12.6.2011 | 22:03
Engin veit sína ævina
Fyrir u.þ.b. þremur vikum síðan lagði ég í hann yfir hafið til Noregs. Mér bauðst vinna sem ég tók fagnandi eftir atvinnuleysi vetrarins. Atvinnutilboðið bar brátt að og ráðningarferlið einfalt. Á föstudegi sendi ég inn fyrirspurn vegna starfs. Á mánudagsmorgni var hringt og spurt hvort ég gæti hugsað mér að flytja til Noregs og á þriðjudegi voru farmiðar á mail-inu mínu. Það var svo með fyrsta flugi eftir að gosið hófst sem ég lagði af stað suður. Heima á Egilsstöðum var kafalds hríð allt hvítt að kvöldi þann 23. maí og ég þurfti að fá Sigga son minn til að koma á fjórhjóladrifsbíl til að keyra mér á flugvöllinn sem er svo stutt frá þar sem ég bý að það borgar sig að labba ef maður hefur engan farangur.
Það var undarleg tilfinning að yfirgefa landið sitt, hvítt og svart, snjór fyrir norðan og aska fyrir sunnan og í miðjunni gaus Vatnajökull. Morgunnflug með SAS átti að vera flugið mitt þann 24. maí en þar sem flugi hafði verið aflýst tvo daga á undan vegna ösku voru farþegarnir u.Þ.b. 70 fleiri en komust í vélina. Mér var sagt við innritun að ég væri ekki á farþegalistanum og yrði að hringja í SAS til að fá skýringu á því. Ég hringdi í SAS og fékk að vita að ég hefði verið settur í flug tveimur dögum seinna og því yrði ekki breytt vegna óviðráðanlegra aðstæðna.
Þar sem ég hafði nógan tíma ákvað ég að bíða og sjá hvernig innritunin endaði. Það voru 8 sætum óráðstafað í lokin fyrir um 60 manns sem enn biðu eins og ég, þegar 2 sæti voru eftir var kona kölluð upp sem gekk ljómandi að innritunarborðinu og henni fylgdi maður sem sagðist vera ferðafélagi hennar ásamt konu sinni. En sætin voru aðeins tvö en þau þrjú. Önnur daman í innrituninni hringdi og gaf svo hinni merki um að afhenda engan miða, það væri aðeins eitt sæti laust. Því næst kallaði hún, "Magnús Sigurðsson er hann hér", þá var komið að mér að ljóma. Ég þurfti að hlaupa í vélina og þær sem tóku við miðunum kölluðu þegar þær sáu mig, "hlauptu hraðar Magnús það bíður full vél bara eftir þér".
Þegar vélin hækkaði flugið sást niður á landið, vinstra megin var það hvítt hægra megin lá yfir því ömurlega svört móða sem gaf til kynna að ef hún legðist yfir flugvelli að þá yrði varla mikið um flug. Hvernig það stóð á því að ég komst með þessu flugi er mér ennþá hulin ráðgáta, en einhver ákvað að svo skildi vera og þar sem ég hafði ekkert að gera var eitthvað sem sagði mér að bíða þessa tvo tíma sem innritunin tók. Ég komst því langt norður fyrir heimskautsbaug alla leið til Harstad þar sem vinnan beið mín, þennan sama dag.
Harstad er önnur stærsta borgin í Troms fylki og sú þriðja stærsta í N-Noregi, íbúar eru um 23.000. Borgin er á Hinneyju sem er stærsta eyjan við Noregsstrendur aðeins eyjar Svalbarða eru stærri, af þeim eyjum sem tilheyra Noregi. Hluti Harstad stendur á Trondenes sem um er getið í Heimskringlu sem höfuðstaðar á Víkingatímanum. Harstad sem heitir Harðarstaðir í Heimskringlu tilheyrðu Hálogalandi sem var lítið konungdæmi snemma á víkingatímanum fyrir daga Haralds Hárfagra. Hálogaland náði frá Namdalen í norðanverðum Þrándarlögum til Lyngen í Troms, samkvæmt wikipedia.
Þar sem Harstad er getið í Heimskringlu Snorra þá má geta sér þess til að tengsl þessa svæðis í Noregi við Ísland hafi verið mikil á víkingatímanum og frá Hálogalandi hafi fólkið sem ekki sættu sig við yfirráð Haraldar Hárfagra komið til Íslands. Allavega finnst mér ég sjá hér sömu andlitin og í gegnum tíðina á Íslandi. Fyrsta daginn í vinnunni varð mér starsýnt á ungan mann sem ég hélt að væri Villi Rúnar heitinn frændi minn kominn ljóslifandi. Sömu ljómandi augun, nefið og augnumgerðin nema ég minnist þess ekki að hafa séð Villa með skegg.
Núna eru vikurnar að verða þrjá hér í Harstad, ég lofaði að vera 13 vikur til að byrja með og sjá svo til hvort framhald yrði. Það er svolítið sérstakt að vera í þrældóms múrverki fimmtugur vinnandi með mönnum sem flestir eru á mun betri aldri. Vinnufélagarnir eru frá Afganistan, Súdan og Noregi. Vinnuveitandinn og eigandi Murbygg er kjarnorku kona, Mette Eide menntuð sem verkfræðingur en hefur rekið Murbygg í áratugi. Vissulega svolítið sérstakt að kona skuli reka hreinræktað múrarafyrirtæki. En sem komið er leggur hún áherslu á að ég flytji ásamt Matthildi minni hingað til Harstad, allavega í fáein ár meðan atvinnuástandið er gott hér og slæmt á Íslandi. Matthildur kemur í ágúst til að skoða sig um og þá verður ákvörðun tekin um framhaldið.
Það hafa verið ófáir sólskinsdagar hérna langt fyrir norðan heimskautsbaug og heimskautanóttin bjartari en dagarnir geta verið sunnar á hnettinum. Þó svo vinnan sé allt annað en létt fyrir gamlan skarf í eingri þjálfun, þá er bara lífsins ómögulegt að sofa sólskinsbjört kvöldin. Þau eru notuð til gönguferða auk þess sem vinnuveitandinn Mette hefur tekið mig í kennslustund í seglbátasiglingu, en siglingar um norðurhöf á skútunni Libra eru áhugamál Mette og Sverre sambýlismanns hennar.
Það er ekki hægt að segja annað en að móttökurnar sem íslendingur fær hér hjá íbúum Hálogalands séu höfðinglegar. Í dag Hvítasunnudag var ég boðinn í grillveislu í sveitinni þar sem heilgrillað var lamb í samatjaldi og flutt lifandi samísktónlist.
Athugasemdir
Gaman að lesa þessa sögu þín, ekki frá því að við öfundum þig pínulítið. Við minnust þess ekki heldur að hafa séð Villa Rúnar heitinn með skegg en kannski er hann bara þarna með þér. Njóttu þess að vera þarna í Norge og hér er einskis að sakna nema auðvitað fjölskyldu og vina þinna. Kveðja Maggi og Fjóla
Fjóla og Maggi (IP-tala skráð) 12.6.2011 kl. 22:39
Vegni þér allt sem best kæri vin. Þú ert hjá góðu fólki. Líklega skottast ég yfir hafið á næsta ári, þó ekki væri nema til að heimsækja móður, systur og myndarlegan frændgarð í Hemsedal og Balestrand. Þú hefur einskis að sakna héðan eins og er. Sama andsk...ruglið í landsöluhyskinu og svo hefur enn ekkert bólað á sumri. Það snjóaði hér fyrir þrem dögum eða svo, og hitinn nær ekki að skríða mikið yfir 5 gráður.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.6.2011 kl. 23:32
Og sem kveðja: Hér er einn undursamlegur Norskur spilleman að spila Sænska lagið Ack Varmeland du sköna. Tor I. Sand.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.6.2011 kl. 00:11
Takk fyrir hlýjar kveðjur frá landinu kalda og fagra.
Jón Steinar það er ekki amalegt að vakna upp við "Varmeland du sköna" í þessum flutningi á björtum morgni.
Fjóla og Maggi við erum oft nær hvort öðru en við höldum. Þið gætuð haft gaman að því að kíkja á þetta hér.
Magnús Sigurðsson, 13.6.2011 kl. 07:11
Magnús mig hefur lengi grunað að þú værir maður með sambönd.
Sem engir dauðlegir menn eða flugfélög hafa neitt yfir að segja
ekki einu sinni Páfinn.
Sólrún (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 23:05
Þegar þú segir það Sólrún, þá sé ég að ég hef ótrúlega oft fengið annað tækifæri þegar allt er komið í strand. Veit samt ekki alveg hvort ég hef níu líf eins og kötturinn.
Magnús Sigurðsson, 15.6.2011 kl. 15:09
Það var gaman að lesa ævintýri þitt Magnús. Gangi þér allt í haginn hjá frændum vorum.
Kveðja, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 16.6.2011 kl. 14:37
Takk fyrir það Kristján.
Magnús Sigurðsson, 16.6.2011 kl. 19:52
Emil biður að heilsa þér og ég átti að segja þér að hann væri að klippa og snyrta í garðinum í nánanst óbærilegum hita. :) Hann segir textan góðann á Norska laginu sem er með myndbandinu.
Katla G (IP-tala skráð) 18.6.2011 kl. 20:10
Takk fyrir commentið og kveðjuna Katla, þú verður að færa Emil kaldan bjór eða límonaði út í garð úr því að það er ekki hægt að fá Sinalco lengur.
Magnús Sigurðsson, 18.6.2011 kl. 20:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.