

mbkv

Jón Snæbjörnsson

Jón Snæbjörnsson, 3.10.2010 kl. 22:00

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Jón;  takk fyrir vinur, kveðja frá manni með hjartað á réttum stað lýsir upp daginn.

Magnús Sigurðsson, 4.10.2010 kl. 07:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband